Háskóli Íslands

Á vettvangi vísindanna

Fjör og fræði á dagskrá

Á vettvangi vísindanna var hluti af Háskóla unga fólksins sumarið 2010. Kennarar og nemendur 6. -10. bekkja grunnskóla heimsóttu háskólasvæðið. Dagskráin var einkar viðburðarík og margt óvænt varð á vegi gesta.
 
Leið lá um Háskólabíó, Háskólatorg, Aðalbyggingu og Öskju og margt var um að vera á hverjum viðkomustað.

Gott var að vita sitthvað um mat og næringu og komu skemmtileg heilabrot um hitaeiningar daglegrar fæði ýmsum á óvart. 

Krukkuborg, ógleymanlegt líffærasafn læknadeildar var til sýnis og gestir komust í náin kynni við beinagrindur af ýmsum stærðum og gerðum. Margur lærði ýmislegt um sinn innri mann.

Tennur og tól voru skoðuð, tæki til mælinga og lækninga voru kynnt og prófuð, og blóðþrýstingur eða blóðsykur félaganna kannaður til hlítar.

Líkamlegt ástand gesta var kannað með ýmsum öðrum hætti og heilsa og lífsstíll var tekinn til skemmtilegrar skoðunar.

Nóg var af þrautum af ýmsum toga, leikjum og brellum sem tengjast vísindum og fræðum. 

Gestum var boðið að upplifa mál og menningu þjóða og fjarlægra landa,
stefnumót við forfeður og sögu tók á sig einstaka mynd með beinaskoðun fornleifafræðinnar og menningarmiðlunin hafði sitthvað að sýna ungum gestum.

Þjóðfræði, mannfræði, stjórnmálafræði og fjölmiðlafræði lifnuðu við og ýmsu var velt fyrir sér um sjálfa sig og aðra ... jafnvel um afa og ömmu!

Dýraríkið og plönturíkið var líka kannað, krabbar og körtur, frumur og fiskar, fuglar og froskar. Slóðir jarðvísindanna voru kannaðar, sýni, myndskeið og sögur af eldgosum biðu glóðvolg í Öskju. Ekki gleymdist stjörnufræðin, því gestir kynntust undrum himingeimsins með einstökum hætti.

Sprengjugengið landsfræga sá um að gera heimsókn á vettvang vísindanna eftirminnilega, því sýning efnafræðinganna djörfu voru fastur liður í heimsókn allra hópa. Það voru vísindi með neistaflugi og látum!