Háskóli Íslands

Áhuginn á japönsku kviknaði í Háskóla unga fólksins

„Ég og vinkona mín vorum að leita að einhverju nýju og spennandi til að gera þetta sumar. Á þessum tíma var systir mín, sem er níu árum eldri en ég, í rafmagnsverkfræði í háskólanum og í gegnum hana frétti ég af Háskóla unga fólksins. Það var eitthvað svo ótrúlega spennandi við að fá að fara í sama skóla og systir mín og ég man hvað ég var forvitin um það sem færi fram innan veggja háskólans,” segir Guðrún Helga Halldórsdóttir, BA-nemi í japönsku við Háskóla Íslands og einn af nemendum í fyrsta árgangi Háskóla unga fólksins (HUF). Guðrún Helga er í hópi kennara HUF í ár, nú þegar skólinn fagnar tíu ára afmæli.
 
Háskóli unga fólksins er ætlaður krökkum á aldrinum 12-16 ára. Skólinn stendur yfir í fimm daga og þá sækja nemendur fjölda stuttra námskeiða og kynnast undrum tilverunnar með vísindamönnum og nemendum Háskóla Íslands. Skólahald í ár fer fram dagana 10.-14. júní og er von á um 350 nemendum að þessu sinni. 
 
Valdi japönsku til að fylla stundatöfluna
Guðrún Helga var á þrettánda ári þegar hún sótti Háskóla unga fólksins á fyrsta starfsári hans. Aðspurð hvaða námskeið hún hafi sótt segist Guðrún Helga reynt að hafa valið eins fjölbreytt og mögulegt var. „Ólíkt mörgum átti ég ekki draum um að verða neitt sérstakt þegar ég „yrði stór“ og því var tilvalið að fá tækifæri að kynnast sem flestu. Ef ég man rétt var ég til dæmis skráð í eðlisfræði, kynjafræði og lögfræði. Síðan vantaði mig eitt námskeið til að fylla töfluna mína og bætti því við námskeiði í japönsku,” rifjar hún upp.
 
Það átti heldur betur eftir að reynast örlagaríkt því í kjölfar námskeiðsins í japönsku í HUF fór Guðrún Helga að forvitnast meira um japanskt mál og menningu. „Ég heillaðist meir og meir með hverjum deginum og þessi áhugi varð m.a. til þess að ég sótti um að fara sem skiptinemi í þrjár vikur til Japans á vegum Lions-hreyfingarinnar til Japan að loknum menntaskóla. Þar bjó ég hjá fjölskyldu í japanskri sveit þar sem aðeins var töluð japanska. Þá sá ég hvað þjóðirnar tvær eiga í raun margt sameiginlegt. Þrátt fyrir að skilja ekki málið á þeim tíma myndaði ég sterk bönd og ég ímyndaði mér ef að ég vissi meira um menninguna og málið gæti ég fundið mitt framtíðarstarf þar,“ segir hún.
 
Hún segir að það hafi einnig haft áhrif að amma hennar og afi hafi verið í viðskiptum við fyrirtæki í Japan „og amma var dugleg við að vekja áhuga minn á japanskri menningu með því að benda mér á ýmsar japanskar kvikmyndir og skáldsögur.“ Guðrún segist því bæði hafa þótt japanskan spennandi tungumál og séð mörg tækifæri í viðskiptum og samskiptum milli þjóðanna tveggja. 
 
Japanska varð því fyrir valinu í Háskóla Íslands. Hún er hins vegar ekki eini nemandinn úr fyrsta árgangi HUF sem valdi þá leið. „Ég var að skoða mynd frá útskrift HUF 2004 um daginn og þá tók ég eftir því að kunnuglegur strákur stóð við hliðina á mér. Sá reyndist vera núverandi samnemandi og góðvinur minn í japönsku til tveggja ára sem er ansi skemmtilegt tilviljun!“ segir Guðrún Helga.
 
Gefandi að taka þátt í Háskólalestinni
Guðrún Helga var að ljúka öðru árinu sínu sem BA-nemi í japönsku máli og menningu og hyggst flytja út til Tókýó í haust til að ljúka síðasta árinu sem skiptinemi við Waseda-háskóla. Áður en að því kemur mun hún hins vegar taka þátt í japönskukennslu í Háskóla unga fólksins auk þess sem hún kemur að Vísindaafmælinu í Háskólabíói sem fram fer á lokadegi Háskóla unga fólksins í ár.
 
Við þetta má bæta að Guðrún Helga hefur tekið þátt í Háskólalest Háskóla Íslands sem fór um landið í maímánuði með valin námskeið í Háskóla unga fólksins og vísindaveislu fyrir alla fjölskylduna. „Það hefur yndislegt og mjög gefandi fyrir mig að fá að taka þátt í Háskólalestinni. Ég sé sjálfan mig í mörgum af þessum nemendum, mikil forvitni og mikið af nýjum uppgötvunum á mörgum sviðum sem er yndislegt! Á ferð okkar hef ég hitt þónokkra nemendur sem ég efast ekki um að munu einn daginn fara í nám í japönsku við Háskóla Íslands! Svo er alltaf jafn gaman að sjá hvað fullorðnir sem börn eru forvitin um japanskt mál og menningu,“ segir Guðrún Helga.
 
Sem fyrr segir verður Háskóli unga fólksins dagana 10.-14. júní í Háskóla Íslands. Frekari upplýsingar um skólann og námið má finna á heimasíðunni ung.hi.is.