Háskóli Íslands

Fullbókað í Háskóla unga fólksins 2018

Það er fullbókað í Háskóla unga fólksins 2018 og búið að loka fyrir skráningar. Hlökkum mikið til að taka á móti okkar nýju nemendum 11. júní og sjá háskólasvæðið lifna við með unga fólkinu okkar.  

Hér eru hagnýtar upplýsingar fyrir Háskóla unga fólksins 2018

Skólasetning

Skólasetning verður mánudaginn, 11. júní kl. 8.30. Aðra daga hefst skólinn kl. 9. Nemendur eiga að mæta í sal nr. 102 á neðri hæð í Háskólatorgi. Háskólatorgið er við hliðina á Aðalbyggingu og þar er Bóksala stúdenta til húsa á aðalhæðinni. Á staðnum verða starfsmenn sem vísa nemendum til vegar eftir þörfum og aðstoða þá sem þurfa aðstoðar við. Þessir starfsmenn verða í merktum bolum svo að auðvelt verður að þekkja þá. Ekki er gert ráð fyrir forráðamönnum við setningu Háskóla unga fólksins.

Nemendur fá afhenta möppu við skólasetningu. Í henni er blýantur, laus blöð, kort af háskólasvæðinu, stundatafla, bréf frá háskólarektor og upplýsingabréf um Háskóla unga fólksins.

Tímasetning

Kennsla á námskeiðum hefst alla daga kl. 9 (ath. þó mætingu kl. 8.30 fyrsta daginn).  Námskeiðum lýkur kl. 15.

Stundatafla

Stundatafla var send með tölvupósti við innritun en nemendur fá afhenta nýja töflu við skólasetningu með réttum kennslustofum. Í einstaka tilfellum getur taflan hafa breyst vegna þess að þurft hefur að færa námskeið til eða fella þau niður. Ekki stendur til boða að breyta stundatöflu eftir að skólinn hefst eða mæta á námskeið sem nemendur eru ekki skráðir í.

Þemadagur

Miðvikudagurinn 13.júní er skipulagður sem þemadagur. Dagskráin þann dag hefst á mismunandi stöðum á Háskólasvæðinu. Skipulag þemadagsins verður kynnt nánar við setningu skólans.

Þjónustuborð Háskóla unga fólksins
 
Alla dagana sem skólinn er starfræktur verður starfsfólk á þjónustuborði Háskóla unga fólksins á Háskólatorgi. Starfsfólk er ávallt reiðubúið að veita nemendum aðstoð, ekki hika við að leita til þjónustuborðsins ef eitthvað er.  Að auki starfa fjölmargir við Háskóla unga fólksins sem eru í sérmerktum bolum og til þeirra má alltaf leita. Starfsfólk verður í öllum byggingum og víða um háskólasvæðið og alltaf til staðar. 
 
Matur og hádegishlé
 
Í hádeginu verður boðið upp á mat sem er innifalinn í námskeiðsgjaldinu. Vilji nemendur hafa með sér einhverja hressingu til að neyta milli kennslustunda er það að sjálfsögðu velkomið. Háma, matsala stúdenta, verður opin og þar geta nemendur keypt sér sitthvað matarkyns hafi þeir áhuga á slíku. Ekki er heimilt að fara með mat eða drykki inn í kennslustofur. Nemendur eru beðnir um að ganga snyrtilega um byggingar á Háskólasvæðinu.

Í hádegishléi verður ýmislegt áhugavert við að vera: Hópleikir, íþróttir, spil og spjall. Tveir tómstundakennarar verða á staðnum í hádegishléi og munu þeir skipuleggja og taka þátt í leikjum með nemendum.

Lokahátíð og vísindagleði

Föstudaginn 15. júní kl. 13:30-15:00 verður lokahátíð Háskóla unga fólksins og vísindagleði í Háskólabíói, foreldrar, forráðamenn og systkini eru velkomin. Þá fá nemendur afhent viðurkenningarskjal sem staðfestir þátttöku þeirra í skólanum og að því loknu verður haldin glæsileg vísindagleði með lifandi vísindamiðlun fyrir alla fjölskylduna. Þar verður hægt að kynna sér ýmislegt spennandi sem vísindamenn hafa upp á að bjóða. Ágætt væri að vita ef nemendur og forráðamenn þeirra verða ekki viðstaddir á lokahátíðinni því að þá munum við senda viðurkenningarskjalið heim. Hægt er t.d. að láta vita um fjarveru með því að senda tölvupóst á ung@hi.is.

Upplýsingar og aðstoð

Frekari upplýsingar fást með því að senda tölvupóst á ung@hi.is.