Háskóli Íslands

Fulltrúar allra landshluta í HUF

Krakkar hvaðanæva af landinu hafa drukkið í sig fróðleik og skemmt sér fyrstu þrjá dagana í Háskóla unga fólksins. Þar hafa jafnframt myndast ný vinabönd og aukið líf færst yfir háskólasvæðið.

Háskóli unga fólksins var settur á mánudag og fyrstu tvo dagana sóttu nemendur námskeið í fjölmörgum greinum Háskóla Íslands sem þau höfðu valið sjálf. Í dag, miðvikudag, var hins vegar svokallaður þemadagur þar sem nemendur einbeittu sér að einu sviði allan daginn. Meðal þess sem nemendur gátu valið í dag voru námskeið um kvikmyndir frá ýmsum sjónarhornum, stjörnufræði, jarðfræði, íþrótta- og heilsufræði, kynja- og stjórnmálafræði, tölvunarfræði og heilbrigðisvísindi þar sem nemendur hafa fengið innsýn inn í störf hinna ólíku heilbrigðisstétta.

Hádegishléin hafa nemendur svo nýtt til að næra sig á Háskólatorgi og einnig til hreyfingar. Íþróttakennarar hafa verið nemendum innan handar og staðið fyrir fjölbreyttri skemmtun á grasinu fyrir framan Aðalbyggingu Háskóla Íslands í hádeginu. Þar hafa sprækir krakkar meðal annars reynt fyrir sér í skotbolta, knattspyrnu, snúsnú og kubb svo eitthvað sé nefnt. Í gær, þriðjudag, var jafnframt boðið upp á fjöltefli í hádeginu þar sem tíu krakkar glímdu við skákmeistarann Róbert Lagerman frá Skákakademíunni.

Óhætt er að segja að Háskóli unga fólksins hafi mikið aðdráttarafl því nemendur úr öllum landshlutum koma til höfuðborgarinnar til að sækja hann. Sumir þeirra hafa kynnst starfseminni í gegnum heimsóknir Háskólalestarinnar svokölluðu en hún hefur síðustu vikur heimsótt nokkra staði á landsbyggðinni og boðið nemendum í eldri bekkjum grunnskóla upp á námskeið í nokkrum greinum úr Háskóla unga fólksins. Fleiri slíkar ferðir eru fyrirhugaðar í ágúst.

Hafi vottað fyrir feimni meðal einhverra nemenda í upphafi vikunnar er hún öll á bak og burt. Ný vinabönd hafa orðið til og almennt má segja að gleðin og fróðleiksþorstinn hafi verið ríkjandi þá þrjá daga sem liðnir eru af skólanum. Það staðfesta myndir frá skólastarfinu.

Dagskrá Háskóla unga fólksins heldur áfram á morgun, fimmtudag, þar sem nemendur kynnast fleiri vísindagreinum að eigin vali. Þá verður jafnframt boðið upp á grillaðar pylsur í hádeginu. Síðasti dagur Háskóla unga fólksins er svo á föstudag og lýkur honum með veglegri lokahátíð á Háskólatorgi.