Háskóli Íslands

Fyrrverandi nemandi HUF nú í kennarahlutverki

„Ég myndi segja að upplifunin í heild sinni hafi staðið upp úr. Að fá að kynnast annars konar námi, ef svo má segja, og að forvitnast um hin ýmsu fög,“ segir Ívar Daði Þorvaldsson, starfsmaður Vísindavefs Háskóla Íslands og kennari í Háskóla unga fólksins. Hann er fyrstur nemenda Háskóla unga fólksins til þess að kenna í skólanum.

Háskóli unga fólksins verður settur í tíunda sinn mánudaginn 10. júní en hann hefur verið árviss sumarboði í Háskóla Íslands. Þá sækja mörg hundruð krakkar á aldrinum 12-16 ára fjölbreytt námskeið í greinum innan háskólans í eina viku. Að þessu sinni eru nær 40 námskeið í boði og eitt þeirra er námskeið um Vísindavefinn sem verður í umsjón Ívars Daða og Jóns Gunnars Þorsteinssonar, ritstjóra Vísindavefsins.

Ívar Daði var í fyrsta nemendahópnum í Háskóla unga fólksins árið 2004 og valdi afar fjölbreyttar greinar. „Ég man eftir að hafa farið í fornleifafræði, spænsku og guðfræði. Annars gróf ég upp gömlu stundatöfluna mína og sá að ég hafði líka verið í tölvunarfræði, stærðfræði, verkfræði, viðskiptafræði og þýsku. Þau fög sem ég mundi strax eftir voru fög sem ég var forvitinn að vita meira um,“ segir Ívar Daði.

Aðspurður hvort hann hafi kynnst mörgum krökkum segist Ívar Daði hafa verið ákaflega feiminn á þessum tíma. „Þó kynntist maður einhverjum þegar leið á vikuna og maður var farinn að sjá sömu krakkana aftur og aftur í hinum ýmsu námskeiðum,“ segir hann.

Ívar Daði segir Háskóla unga fólksins ekki hafa haft bein áhrif á skólagöngu sína en hann leggur nú stund á hugbúnaðarverkfræði í Háskóla Íslands. „Þrátt fyrir að mér hafi fundist ýmis fög áhugaverð, til dæmis fornleifafræðin, þá fetaði ég nú ekki þá braut. Aftur á móti hef ég mjög fjölbreytt áhugasvið og ég tel að Háskóli unga fólksins sé einmitt mjög mikilvægur að því leyti, að leyfa krökkum að kynnast sem flestu,“ bendir Ívar Daði á.

Þetta er í þriðja sinn sem Ívar Daði kennir við Háskóla unga fólksins og hann hefur skýr skilaboð til þess fjölmenna hóps sem sest á skólabekk í næstu viku: „Ég vona að þið skemmtið ykkur vel í Háskóla unga fólksins og nýtið þetta tækifæri vel til að fræðast og hafa gaman. Svo er um að gera að kynnast sem flestum, ekki vera of feimin eins og ég var!“