Háskóli Íslands

Háskólalestin komin á leiðarenda

Eftir mörg þúsund kílómetra akstur og heimsóknir á níu staði á landinu í vor og sumar er Háskólalestin komin á endastöð. Lestin kom við á síðustu tveimur áfangastöðunum, Sandgerði og Seltjarnarnesi, um liðna helgi og bauð upp á fjölbreytta vísindaveislu fyrir gesti.

Háskóli unga fólksins hefur fylgt Háskólalestinni út um landið og hefur nemendum í eldri bekkjum grunnskóla boðist að sitja námskeið í völdum greinum í honum. Má þar nefna námskeið í japönsku, jarðfræði, stjörnufræði, táknmálsfræði og sjúkraþjálfun. Nemendur í grunnskólanum í Sandgerði sóttu slík námskeið á föstudaginn var. Daginn eftir var öllum bæjarbúum og nærsveitamönnum boðið til vísindaveislu í tengslum við Sandgerðisdaga.

Mætingin í veisluna var með besta móti enda gátu gestir fylgst með tilþrifum Sprengjugengisins, skoðað himingeiminn í stjörnutjaldi, kynnt sér japanska menningu og hlýtt á eldorgel og áhugaverð erindi svo eitthvað sé nefnt. Þá kynntu starfsmenn Fræðaseturs Háskóla Íslands í Sandgerði starfsemi sína og gafst gestum kostur á að skoða fjölbreytta flóru sjávardýra. Á Seltjarnarnesi var veislan haldin í Nesi og var opið á bæði Lækninga- og Lyfjafræðisöfnunum. Boðið var upp á áhugaverðar gönguferðir í nágrenninu, m.a. út í Gróttu, og enn fremur gátu áhugasamir kynnt sér sólina og himingeiminn með aðstoð Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Í Lyfjafræðisafni var einnig boðið upp á stutt en fróðleg erindi, m.a. um flóru Seltjarnarness, sögu ljósmæðra og fæðingarhjálpar og eðlisfræði fótboltans.

Háskólalestinni hefur verið vel tekið með kostum og kynjum á þeim stöðum sem hún hefur heimsótt og óhætt er að segja að vísindaáhugi landsmanna sé mikill. Það er von aðstandenda lestarinnar að gestir hafi haldið fróðari en áður úr vísindaveislunum og að heimsóknirnar hafi glætt áhuga ungu kynslóðarinnar á vísindastörfum.