Háskóli Íslands

Háskóli unga fólksins hefst á mánudag

Ágætu forráðamenn og nemendur í Háskóla unga fólksins.

Nú styttist í fyrsta skóladag Háskóla unga fólksins og við starfsfólk hlökkum mikið til að taka á móti og kynnast okkar nýju nemendum. Við erum að hefja áttunda starfsár skólans og um 300 ungir nemendur setjast á skólabekk í næstu viku. Skólasetning Skólasetning verður mánudaginn 6. júní kl. 8.30. Aðra daga hefst skólinn kl. 9.

Við skólasetningu 6. júní eiga nemendur að mæta kl. 8.30 í stofu 102 á neðri hæð í Háskólatorgi, sem er byggingin við hliðina á Aðalbyggingu. Á háskólasvæðinu verða starfsmenn sem vísa nemendum til vegar og aðstoða eftir þörfum. Starfsmenn verða í merktum bolum eða með greinileg nafnspjöld, svo auðvelt verður að þekkja þá. Ekki er gert ráð fyrir að forráðamenn verði viðstaddir skólasetningu HUF.

Við skólasetningu fá nemendur afhenta möppu. Í henni er stílabók, blýantur, kort af háskólasvæðinu, helstu upplýsingar um HUF, nafnspjald og armband Háskóla unga fólksins. Einnig fá allir nemendur sína eigin stundatöflu, þar sem m.a. koma fram upplýsingar um kennslustofur. Mikilvægt er að nemendur kynni sér vel öll gögn sem þeir fá afhent.

Tímasetning
Kennsla á námskeiðum hefst alla daga kl. 9 (ath. mæting kl. 8.30 fyrsta daginn). Námskeiðum lýkur kl. 15 en boðið er upp á viðveru til kl. 16.15 fyrir þá sem hafa sótt um það á ung.hi.is. 

Stundatafla
Nemendur fá jafnframt afhenta stundatöflu við skólasetningu 6. júní.  Ekki er gert ráð fyrir að breytt sé um námskeið eftir að skólinn hefst eða mæta á námskeið sem nemendur eru ekki skráðir í.  Allir kennarar eru með nemendalista yfir sín námskeið.

Þemadagar
Miðvikudagurinn 8. júní er skipulagður sem þemadagur. Sá dagur hefst á mismunandi stöðum á Háskólasvæðinu. Skipulag þemadaga verður kynnt nánar á mánudaginn, við setningu skólans.

Starfsfólk Háskóla unga fólksins

Dagana 6. – 10. júní verða starfsmenn Háskóla unga fólksins ávallt til staðar á Háskólasvæðinu og veita nemendum þá aðstoð sem þurfa þykir. Einnig verður HUF þjónustuborð á Háskólatorginu alla vikuna og þangað geta nemendur leitað ef einhverjar spurningar vakna.

Matur og hádegishlé
Í hádeginu verður boðið upp á léttan hádegisverð sem er innifalinn í námskeiðisgjaldinu. Vilji nemendur hafa með sér einhverja hressingu til að neyta milli kennslustunda er það að sjálfsögðu velkomið. Háma, matsala stúdenta, verður opin og þar geta nemendur keypt sér eitthvað matarkyns hafi þeir áhuga á slíku. Ekki er heimilt að fara með mat eða drykki í kennslustofur. Nemendur eru beðnir um að ganga snyrtilega um byggingar á Háskólasvæðinu. Hér er áætlaður matseðill (ath. einhverjar breytingar geta orðið á matseðli):

                                 Matur
Mánudagur       Samlokur, ávextir, KEA skyrdrykkir.
Þriðjudagur      Heitur matur, MS smáskyr, ávextir.
Miðvikudagur    Samlokur, súrmjólk Kaupfélag Skagfirðinga, MS Kókómjólk.
Fimmtudagur    Grillaðar Goðapylsur (útigrill), MS íspinnar.
Föstudagur      Samlokur, ávextir, MS Ab-mjólkurdrykkir.

Í hádegishléi verður ýmislegt áhugavert við að vera;  íþróttir, spil og spjall. Tveir íþróttakennarar verða með frábæra dagskrá á grasflötinni fyrir framan Aðalbyggingu í öllum hádegishléum. 

UNG-torgið
Á UNG-torginu, á  Háskólatorgi, verður notaleg aðstaða fyrir nemendur Háskóla unga fólksins. Þar verða m.a. bækur og blöð sem hægt er líta í milli kennslustunda. Á UNG-torginu verður þjónustuborð og þar verður alltaf starfsmaður á vegum HUF sem getur veitt upplýsingar og aðstoðað nemendur.

Lokahátið
Föstudaginn 10. júní kl. 15.15 til 16:30 verður lokahátíð HUF. Þá fá nemendur afhent viðurkenningarskjal sem staðfestir þátttöku um nám í HUF og fagna tímamótunum með sínum samnemendum. Hátíðin fer fram á Háskólatorginu.

Ung.hi.is
Fréttir af skólastarfinu verða settar inn á heimasíðuna okkar www.ung.hi.is í vikunni og er áhugasömum bent á að skoða síðuna reglulega.

Einnig heldur Háskóli unga fólksins úti Facebook-síðu, http://www.facebook.com/pages/H%C3%A1sk%C3%B3li-unga-f%C3%B3lksins-HUF/1....