Háskóli Íslands

HUF lauk með veglegri lokahátíð

Háskóla unga fólksins lauk með veglegri lokahátíð síðastliðinn föstudag á Háskólatorgi. Nemendurnir, sem voru tæplega 300 talsins, sátu í kennslustundum í um 40 háskólafögum alla síðustu viku að ógleymdum þemadegi þar sem kafað var dýpra í tiltekna námsgrein. Kennarar í Háskóla unga fólksins eru hvoru tveggja kennarar við Háskóla Íslands og framhaldsnemar við skólann.

Stjörnufræði var vinsælasta námskeiðið í ár og voru haldin sex námskeið í því fagi en um helmingur nemenda sat þau. Einnig voru námskeið í japönsku, jarðfræði, sálfræði og fornleifafræði geysivinsæl meðal nemenda. Ófáir kennarar höfðu orð á því hvað nemendur skólans í ár hefðu sýnt mikinn áhuga á námsefninu og verið virkir í kennslustundum. 

Á lokahátíðinni söng kór japönskunema lagið „Heavy Rotation“ með japönsku hljómsveitinni AKB48 sem er fjölmannasta stúlknaband í heimi með samtals 58 meðlimi. Kaoru Umezawa, lektor í japönsku við Háskóla Íslands, undirbjó kórinn fyrir flutninginn og stjórnaði honum á lokahátíðinni.

Þrjár systur úr nemendahópnum, sem sátu námskeið í hagnýtri menningarmiðlun, kynntu fréttabréf sem nemendur skrifuðu og var því dreift á hátíðinni. Rektor Háskóla Íslands, Kristín Ingólfsdóttir, ávarpaði einnig nemendurna og allir fengu afhent viðurkenningarskjal fyrir þátttöku sína í skólanum.

Eftir formlega dagskrá, sem tveir nemendur úr Háskóla unga fólksins kynntu, steig leynigestur lokahátíðarinnar á stokk. Sá heitir Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó Veðurguð. Ingó tók nokkur lög með krökkunum og ætlaði allt um koll að keyra þegar hann lauk formlegri dagskrá með laginu Bahama.

Hægt er að skoða myndir frá lokahátíð Háskóla unga fólksins og starfinu alla vikuna á heimasíðu skólans. Hægt er að lesa fréttabréf nemenda úr hagnýtri menningarmiðlun, fyrri hluta og seinni hluta.