Háskóli Íslands

Hvalahljóð, pólitík og tölvur

Háskóli unga fólksins í Háskóla Íslands fer einkar vel af stað og hafa fyrstu tveir dagarnir sýnt og sannað að áhuginn á vísindum hjá ungu kynslóðinni er svo sannarlega fyrir hendi.

Skólinn hófst á mánudag og stendur til föstudagsins 14. júní en í dag, miðvikudag, taka nemendur þátt í svokölluðum þemadegi. Þá verja þeir heilum degi í greinum eins og fréttamennsku, jarðvísindum, tómstunda- og félagsmálafræði, tölvunarfræði, kvikmyndafræði, iðnaðar- og vélaverkfræði, heilsu og heilbrigði og dýralíffræði auk þess að heimsækja fyrirtæki og stofnanir sem tengjast greinunum. Þannig munu nemendur í dýralíffræði fræðast um hvalahljóð í hvalaskoðunarferð á Faxaflóa, aðrir fræðast um jarðsöguna í ferð umhverfis höfðuborgarsvæðið, nemendur í stjórnmála- og kynjafræði heimsækja Jón Gnarr borgarstjóra og Alþingi og fréttamennskunemar kynna sér störf á RÚV.

Margt annað áhugavert verður um að vera á þemadeginum því meðal annars setja nemendur í iðnaðarverkfræði upp verksmiðju og í vélaverkfræði búa nemendur til sitt eigið orkuver sem framleiðir rafmagn.

Um Háskóla unga fólksins
Háskóli unga fólksins hefur verið starfræktur í júnímánuði allt frá árinu 2004 og nú haldinn í tíunda sinn. Skólinn hefur einnig ferðast um landið sem hluti af Háskólalestinni síðustu þrjú ár en í nýliðnum maímánuði heimsótti Háskólalestin þrjá áfangastaði á landsbyggðinni.