Háskóli unga fólksins 2018

Háskóli unga fólksins var haldinn 11. - 15. júní 2018. Þetta ár voru það nemendur fæddir 2002-2006 (6.-10. bekk grunnskóla) sem áttu kost á því að sækja skólann heim.

Um 350 nemendur sátu námskeið í þeim fjölmörgu fögum sem boðið var uppá og hver og einn nemandi útbjó sína eigin stundatöflu með fjórum tvegga daga námskeiðum, þemadegi og tveimur örnámskeiðum.

Einnig var boðið upp á grillveislu, útileiki og fleira skemmtilegt.

Í lokin var haldin glæsileg lokahátíð í Háskólabíó þar sem allir fengu afhent viðurkenningarskírteini fyrir þátttökuna. Þá var fjölskyldum boðið að taka þátt í vísindagleði þar sem hægt var að upplifa vísindin á lifandi og leikandi hátt.

Námskeið

Tveggja daga námskeið.

Af hverju eru sumir einstaklingar líklegri en aðrir til að brjóta af sér? Af hverju eru sumar borgir hættulegar, með háa tíðni ofbeldisbrota, en aðrar borgir mjög friðsælar?

Í námskeiðinu verður farið yfir helstu skýringar á afbrotum og hvernig er best að bregðast við afbrotum. Við fjöllum sérstaklega um afbrot á Íslandi í samanburði við önnur lönd og leitum skýringa á ákveðnum málum.

Kennari:

  • Margrét Valdimarsdóttir, afbrotafræðingur og aðjúnkt við Háskóla Íslands. 

Örnámskeið

Hvernig er best að bregðast við afbrotum? Hver er tilgangur refsinga? Er gagnlegt að lengja eða stytta fangelsisdóma?

Í námskeiðinu verður farið yfir mismunandi refsingar og virkni þeirra. Jafnframt verður fjallað um lögreglu og fangelsi á Íslandi.

Kennari:

  • Margrét Valdimarsdóttir, afbrotafræðingur og aðjúnkt við Háskóla Íslands.

Tveggja daga námskeið

Á hverjum degi þurfa fréttamenn að velja úr fjölda upplýsinga og ákveða hvað er frétt og hvað ekki. Hvar finna þeir fréttirnar og hvernig vita þeir hvað er frétt og hvað ekki?

Í námskeiðinu verður fjallað um þetta og einnig hvernig á að skrifa fréttir. Nemendur spreyta sig á að skrifa fréttir og fá að prufa tól og tæki sem fréttamenn nota við vinnu sína, myndavélar og hljóðnema.

Kennarar:

  • Sonja Sif Þórólfsdóttir, MA-nemi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.
  • Sigmann Þórðarson, MA-nemi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.

Tveggja daga námskeið

Á námskeiðinu munu nemendur fræðast um líffræði íslenskra spendýra bæði á landi og í sjó. Fjölbreytileiki íslenskra landspendýra er ekki gríðarmikill, á því eru góðar skýringar sem fjallað verður um á námskeiðinu.

Aðeins eitt spendýr var hér á undan manninum en það er heimskautarefurinn og verða honum gerð góð skil á námskeiðinu enda stórmerkilegt og einstakt spendýr. Maðurinn hefur verið ábyrgur fyrir innflutningi annarra landspendýra sem nú finnast villt í íslenskri náttúru. Það eru minnkurinn, hagamúsin, húsamúsin, brúnrottan, kanína og hreindýr.

Einnig verður fjallað um hvítabjörninn sem hefur reglulega stigið hér á land við mismikinn fögnuð landsmanna. Þó svo að landspendýralíf sé nokkuð fábrotið er sjávarspendýralífið ákaflega fjölbreytt en hér við land er að finna þónokkrar selategundir og um 12 hvalategundir. Nemendur fá að kynnast undraheimi sjávarspendýranna sem er allfrábrugðinn heimi landspendýranna.

Kennari:

Edda Elísabet Magnúsdóttir, aðjúnkt í líffræði við Háskóla Íslands.

Örnámskeið

Viltu læra nánar um hegðun eldfjalla og af hverju þau gjósa? Af hverju eru eldfjöll bara sumsstaðar í heiminum? Af hverju eru svona mörg eldfjöll á Íslandi?

Í þessu námskeiði munu nemendur læra um eðli eldfjalla og heðgun þeirra. Nemendur fá innsýn í fjölbreytileika ýmissa eldstöðva og helstu einkenni þeirra. Einnig verður fjallað um helstu verkefni eldfjallfræðinga og hvers vegna það er mikilvægt að rannsaka eldfjöll. Nemendur munu fá að skoða algengar afurðir úr eldgosum líkt og gjósku og hraun.

Kennarar:

  • Alma Gytha Huntingdon-Williams, meistaranemi í eldfjallafræði við Háskóla Íslands
  • Þóra Björg Andrésdóttir, meistaranemi í eldfjallafræði við Háskóla Íslands

Örnámskeið

Langar þig að geta bjargað mannslífi? Bjargráður er félag læknanema um endurlífgun en markmið félagsins er að kenna krökkum og fullorðnum grunnatriðin í endurlífgun. Hvað eigum við að gera ef við komum að manneskju sem liggur á jörðinni? Hvað ef hún svarar ekki ef við köllum á hana? Hvað ef hún andar ekki?

Við förum yfir öll þessi atriði og gerum það á skemmtilegan hátt svo engum ætti að leiðast á meðan lært er um þessi mikilvægu atriði sem geta hjálpað ykkur að bjarga mannslífi.

Kennarar:

  • Félagar í Bjargráði, félagi læknanema við Háskóla Íslands

Tveggja daga námskeið og örnámskeið

Kynntar verða tilraunir með ljós, þar sem fyrirbærin skautun, ljósbrot, alspeglun, víxlun og bognun leika lykilhlutverk við að mynda skrautleg mynstur.

Meðal tilraunanna verða: litaheimur límbandsins, mynstur UHU-límsins, mæling á hárþykkt og vatnsbunuljósleiðari. Þátttakendur fá tækifæri til að búa til eigin uppstillingar að sumum tilraununum.

Kennari:

  • Ari Ólafsson, dósent við Raunvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði.

Hvað segja byggingar, gripir, bein og öskuhaugar okkur um forna tíð á Íslandi?  Hvernig getum við aldursgreint jarðfundnar fornleifar? Hvernig gripir (m.a. frá víkingaöld) finnast á Íslandi og hvað geta rannsóknir á jarðfundnum gripum sagt okkur?

Í námskeiðinu fá nemendur að spreyta sig í verkefnum og skoða ýmislegt sem tengist fornleifafræðirannsóknum. Nemendur munu fræðast um hvað fornleifafræðingar gera í störfum sínum. Störf fornleifafræðinga eru fjölbreytileg. Nemendur fá að kynnast íslenskri fornleifafræði og þeim rannsóknum sem stundaðar eru hér á landi.

Að auki hvaða upplýsingar þær rannsóknir gefa okkur um fortíðina. Farið verður m.a. yfir hvernig fornleifar finnast á Íslandi, hvar þær finnast og hvernig þær líta út.

Fornleifafræði er spennandi vísindagrein og verður enn meira spennandi eftir námskeiðið.

Kennari:

  • Hulda Björk Guðmundsdóttir, framhaldsnemi í fornleifafræði við Háskóla Íslands.

Tveggja daga námskeið

Í Frakklandi er töluð franska. Mörgum finnst franska mjög fallegt tungumál og langar jafnvel að geta tjáð sig á frönsku en alltof oft segir fólk að franskan sé svo erfið.

Í Háskóla unga fólksins ætlum við að skoða hvað það er sem er öðruvísi í tungumálinu, af hverju hefur franskan fengið á sig þann stimpil að hún sé erfitt tungumál.

Áherslan í þessu námskeiði er á tungumálið og nemendur kynnast því með því að læra hvernig frakkar kynna sig og tjá sig um ýmsa hluti.

Nemendur læra að segja hvað þeir heita og hvað þeim finnst gaman að gera og margt fleira.

Kennari:

  • Ásta Ingibjartsdóttir, aðjunkt í frönskum fræðum við Háskóla Íslands.

Tveggja daga námskeið

Hvað er að vera frumkvöðull? Hvað þarf til að geta kallast frumkvöðull?

Skoðað verður hvað frumkvöðlar gera, hvernig þeir vinna og gerð grein fyrir mikilvægi frumkvöðla fyrir samfélagið. Einnig verður farið yfir hvaðan hugmyndir koma og hvernig hægt er að vinna með þær.

Unnið verður að nýskapandi verkefni í samstarfi við fyrirtæki.

Kennarar:

  • Edda Ýr Georgsdóttir, meistaranemi í Verkefnastjórnun við Háskóla Íslands og viðskiptafræðingur
  • Linda Jóhannsdóttir, meistaranemi í Nýsköpun og viðskiptaþróun við Háskóla Íslands og hönnuður
  • Karen Henný Bjarnadóttir, meistaranemi í Nýsköpun og viðskiptaþróun við Háskóla Íslands og viðskiptafræðingur

Örnámskeið

Í þessu námskeiði læra nemendur um aðferð heimspekinnar við að setja fram og kljást við ólíkar spurningar. Heimspeki er ákveðin leið til að hugsa um heiminn og öll vísindi og fræði eiga rætur sínar að rekja til heimspekinnar.

Í námskeiðinu er dregin fram þessi hversdagslega hlið heimspekinnar - hvernig hún er allt og allstaðar - og hagnýtt gildi hennar fyrir okkur sjálf jafnt sem og framtíð okkar. Heimspekileg hugsun er þá einn af lykilþáttunum til að takast á við spurningar í tengslum við mikilvægi þætti líkt og hlýnun jarðar, fjölmenningarsamfélagið og öra þróun í tækni og vísindum svo eitthvað sé nefnt.

Í námskeiðinu eru nemendur leiddir áfram í umræðum í tengslum við tiltekið viðfangsefni sem þau velja sjálf. Viðfangsefnið getur verið af ýmsum toga en spurningarnar sem settar eru fram eru heimspekilegar og þær þá rannsakaðar með augum heimspekinnar. Nemendur fá þá innsýn í aðferðafræði heimspekinnar, heimspekilega og gagnrýna hugsun, og hvernig þeir geta sjálfir beitt henni á hvað sem er. En heimspekileg hugsun er eitthvað sem við þjálfumst í og tileinkum okkur.

Frábært námskeið fyrir alla þá sem hafa áhuga á flóknum spurningunum og leiðum til að varpa ljósi á þær.

Kennari:

  • Elsa Haraldsdóttir, doktorsnemi í heimspeki við Háskóla Íslands

Örnámskeið

Hjúkrunarfræðingar sinna fólki frá vöggu til grafar, bæði heilbrigðu fólki og sjúku. En hvað felst í starfi hjúkrunarfræðinga og hvar vinna þeir?

Í námskeiðinu fá nemendur innsýn í hvernig hjúkrunarfræðingar meta veikt fólk og þeir fá tækifæri til að spreyta sig á þeim aðferðum sem hjúkrunarfræðingar nota. Nemendur fá einnig að kynnast því hvernig lífsmörk (blóðþrýstingur, púls og öndun) eru mæld og einnig munu þeir læra um meðferð sára.

Kennari:

  • Sigríður Zoëga, lektor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

Tveggja daga námskeið

Verkfræðileg verkefni leyst.

Heimurinn er fullur af verkfræðilegum verkefnum sem þarf að leysa. En hvað þarf til að leysa þau? Verkfræðingar styðjast við ákveðna hugmyndafræði sem þeir beita við lausn verkefna. Nemendur fá að kynnast hugmyndafræðinni og beita henni til að leysa verkefni.

Kennarar:

  • Rúnar Unnþórsson, prófessor
  • Guðmundur Valur Oddsson, lektor
    • báðir við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands.

Tveggja daga námskeið

Viltu fá innsýn inn í líf og störf íþróttafræðings og kynnast hvernig hreyfing og svefn geta haft áhrif á heilsuna? Langar þig til að forvitnast um það hvernig líkaminn bregst við æfingum og þjálfun?

Í íþrótta- og heilsufræði námskeiðinu munum við fræðast um og framkvæma ýmsar áhugaverðar mælingar og reyna á alla vöðva líkamans. Verið því tilbúin í skemmtilegan og fróðlegan tíma þar sem við munum hreyfa okkur bæði úti og inni og því er mikilvægt að vera í viðeigandi fatnaði.

Kennari:

  • Rúna Sif Stefánsdóttir, doktorsnemi í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Tveggja daga námskeið

Japönsk menning er um margt sérstök og ímynd landsins er jafnt tengd hátækni og hraða nútímasamfélags sem fornri menningu og hefðum. Á námskeiðinu verður gluggað í sérkenni japanskrar menningar en sérstaklega verða tekin fyrir grunnatriði í japanskri tungu og nemendur læra ýmsar almennar kveðjur og grunnorðaforða.

Sjónum verður einnig beint að hinu sérstæða ritmáli japönskunnar, hiragana og katagana, sem eru atkvæðisleturgerðir, og svo kanji, sem byggist á myndtáknum. Nemendum gefst einnig tækifæri til að skrifa nokkur tákn á hefðbundna vísu.

Kennari:

  • Yayoi Mizoguchi, stundakennari í japönskum fræðum við Háskóla Íslands

Örnámskeið

Þær eru litskrúðugar og taka stundum hamskiptum. Klæðaburðurinn er vissulega, ja, hvernig á maður að orða þetta kurteisislega? Undarlegur? Framsækinn? Grímuballslegur? En þær búa yfir yfirnáttúrulegum kröftum og hæfileikum, mikilli réttlætiskennd og þær eru reiðubúnar að fórna lífi sínu fyrir okkur hin. Hér er að sjálfsögðu átt við ofurhetjur, þessa fágætu sögupersónutegund sem ferðast hefur af blaðsíðum myndasagna á hvíta tjaldið og á liðnum áratug, undir formerkjum Marvel, lagt undir sig kvikmyndaheiminn á heimsvísu.

Í þessu námskeiði verður kafað undir yfirborðið í samfléttuðum kvikmyndaheimi Marvel, eða M(arvel)C(inematic)U(niverse) eins og hann nefndur á ensku. Verður sjónum þar beint bæði að söguheiminum eins og hann birtist á hvíta tjaldinu og svo þeim bollaleggingum sem áttu sér stað bakvið tjöldin, er leiddu til þeirrar forveralausu ákvörðunar kvikmyndafyrirtækis að ráðast í gerð nærri tuttugu rándýrra kvikmynda er allar tengjast og mynda saman samfellda sögufléttu.

Þá verður skapgerð og einkenni ofurhetjunnar rædd, hverjir veikleikar hennar séu og hvers vegna hún þarfnist ávallt erkióvinar (e. arch-nemesis). Við munum einnig grafast fyrir um dýpra merkingarsvið myndanna, tengingar við goðsögur, pólitík og margt fleira. Að lokum ræðum við hvort þetta sé allt bara fyrir stáka (svarið er auðvitað nei, eða hvað?).

Kennari:

  • Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands

Tveggja daga námskeið

Unglingurinn hefur ekki alltaf verið til en eftir að hann kom í heiminn (sem hugtak, markhópur, og viðfangsefni) hefur hann verið áberandi í menningunni. Þetta á ekki síst við um kvikmyndir, sem áður en svokallaðar „unglingamyndir“ urðu til stíluðu inn á ungt fólk sem markhóp með leikurum eins og James Dean, Marlon Brando og svo Elvis og Bítlunum. En löngu áður en unglingurinn varð að viðfangsefni kvikmynda var hann áhyggjuefni þeirra sem töldu áhrifamátt kvikmynda svo mikinn að ungu fólki stafaði beinlínis hætta af þeim. Ritskoðun kvikmynda og bannlistar hafa ávallt tengst unglingnum sem mögulegum áhorfanda.

Í þessu námskeiði verður uppfinning unglingsins rædd, kafað verður ofan í unglingamyndina sem sérstaka tegund kvikmynda og rætt um unglinginn sem áhorfanda sem fullorðnir hafa áhyggjur af. Í leiðinni verður stiklað á stóru um kvikmynda– og poppmenningarsöguna, drepið niður fæti í undarlegum afkimum (líkt og strandarmyndinni og rokkmyndinni) og loks litið til samtíma fjölmiðla á borð við YouTube.

Kennari:

  • Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands

Tveggja daga námskeið

Á námskeiðinu verða kennd grunnatriði í kínverskri tungu. Kenndur verður framburður og kynnt PINYIN-hljóðritunarkerfið, sem er grunnurinn að því að ná tökum á kínverskum framburði. Við æfum nokkra einfalda frasa og lærum að syngja einfalt lag á kínversku. Einnig verður kínverska ritmálið kynnt og nemendur fá að spreyta sig á að skrifa nokkur tákn og læra af hverju það er ekki eins erfitt og ætla mætti að lesa og skrifa þessi framandi myndtákn.

Við fræðumst um landið og staðhætti, menningu og árþúsunda langa sögu, ýmis þjóðarbrot, trúarbrögð og heimspeki. Í stuttu máli lærum við bæði um forna hámenningu og ótrúlega hraða nútímavæðingu þessa framandi menningarheims, en Kína er ekki aðeins fjölmennasta ríki veraldar heldur einnig næststærsta hagkerfi heims og það sem vex hraðast.

Kennari:

  • Þorgerður Anna Björnsdóttir, BA í kínverskum fræðum og verkefnisstjóri við Konfúsíusarstofnun Háskóla Íslands

Tveggja daga námskeið

Hvað er karlmennska og kvenleiki? Og hvað meinar fólk þegar það talar um femínisma? En feðraveldið? Hvað eru staðalmyndir og hvernig birtast staðalmyndir um kynin, fatlað fólk og hinsegin fólk? Megum við vera eins og við viljum eða eru allskonar þættir sem reyna að stýra okkur í tilteknar áttir, t.d. eftir kyni, stöðu, uppruna og kynhneigð? Og hvað koma fornöfn málinu við? Við pælum í þessu og ýmsu öðru í kynjafræði í Háskóla Unga Fólksins.

Markmið kynjafræðikennslunnar í Háskóla unga fólksins er að færa nemendum tæki til þess að greina stöðu kynjanna og setja í samhengi við eigið líf. Fjallað verður um birtingarmyndir misréttis í samfélaginu m.a. út frá auglýsingum, samfélagsmiðlum, völdum og forréttindum, stjórnmálum, fordómum og ofbeldi. Einnig verður fjallað um tækifæri til andófs og breytinga.

Kennarar:

  • Arnar Gíslason, jafnréttisfulltrúi HÍ og doktorsnemi í kynjafræði
  • Ásta Jóhannsdóttir, félagsfræðingur og nýdoktor í félags og mannvísindadeild Háskóla Íslands.

Tveggja daga námskeið

Kanntu að lesa myndmál?  Hver er munurinn á tungumáli og myndmáli? Getur þú yfirfært myndmál í orð?

Á þessu námskeiði veltum við fyrir okkur áhrifum og möguleikum myndmáls sem miðils. Spáum í hlutverk listfræðingsins og kynnumst nokkrum leiðum til þess að túlka myndlist.

Farið verður stuttlega yfir sögu myndmálsins; allt frá hellamálverkum yfir til myndgreiningartækni sem Google notar til þess að koma upplýsingum á framfæri. Mynd segir meira en þúsund orð.

Kennari:

  • Viktor Pétur Hannesson, myndlistarmaður og framhaldsnemi í listfræði við Háskóla Íslands
     

Tveggja daga námskeið

Í þessu námskeiði fá þátttakendur tækifæri til þess að skapa, túlka og tjá eigin hugmyndir og annarra. Bæði í gegnum skapandi vinnu og leik.

Nemendur vinna með myndir og texta og skapa sína eigin útrfæslu sem þeir kynna fyrir hvort öðru.  Þátttakendur fara í örstutta hlutverkaleiki í ímynduðum heimi.

Kennari:

  • Hanna Ólafsdóttir, myndlistarmaður og lektor í listgreinum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
  • Rannveig Þorkelsdóttir, aðjunkt í leiklist og leiklistarkennslu við Háskóla Íslands.

Örnámskeið

Hvað eru stjörnuhröp og loftsteinar? Hvað gerist ef stór steinn rekst á jörðina? Í námskeiðinu fá nemendur að handleika alvöru loftsteina frá tunglinu, Mars og úr smástirnabeltinu.

Við skoðum hvernig gígar verða til, hvar stærstu gíga sólkerfisins er að finna og hvernig hægt er að nota gíga til að finna út hve gömul yfirborð mismunandi hnatta eru. Gæti lífið hafa komið til jarðar með loftsteinum?

Kennari:

  • Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðikennari í Vísindasmiðju Háskóla Íslands.

Tveggja daga námskeið

Lyfjafræðin er fjölbreytt fag innan heilbrigðisvísindanna. Þar fara fram ýmsar rannsóknir, allt frá því hvaða efni hafa lyfjafræðilega virkni gagnvart ákveðnum sjúkdómi, hvernig þau eru sett saman (formúleruð) í endanlegt lyfjaform og síðan hvernig þau reynast sjúklingnum.

Þar sem lyfjafræðin tekur sífelldum breytingum þá verður fjallað um það hvert lyfjafræðin stefnir, frá apóteksframleiðslu yfir í lyfjafyrirtækin. Nemendur munu fá að kynnast ýmsum þáttum lyfjafræðinnar og hvað það þýðir að vera lyfjafræðingur. Nemendur einnig fá að kynnast vinnubrögðum í framleiðslu krema samkvæmt forskrift.

Kennarar:

  • Elvar Örn Viktorsson, lektor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands
  • Bergþóra Sigríður Snorradóttir, sérfræðingur við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands

Tveggja daga námskeið

Kennsla og vettvangsferð í einn af leyndardómum Háskóla Íslands.

Hvað eru lög? Hvernig verða þau til og af hverju förum við eftir þeim? Hvað gera lögfræðingar og hvernig lítur starfsumhverfi þeirra út? Eru lögfræðingar allir eins og Harvey Specter eða Alicia Florrick?

Fjallað verður um grunnstoðir lögfræðinnar og hugmyndir okkar um lögin. Við veltum fyrir okkur af hverju við förum eftir lögunum og hvort tvær niðurstöður geti verið jafntækar. Ef svo er, hver ákveður þá hvor niðurstaðan er rétt? Við mátum dómaraskikkjur og setjum upp lítil réttarhöld þar sem við leysum úr raunverulegu álitaefni.

Nemendur eru hvattir til að taka virkan þátt í námskeiðinu og fá að spreyta sig á lögfræðilegum álitaefnum og máta sig í ýmis hlutverk lögfræðinga.

Kennari:

  • Ásgerður Snævarr, lögfræðingur hjá umboðsmanni Alþingis og stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands.

Örnámskeið

Menning og mannlíf Mið-Austurlanda er í senn margbrotið og heillandi.

Í þessu námskeiði kíkjum við á minjar um forn menningarsamfélög, allt frá Súmerum og Egyptum fyrir þúsundum ára, og rennum yfir sögu, trúarbrögð og tungumál landanna, allt til dagsins í dag. Við skoðum sérstaklega íslam, uppruna þess og samfélög múslima.

Nemendur fá auk þessa skyndinámskeið í arabísku og geta spreytt sig á að skrifa nokkur orð með arabískum stöfum. 

Kennari:

  • Þórir Jónsson Hraundal, aðjúnkt við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands.

Tveggja daga námskeið

Getur það sem við borðum haft áhrif á það hvernig okkur líður? Er hægt að bæta minni, námsárangur og árangur í íþróttum með hollu mataræði? Afhverju þurfum við að borða og hvaða næringarefni eru í matnum? Hvað hefur áhrif á fæðuval? Hvað eru ráðleggingar á mataræði og afhverju skipta þær máli?

Í þessu næringarfræði námskeiði verður farið í grunnatriði næringafræðinnar og leystar ýmsar þrautir, verkefni og leikir sem svara þessum spurningum og ótal mörgum öðrum. Rætt um hvaða næringarefni eru í matnum og hvaða áhrif þau hafa á líkamann okkar, líðan og árangur. Ráðleggingar um mataræði til að stuðla að vellíðan og heilbrigði verða kynntar.

Búið ykkur undir líflegan tíma sem reynir á heilastarfsemina, bragðskynið, lyktarskynið og fleira!

Kennarar:

  • Ellen Alma Tryggvadóttir doktorsnemi í næringarfræði og stundakennari við Háskóla Íslands
  • Thelma Rún Rúnarsdóttir meistaranemi í næringarfræði við Háskóla Íslands

Örnámskeið

Öll rafmagnstæki, eins og t.d. spjaldtölvur, útvörp, sjónvörp og GSM-símar, byggjast á rafmagnsrásum. Í þessu námskeiði kynnast nemendur grundvallaratriðum í rafmagnsrásum og framkvæma verklegar æfingar þar sem m.a. samband straums og spennu er skoðað fyrir ýmsar rafmagnsrásir.

Kennarar:

  • Jón Atli Benediktsson, rafmagnsverkfræðingur og rektor Háskóla Íslands, og fleiri.

Tveggja daga námskeið og örnámskeið

Áherslan á námskeiðinu verður fyrst og fremst á ritun texta af ýmsu tagi. Skoðað verður hvaðan kveikjur og hugmyndir koma og hvernig þeim er fylgt eftir í skrifum.

Nemendur kynna einnig texta sína hver fyrir öðrum og skoða leiðir til að fara með þá lengra og dýpra.

Kennari:

  • Halla Margrét Jóhannesdóttir, leikari, leikstjóri, rithöfundur og stundakennari í ritlist við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands

Örnámskeið

Rússland er langstærsta land í heimi og á sér langa og merkilega sögu. Á námskeiðinu verður sagt frá nokkrum helstu stjórnendum landsins og merkisatburðum í gegnum tíðina. Kynntir verða til sögunnar rithöfundar og tónskáld sem höfðu mikil áhrif um allan heim með verkum sínum, lesin stutt saga og hlustað á tónlist.

Farið verður yfir rússneska stafrófið, sem kallað er kyrillíska, og nemendur æfa sig í að bera fram stafina og skrifa nafnið sitt á rússnesku/kyrillísku.

Þá fá nemendur að spreyta sig á nokkrum einföldum rússneskum kveðjum og ávörpum sem gott er að kunna ef maður hittir rússneskumælandi fólk.

Kennari:

  • Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands

Tveggja daga námskeið

Fjallað verður um byggingu DNA, breytileika á milli einstaklinga og þróun lífsins. Erfðaupplýsingar má nota á ýmsa vegu, til að greina faðerni, uppruna flensuveirunnar, lífsýni á glæpavettvangi og skyldleika þjóða og ólíkra tegunda.

Við skoðum áhrif sýklalyfja með ræktun baktería á agarskálum með og án sýklalyfja og ræðum þróun flensuveirunnar í því samhengi. Darwin og þróunarkenningin verður kynnt og hvernig hægt er að útskýra allan breytileika lífvera með hugmyndum þróunar.

Að lokum fá nemendur að einangra DNA úr jarðaberjum.

Kennari:

  • Katrín Halldórsdóttir, PhD í stofnerfða- og þróunarfræði, Landspítala og Háskóla Íslands.

Tveggja daga námskeið

Félagssamskipti geta skipt sköpum úti í náttúrunni og sagt til um hvort dýrin finni sér, t.d. mat, maka, heimili, öryggi eða yfir höfuð lifi af. Leiðir dýra til samskipta eru oft æðifjölbreyttar og vekja gjarnan forvitni okkar mannanna.

Hversvegna eru samskipti svona mikilvæg mörgum spendýrum og það að tilheyra félagskerfi? Hvernig fara dýrin að því að „tala“ saman og tjá sig við hvort annað? Hvernig hafa félagssamskipti haft áhrif á þróun ýmissa spendýra, bæði líkamleg einkenni og atferlisfræðileg?

Í námskeiðinu munum við leita svara við þessum spurningum og mörgum fleiri. Við munum leggja áherslu á að kynnast spendýrum sem félagsverum og þörfum þeirra og aðferðum til samskipta.

Kennari:

  • Edda Elísabet Magnúsdóttir, aðjúnkt í líffræði við Háskóla Íslands.

Tveggja daga námskeið

Vissir þú að hegðun manna og dýra stjórnast af lögmálum sem hægt er að nýta til að kenna nýja þekkingu eða hegðun mun hraðar en með hefðbundnum kennsluaðferðum?

Atferlisgreining er undirgrein sálfræði sem rannsakar og nýtir þessi lögmál hegðunar á ótal sviðum bæði hjá mönnum og dýrum. Lögmálin hafa meðal annars verið notuð til að kenna og þjálfa upp færni í íþróttum, tónlist eða bóklegum fögum, til að fá fólk til að lifa á umhverfisvænni hátt, vera varkárt í umferðinni og afkastameira í starfi. Aðferðirnar hafa einnig nýst gríðarvel til að kenna og þjálfa upp færni hjá fólki með heilaskaða eða alvarlega þroskaröskun.

Í þessu námskeiði verða kennd grunnlögmál hegðunar, tekin verða dæmi úr daglegu lífi til að varpa ljósi á hvernig þessi lögmál stjórna hegðun okkar og farið verður yfir hvernig hægt er að nýta þau í daglegu lífi.

Kennarar:

  • Harpa Óskarsdóttir, doktorsnemi og stundakennari í sálfræði við Háskóla Íslands
  • Rakel Sara Höskuldsdóttir, MS í sálfræði við Háskóla Íslands

Tveggja daga námskeið

Hafið þið pælt í því hversu flókið og fjölbreytilegt samfélagið okkar er? Hvernig pössum við sjálf eiginlega inn í þennan fjölbreytta og flókna veruleika?  Hver er okkar staður og hvar upplifum við það að tilheyra hópi eða samfélagi?
Kannski getum við fundið svörin með því að taka myndir af umhverfinu okkar, samfélaginu og fólkinu í kringum okkur?

Markmið námskeiðsins er að fá nemendur til að rýna í menningarlegan margbreytileika í íslensku samfélagi ásamt því að skoða eigin stöðu og sjálfsmynd innan þess. Nemendur fá tæki og tól til þess að draga upp mynd af sjálfum sér í gegnum aðferðir 'photovoice' í anda gagnrýnna uppeldisfræða þar sem unnið er með ljósmyndir sem þau taka sjálf.

Kennarar:

  • Eva Harðardóttir, aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
  • Tinna Ottesen
  • Janus Bragi Jakobson
    • kvikmyndagerðafólk

Örnámskeið

Íþróttamenn meiðast oft og fara í sjúkraþjálfun til að geta haldið áfram í íþróttum. Í þessu námskeiði læra nemendur um liðbandaskaða; ökklatognun og krossbandaskaða á hné.

Nemendur læra hvernig slysin gerast, hvernig meta má hversu mikið íþróttamaðurinn er slasaður, og hvernig sjúkraþjálfarar meta hvenær íþróttamaðurinn er tilbúinn til að æfa íþróttir aftur. Nemendur æfa sig í að framkvæma allar prófanir á hverjum öðrum.

Kennari:

  • Haraldur B. Sigurðsson, löggiltur sjúkraþjálfari og doktorsnemi við Háskóla Íslands.

Tveggja daga námskeið og örnámskeið

Farið verður yfir þætti í skurðlækningum, bæði almennum skurðlækningum en einnig með áherslu á hjarta- og heilaskurðlækningar. Einnig verður farið yfir grunnþætti þess að sauma og hvað skurðlæknar þurfa að huga að dags daglega.

Kennarar:

  • Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir á Landspítala Háskólasjúkrahúsi ásamt deilarlæknum

Tveggja daga námskeið

Hvað skyldu Fernando Torres, Penélope Cruz, Shakira og Lionel Messi eiga sameiginlegt? Hvað er eiginlega salsa, tortilla og jamón? Hvernig getur það gagnast mér að kunna spænsku? Spænska er móðurmál um 400 milljóna manna í meira en tuttugu löndum og er eitt mest talaða tungumál heimsins í dag.

Í námskeiðinu fá nemendur innsýn í spænska tungu og þá fjölbreyttu menningarheima sem að baki henni standa. Nemendur læra einfaldar setningar, ýmis gagnleg orð og kynnast fjölbreytileika hins spænskumælandi heims í gegnum ýmsa miðla, s.s. tónlist og myndir.

Kennari:

  • Sigrún Magnúsdóttir, stundakennari í spænsku við Háskóla Íslands

Tveggja daga námskeið

Af hverju fjalla fjölmiðlar svona mikið um stjórnmál? Eru stjórnmálamenn alltaf að rífast? Hvað þýðir eiginlega lýðræði í dag? Vitum við nógu mikið um það sem er að gerast annars staðar í heiminum? Hvers vegna eru svona margir stjórnmálamenn með síður á Facebook, Twitter og öðrum samfélagsmiðlum? Af hverju vann Donald Trump forsetakosningarnar í Bandaríkjunum?

Í námskeiðinu spáum við í tengsl stjórnmála, poppmenningar, valds og frægðar. Fjallað verður um íslensk stjórnmál í dag og stöðu ungs fólks á Íslandi. Athyglinni verður einnig beint að alþjóðastjórnmálum. Hvað segja fjölmiðlar okkur um það sem er að gerast annars staðar í heiminum? Hvað ræður því hvað kemst á skjáinn?

Fjölmiðlar spila stórt hlutverk í stjórnmálum í dag og fjallað verður um hvernig stjórnmálamenn nýta sér fjölmiðla til að koma sér og sínum stefnumálum á framfæri. Sumir ganga jafnvel svo langt að fá frægar poppstjörnur til að hjálpa sér að fanga athygli almennings og aðrir reyna að koma sér í sviðsljósið með því að segja eitthvað umdeilt á samfélagsmiðlum. Hvað segir þetta okkur um stjórnmál í dag? Stuðst verður við fjölbreyttar aðferðir í kennslunni, nemendur taka virkan þátt í námskeiðinu og stofna nýja stjórnmálaflokka.

Kennari:

Jón Gunnar Ólafsson, alþjóðastjórnmálafræðingur, stundakennari við Háskóla Íslands og doktorsnemi við Goldsmiths, University of London.

Tveggja daga námskeið

Hvernig varð alheimurinn til? Hvar finnum við svarthol? Hversu stór er Vetrarbrautin okkar? Hvað eru hulduefni og hulduorka?

Við leitum svara við þessum spurningum og fleirum sem tengjast stjörnunum og alheiminum á námskeiðinu.

Kennari:

  • Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðikennari í Vísindasmiðju Háskóla Íslands.

Tveggja daga námskeið og örnámskeið

Hefur þú gaman af því að hugsa út fyrir kassann og leysa þrautir? Hefur þú áhuga á því að skoða hvernig heimur stærðfræðinnar virkar?

Á námskeiðinu ætlum við að skoða Ólympíska stærðfræði og leysa áhugaverðar stærðfræðiþrautir sem byggja á rökhugsun og útsjónarsemi. Farið verður um víðan völl en staldrað við á áhugaverðum stærðfræðihugmyndum og þær skoðaðar nánar.

Kennari:

  • Stefán Gunnlaugur Jónsson, BS nemi í hugbúnaðarverkfræði við Háskóla Íslands

Tveggja daga námskeið

Í þessu námskeiði læra nemendur hvernig hægt er að gera tölvuleiki heima. Kennt verður á leikjaforritunarhugbúnaðinn Unity, sem býður upp á nær allt sem fólki getur dottið í hug.

Smíðaður verður tölvuleikur í einfaldari kantinum og áhersla á að nemendur læri hvernig þau myndu gera eigin tölvuleik. Námskeiðið er ætlað byrjendum en þau sem hafa lært einhverja forritun áður eru einnig velkomin.

Ekki er ráðlagt að taka bæði tveggja daga námskeið og þemadag í tölvuleikjaforritun þar sem farið verður yfir svipað efni á þessum námskeiðum.

Kennarar:

  • Guðný Halldórsdóttir
  • Vilborg Vala Sigurjónsdóttir
    • nemendur í eðlisfræði við Háskóla Íslands og Kóder kennarar

Örnámskeið

Langar þig að vita hvað við getum gert til að hjálpa jörðinni okkar sem er undir miklu álagi vegna hegðunar mannfólksins? Langar þig að vita hvað sjálfbærni og sjálfbærnimarkmið þýða?

Í námskeiðinu er ætlunin að ræða um jörðina, umhverfismál, gildismat, viðhorf og hegðun ungs fólks og hvernig ungt fólk getur hjálpa jörðinni með þekkingu sinni og aðgerðum. Nemendur geta tekið virkan þátt með því að velta upp hvernig bæta má ástand í umhverfismálum, en það skiptir máli fyrir framtíð okkar allra.

Kennarar:

  • Lára Jóhannsdóttir, dósent í umhverfis og auðlindafræði við Háskóla Íslands
  • Soffía Svanhildar Felixdóttir, MS í umhverfis- og auðlindafræði frá sálfræðideild Háskóla Íslands
  • Drew Kelley Riemersma, meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands.

Þemadagar

Nemendur byrja á því að hitta kennara í kennslustofu þar sem farið verður stuttlega yfir helstu verkefni lögreglunnar.

Nemendur fara svo með kennurum í vettvangsferð til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem þeir fá að fræðast meira um lögregluna á Íslandi, meðal annars um rannsókn sakamála.

Þátttakendur þurfa að mæta í góðum útivistarfötum og skóm, tilbúnir fyrir hvernig veður sem er.

Kennarar:

  • Margrét Valdimarsdóttir, afbrotafræðingur og aðjúnkt við Háskóla Íslands
  • Snorri Örn Árnason, sérfræðingur hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og stundakennari við Háskóla Íslands. 

Stjórnmála- og kynjafræði – Þemadagur

Á þemadeginum skyggnumst við bakvið tjöldin og skoðum hvað gerir pólitík svona spennandi og áhugaverða, fyrir konur, karla og alla aðra. Farið verður í vettvangsferð í Alþingishúsið þar sem nemendur fá að skoða sig um, sjá þingsalinn og ræða við alþingismenn. Hvað eru þeir eiginlega að gera í vinnunni? Er spennandi að vera þingmaður? Einnig verður farið í heimsókn til frjálsra félagasamtaka þar sem rætt verður um hvernig þau geta haft áhrif í samfélaginu.

Við veltum því fyrir okkur hvernig lýðræði virkar, hverjir fara með valdið í landinu og hvort gætt sé að jafnrétti í því. Einnig skoðum við hvaða leiðir ungt fólk hefur til að hafa áhrif á stjórnmál á Íslandi. Ýmsum spurningum verður velt upp um stjórnmál á Íslandi: Af hverju eru færri konur en karlar á þingi? Hvernig hentar þingsalurinn fyrir fólk með hreyfihömlun? Er margt hinsegin fólk á þingi? Ætti ungt fólk að hafa meiri áhrif á íslenska pólitík?

Nemendur og kennarar fara yfir efni sem tengist vettvangsferðunum og flétta saman kynjafræði og stjórnmálafræði með skapandi hætti.

Gengið verður frá Háskóla Íslands í Alþingishúsið og á fleiri staði þannig að þátttakendur þurfa að mæta í góðum útivistarfötum og skóm, tilbúnir fyrir hvernig veður sem er.

Kennarar:

  • Ásta Jóhannsdóttir, félagsfræðingur og nýdoktor við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands
  • Arnar Gíslason, jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands og doktorsnemi í kynjafræði
  • Jón Gunnar Ólafsson, alþjóðastjórnmálafræðingur, stundakennari við Háskóla Íslands og doktorsnemi við Goldsmiths, University of London

Hvalirnir í Faxaflóa — Hvalafræðsla og hvalaskoðun

Á námskeiðinu fara nemendur í hvalaskoðunarferð út á Faxaflóa þar sem fræðst verður um líf og undur hvalanna við Ísland. Faxaflói er heimkynni nokkurra algengra hvalategunda en á sumrin leggur mikill fjöldi þeirra leið sína inn í Faxaflóa, þá einna helst í ætisleit.

Algengustu hvalategundirnar á þessum slóðum eru hrefnur, hnúfubakar, hnýðingar og hnísur. Á sumrin iðar Faxaflói af lífi og oft er mikið fuglager á fæðuslóðum hvalanna. Nemendur fá einnig tækifæri til að fylgjast með hinum fjölmörgu lundum sem búa, líkt og hvalirnir, í Faxaflóa á sumrin. Um borð fá nemendur tækifæri til að kynnast hvalarannsóknum sem stundaðar eru um borð í hvalaskoðunarbátum.

Dagurinn byrjar á fræðilegum hluta í kennslustofu. Eftir hádegi verður farið í hvalaskoðunarferðina og henni lýkur um klukkan 16 við hvalaskoðunarfyrirtækið Eldingu, Ægisgarði 7, 101 Rvk.

Mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og vera í viðeigandi skóbúnaði.

Kennari:

  • Edda Elísabet Magnúsdóttir, aðjúnkt í líffræði við Háskóla Íslands.

Viltu læra með því að búa til hluti með stafrænni tækni, ræða við félaga þína um möguleika á því að nota tæknina og verða færari að nota tölvur til að hanna og skilgreina eigin framtíð? Menntunarhreyfingar eins og FabLab hreyfingin býður upp á tól og aðferðir til að gera það – að kynnast 21.aldar færni og skapa sér aukin tækifæri.

Þessi þemadagur fer fram í Fab Lab Reykjavík. Kynntar verða þær hugmyndir sem “maker”hreyfingin byggir á og spáð í hvaða þýðingu þær geta haft fyrir ykkur til framtíðar. Þið fáið kynningu á aðstöðu og tækjum, eins og vinýlskera, leiserskera og þrívíddarprentara, en getið líka prófað ýmsar aðferðir og unnið verkefni eins og tíminn leyfir.

Hægt verður að vinna með hugmyndir sem má teikna og skera í vínilskera eða leiserskera, eða móta, skanna og prenta í þrívídd.

Gott getur verið að taka með sér litla minnisbók til að taka nótur, ef þið viljið.

Nemendur mæta beint í Fab Lab Reykjavík sem er staðsett við Austurberg 5, 111 Reykjavík. Mæting kl. 9.00.

Kennarar:

  • Hafliði Ásgeirsson, tæknifræðingur
  • Sigurður Fjalar Jónsson, kennari.

Landnám í Reykjavík

Á þemadeginum verður gengið um miðborgina og staðir skoðaðir þar sem fornleifarannsóknir hafa farið fram. Nemendur fá að kynnast fornleifarannsóknum sem hafa staðið yfir og eru enn yfirstandandi í miðbænum.

Farið verður á Landnámssýninguna sem er staðsett á horni Aðalstrætis og Túngötu. Á sýningunni er fjallað um landnám í Reykjavík, sem er aðal þema dagsins. Á sýningunni fá nemendur m.a. að skoða glæsilegan landnámsskála sem var grafinn upp af fornleifafræðingum og marga jarðfundna gripi sem fundust.

Eftir hádegi verður farið á sýninguna Sjónarhóll sem er í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík. Þar fá nemendur m.a. að spreyta sig við skriftir með tilskornum fjöðurstaf og heimalöguðu jurta- og krækiberjableki á sérverkað bókfell (kálfskinn).

Mikilvægt er að nemendur klæði sig eftir veðri og séu í viðeigandi skóbúnaði.

Kennari:

  • Hulda Björk Guðmundsdóttir, framhaldsnemi í fornleifafræði við Háskóla Íslands.

Langar þig að kynnast leyndardómum tölvunnar?

Nú þegar heimurinn færist stöðugt hraðar inn í veröld hins stafræna, er forritun sí nauðsynlegra tæki til að fóta sig. Nemendur í tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði Háskóla Íslands ætla að kenna grunnþætti forritunar. Farið verður í einföld atriði Java forritunarmálsins og HTML vefforritunar.

Þá fá nemendur einnig að kynnast hugsanaferli forritara, spreyta sig á gagnvirkum æfingum og feta sín fyrstu spor í töfralandi tölvunnar. Hver veit nema við forritum lítinn leik?

Námskeiðið krefst ekki fyrri reynslu af forritun og því opið öllum þeim sem hafa minnsta áhuga á tölvum. Þemadeginum verður skipt jafnt milli HTML vefforritunar og Java málsins. Hemingur hópsins situr hverja umfjöllun í senn og skipta hóparnir svo um stöð eftir hádegismat.

Kennarar:

  • Sóley Benediktsdóttir, BS nemi í tölvunarfræði við Háskóla Íslands
  • Stefán Gunnlaugur Jónsson, BS nemi í hugbúnaðarverkfræði við Háskóla Íslands

Finnst þér mannslíkaminn áhugaverður? Langar þig að fræðast um heilbrigði og heilsu og kynnast spennandi viðfangsefnum heilbrigðisstarfsfólks?

Við ætlum að eyða deginum í að skoða ýmsar hliðar heilbrigðisvísinda. Við fáum til dæmis að skyggnast bakvið tjöldin hjá lífeindafræðingum, næringarfræðingar sýna okkur af hverju við þurfum að borða, matvælafræðingar koma okkur á óvart, við fáum að bregða okkur í hlutverk hjúkrunarfræðinga, hugum að tannheilsu og fáum jafnvel að grípa í tannlæknaborinn!

Nemendur mæta í Læknagarð, Vatnsmýrarvegi 16, við Landspítala, kl. 9.00    Þeir sem vilja ganga frá Háskólatorgi mæta kl. 8.40 og ganga með starfsmanni í Læknagarð sem tekur u.þ.b. 20 mínútur. Þá er mikilvægt að klæða sig eftir veðri og vera í viðeigandi skóbúnaði.

Hlökkum til að sjá þig í Læknagarði.

Þemadagur í jarðvísindum - Jarðskjálftar

Á þemadegi um jarðskjálfta læra nemendur að reikna stærð jarðskjálfta og finna út upptök þeirra.

Við skoðum mismunandi gerðir skjálfta, fræga stórskjálfta og hvernig þeir segja okkur hvað leynist innan í jörðinni. Jarðskjálftar á öðrum hnöttum verða líka teknir fyrir.

Farið verður í vettvangsferð þannig að þátttakendur þurfa að mæta í góðum útivistarfötum og skóm, tilbúnir fyrir hvernig veður sem er.

Kennarar:

  • Sigríður Kristjánsdóttir, doktrosnemi í jarðskjálftafræði við Háskóla Íslands
  • Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðikennari í Vísindasmiðju Háskóla Íslands.

Kvikmyndafræði spyr allskonar spurninga um kvikmyndir; hvers eðlis þær eru og hvernig horft er á þær. Eitt af því sem kvikmyndafræðin er forvitin um er hvernig við greinum á milli ólíkra kvikmynda.

Nú kann að liggja í augum uppi hver munurinn er á kvikmyndagreinum eins og söngleik og vestra, eða hrollvekju og gamanmynd. En hvað segjum við þá um vestra þar sem dansað er og sungið, eða hrollvekju sem einnig er bráðfyndin? Þá er jafnframt ljóst að þegar við förum á spennumynd gerum við okkur ákveðnar hugmyndir um hvernig atburðarásin eigi að vera og sama á við um vísindaskáldskap.

Þessar hugmyndir sem við höfum byggjast – hvort sem það er meðvitað eða ekki – á þekkingu okkar á greinahefðum. Við höfum lært að horfa á kvikmyndir með því einfaldlega að vera vel séð, hafa séð margar myndir, og kvikmyndagerðafólk veit þetta og kann að bregðast við þessum væntingum, ýmist með því að uppfylla þær eða spila með þær, til dæmis með því að gera eitthvað glænýtt sem við höfum ekki séð áður eða snúa á okkar með öðrum hætti.

Í þessu námskeiði verður byrjað á því að fjalla um nokkur grunnatriði í kvikmyndalestri og svo verður sjónum beint að kvikmyndagreinum. Við lærum hvernig greinahefðar þróast og breytast, og hvernig horft er til ólíkra hluta þegar kvikmyndagreinar eru skilgreindar. Atriði úr ólíkum myndum verða sýnd auk sérstakrar kvikmyndasýningar sem skipulögð er í tengslum við efni námskeiðsins.

Kennarar:

  • Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands
  • Guðrún Elsa Bragadóttir, doktorsnemi og stundakennari í kvikmyndafræði Háskóla Íslands

Listir og lífsleikni - Njótum lífsins!

Á þessum þemadegi býðst þér að taka þátt í ævintýradegi þar sem allt getur gerst.

Í námskeiðinu verður blandað saman lífsleikni, myndlist, leiklist og gleði. Öllu er blandað saman í heitan pott, hrært vel í, suðan látin koma upp og bragðað á!

Þátttakendum verður boðið að vinna með skapandi aðferðum.  Þeir kynnast nokkrum leikjum sem tengjast lífsleikni. Að því loknu verður lagt af stað í leiðangur og seinni hluta dags búa þátttakendur til sitt eigið verk, það gera þeir með hlutum, myndum og texta sem þeir safna úr ýmsum áttum. Gleðin tekur síðan völdin þegar þátttakendur sýna verk sín.

Kennarar:

  • Hanna Ólafsdóttir, myndlistakona og lektor í listgreinum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
  • Rannveig Þorkelsdóttir, aðjunkt í leiklist og leiklistarkennslu við Háskóla Íslands

Hvað felst í nýsköpun og af hverju er hún mikilvæg? Hvernig væri heimurinn án nýsköpunar?

Í þjóðfélagi sem er í stöðugri þróun er nýsköpun að verða sífellt mikilvægari. Við munum skyggnast inn í hugarheim frumkvöðulsins og skoða hvaða tól nýtast við nýsköpun og viðskiptaþróun. Farið verður yfir hvernig ferlið er og hvernig hægt er að koma hugmynd frá hugmyndarstigi yfir í framkvæmd og út á markaðinn.

Við munum vinna í hópum og skoða hvað mikilvægt sé að hafa í huga þegar hugmynd er þróuð. Nemendur munu til dæmis taka notendaviðtöl og læra að nota Business Model Canvas til að gera viðskiptaáætlun og þróa þannig hugmynd að viðskiptatækifæri.

Námskeiðið er fyrir þá sem hafa áhuga á nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi. Ekki er nauðsynlegt að vera komin með hugmynd til að taka þátt.

Kennarar:

  • Edda Ýr Georgsdóttir, meistaranemi í Verkefnastjórnun við Háskóla Íslands og viðskiptafræðingur
  • Linda Jóhannsdóttir, meistaranemi í Nýsköpun og viðskiptaþróun við Háskóla Íslands og hönnuður
  • Karen Henný Bjarnadóttir, meistaranemi í Nýsköpun og viðskiptaþróun við Háskóla Íslands og viðskiptafræðingur

Hvað gera dómarar og lögmenn? Hvernig fara þessi réttarhöld fram sem við heyrum í fréttunum og sjáum í sjónvarpinu?
Við kynnumst starfsumhverfi dómara og lögmanna þegar við förum í vettvangsferð í Héraðsdóm Reykjavíkur. Þar bregðum við okkur í hlutverk þeirra, klæðumst skikkjum og setjum upp réttarhöld þar sem við leysum úr raunverulegu álitaefni.

Nemendur eru hvattir til að taka virkan þátt í námskeiðinu og fá að spreyta sig á lögfræðilegum álitaefnum og máta sig í ýmis hlutverk lögfræðinga.

Þar sem farið verður í vettvangsferð er mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og vera í viðeigandi skóbúnaði.

Kennarar:

  • Ásgerður Snævarr, lögfræðingur hjá umboðsmanni Alþingis og stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands
  • Flóki Ásgeirsson, lögfræðingur, hdl. og LLM frá lagadeild Harvard háskóla og stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands

Sálfræði er vísindagrein sem flestir hafa óljósa hugmynd um og mörgum þykir svolítið óskiljanleg eða jafnvel dularfull. Samt sem áður eru hugmyndir og kenningar sálfræðinnar orðnar hluti af hversdagsmenningu okkar. Sálfræðin hefur fært okkur innsýn og svör við flóknum spurningingum og hefur þannig hjálpað okkur að skilja okkur sjálf, annað fólk og heiminn sem við búum í.

Farið verður yfir helstu svið sálfræðinnar sem eru fjölmörg og fást við allar hliðar mannshugans og atferli manna og dýra.

Kennslan á þemadeginum fer fram með fyrirlestrum, sýningu myndbanda og léttri verkefnavinnu.

Kennarar:

  • Harpa Óskarsdóttir, doktorsnemi og stundakennari í sálfræði við Háskóla Íslands
  • Rakel Sara Höskuldsdóttir, MS í sálfræði við Háskóla Íslands

Á þessum degi ferðumst við um heim tungumálanna.

Nemendur Háskóla unga fólksins læra að tjá sig á dönsku, frönsku, ítölsku, forngrísku, latínu, spænsku og þýsku á lifandi og skapandi hátt þar sem leikræn tjáning, leikir, tónlist og tölvur koma við sögu.

Kennarar:

  • Sérfræðingar Mála- og menningardeildar Háskóla Íslands

Sörvævor - Lifðu af í náttúrunni

Skemmtilegt námskeið þar sem þátttakendur læra einfaldar aðferðir við að lifa af úti í náttúrunni í anda Robinso Crusoe. Það þarf hugvit og áræðni til þess að lifa af við erfiðar aðstæður.

Í námskeiðinu munum við læra að búa til skýli, kynnast nokkrum aðferðum við að kveikja bál, tálga, nota spírur sem byggingarefni og elda mat yfir opnum eldi. Reyna mun á samvinnu allra þátttakenda um leið og einstaklingsframtakið er virkjað. Þátttakendur kynnast öruggum hnífsbrögðum og fá að umgangast opinn eld og nýta hann til eldamennsku.

Spennandi og skemmtilegt námskeið fyrir þá sem vilja læra að bjarga sér.

Námskeiðið byrjar og endar á háskólasvæðinu og mun að hluta til fara fram í Miðstöð Útivistar og Útináms í Gufunesbæ.

Mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og vera í viðeigandi skóbúnaði.

Kennarar:

  • Ingveldur Ævarsdóttir, grunnskólakennari með áherslu á útinám og stundakennari við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
  • Ævar Aðalsteinsson, meistaranemi í tómstunda- og félagsmálafræði og verkefnastjóri í útinámi við Háskóla Íslands

Á þessum þemadegi læra nemendur að gera eigin tölvuleiki. Kennt verður á leikjaforritunarhugbúnaðinn Unity, sem býður upp á nær allt sem fólki getur dottið í hug.

Smíðaður verður einfaldur tölvuleikur og síðan fá nemendur tækifæri til að spreyta sig á að smíða leiki eftir eigin hugmyndum.

Námskeiðið er ætlað byrjendum en þau sem hafa lært einhverja forritun áður eru líka velkomin.

Ekki er ráðlagt að taka bæði tveggja daga námskeið og þemadag í tölvuleikjaforritun þar sem farið verður yfir svipað efni á þessum námskeiðum.

Kennarar:

  • Guðný Halldórsdóttir
  • Emil Gauti Friðriksson
    • nemendur í eðlisfræði við Háskóla Íslands