Háskóli unga fólksins 2019

Háskóli unga fólksins var haldinn 11. - 14. júní 2019. Þetta ár voru það nemendur fæddir 2003-2007 (6.-10. bekk grunnskóla) sem áttu kost á því að sækja skólann heim.

Um 350 nemendur sátu námskeið í þeim fjölmörgu fögum sem boðið var uppá og hver og einn nemandi útbjó sína eigin stundatöflu með þremur tvegga daga námskeiðum, þemadegi og tveimur örnámskeiðum.

Einnig var boðið upp á fjöltefli, útileiki og fleira skemmtilegt.

Í lokin var haldin glæsileg lokahátíð á háskólasvæðinu þar sem blásið var til grillveislu í veðurblíðunni. Nemendur skemmtu sér einnig í hoppukastala og klifurvegg og fóru heim með bros á vör.

Námskeið

Hvernig er best að bregðast við afbrotum? Hver er tilgangur refsinga? Er gagnlegt að lengja eða stytta fangelsisdóma?

Í námskeiðinu verður farið yfir mismunandi refsingar og virkni þeirra. Jafnframt verður fjallað um lögreglu og fangelsi á Íslandi.

Kennari:

  • Margrét Valdimarsdóttir, afbrotafræðingur og aðjúnkt við Háskóla Íslands.

Á hverjum degi þurfa fréttamenn að velja úr fjölda upplýsinga og ákveða hvað er frétt og hvað ekki. Hvar finna þeir fréttirnar og hvernig vita þeir hvað er frétt og hvað ekki?

Í námskeiðinu verður fjallað um þetta og einnig hvernig á að skrifa fréttir. Nemendur spreyta sig á að skrifa fréttir og fá að prófa tól og tæki sem fréttamenn nota við vinnu sína, myndavélar og hljóðnema.

Kennarar:

  • Stefán Aðalsteinn Drengsson, framleiðandi fréttaskýringarþáttarins Kveiks
  • Aðalsteinn Kjartansson, fréttamaður í fréttaskýringarþættinum Kveik.

Kynntar verða tilraunir með ljós, þar sem fyrirbærin skautun, ljósbrot, alspeglun, víxlun og bognun leika lykilhlutverk við að mynda skrautleg mynstur.

Meðal tilraunanna verða: litaheimur límbandsins, mynstur UHU-límsins, mæling á hárþykkt og vatnsbunuljósleiðari. Þátttakendur fá tækifæri til að búa til eigin uppstillingar að sumum tilraununum.

Kennari:

  • Ari Ólafsson, dósent við Raunvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði.

Efnafræði fjallar um byggingu og eiginleika hinna ýmsu efna og hvernig efni hvarfast hvert við annað. Fræðigreinin er mjög stór og fjölbreytt því efni eru allt í kringum okkur. Allur matur, lyf, hreinsiefni, tölvur, sprengjur og jafnvel við sjálf erum gerð úr mismunandi efnum.

Í efnafræðinámskeiði Háskóla unga fólksins gera nemendur nokkrar áhugaverðar tilraunir og leysa skemmtileg verkefni. Unnið verður inni í kennslustofum efnafræðideildar þar sem nemendur fá að kynnast hinu spennandi umhverfi tilraunastofunnar og vinna sjálfir með efni og áhöld efnafræðinnar.

Til skoðunar verða efni sem allir ættu að þekkja úr umhverfinu, svo sem C-vítamín, vatn, edik og kerti. Við munum líka velta fyrir okkur af hverju blóm, grænmeti og ávextir hafa mismunandi liti og gera skemmtilega tilraun með liti.

Forvitnir krakkar verða ekki sviknir af þessu námskeiði.

Kennarar:

  • Katrín Lilja Sigurðardóttir, stundakennari í efnafræði við Háskóla Íslands og forsprakki hins landsfræga Sprengjugengis
  • Aðalheiður Guðjónsdóttir, verkfræðingur og verkefnisstjóri Verkefnastofu Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands.

Langar þig að geta bjargað mannslífi? Bjargráður er félag læknanema um endurlífgun en markmið félagsins er að kenna krökkum og fullorðnum grunnatriðin í endurlífgun. Hvað eigum við að gera ef við komum að manneskju sem liggur á jörðinni? Hvað ef hún svarar ekki ef við köllum á hana? Hvað ef hún andar ekki?

Við förum yfir öll þessi atriði og gerum það á skemmtilegan hátt svo engum ætti að leiðast á meðan lært er um þessi mikilvægu atriði sem geta hjálpað ykkur að bjarga mannslífi.

Kennarar:

  • Félagar í Bjargráði, félagi læknanema við Háskóla Íslands.

Fjallað verður um hvernig eitthvað getur verið einhvers virði og hvort það sé yfirhöfuð eitthvað sem við getum metið.

Við skoðum hversu frábrugðið virðismat ólíkra einstaklinga getur verið og hvernig megi færa það yfir á sambærilegan mælikvarða.

Í námskeiðinu fá nemendur að spreyta sig á ýmsum matsaðferðum og álitamálum sem þeim fylgja.

Við lok námskeiðsins ættu nemendur að geta tekið afstöðu til spurninga á borð við hvort hægt sé að meta allt til fjár og ef svo er, hvernig sé þá best að fara að því.

Kennari:

  • Ágúst Arnórsson, hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.

Í Frakklandi er töluð franska. Mörgum finnst franska mjög fallegt tungumál og langar jafnvel að geta tjáð sig á frönsku en alltof oft segir fólk að franskan sé svo erfið.

Í Háskóla unga fólksins ætlum við að skoða hvað það er sem er öðruvísi í tungumálinu, af hverju hefur franskan fengið á sig þann stimpil að hún sé erfitt tungumál.

Áherslan í þessu námskeiði er á tungumálið og nemendur kynnast því með því að læra hvernig Frakkar kynna sig og tjá sig um ýmsa hluti.

Nemendur læra að segja hvað þeir heita og hvað þeim finnst gaman að gera og margt fleira.

Kennari:

  • Hasan Karakilinc, doktorsnemi í frönskum fræðum við Háskóla Íslands.

Hvað er að vera frumkvöðull? Hvað þarf til að geta kallast frumkvöðull?

Skoðað verður hvað frumkvöðlar gera, hvernig þeir vinna og gerð grein fyrir mikilvægi frumkvöðla fyrir samfélagið. Einnig verður farið yfir hvaðan hugmyndir koma og hvernig hægt er að vinna með þær.

Unnið verður að nýskapandi verkefni í samstarfi við fyrirtæki.

Kennarar:

  • Edda Ýr Georgsdóttir, meistaranemi í Verkefnastjórnun við Háskóla Íslands og viðskiptafræðingur
  • Linda Jóhannsdóttir, meistaranemi í Nýsköpun og viðskiptaþróun við Háskóla Íslands og hönnuður
  • Karen Henný Bjarnadóttir, meistaranemi í Nýsköpun og viðskiptaþróun við Háskóla Íslands og viðskiptafræðingur

Hefur þú pælt í æðri víddum?

Á námskeiðinu skoðum við eiginleika punkta, lína og flata og mismunandi samsetninga þeirra á leið okkar að því að reyna að átta okkur á fjórðu víddinni.

Við kynnumst brotabroti úr sögu rúmfræðinnar og fáum nasasjón af nýlegum uppgötvunum í stærðfræði þar sem m.a. er velt upp spurningum um uppbyggingu alheimsins.

Kennarar:

  • Bjarnheiður Kristinsdóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, með sérsvið í stærðfræðimenntafræði
  • Jóhanna Ásgeirsdóttir, meistaranemi í listkennslu við Listaháskóla Íslands. 

Væri hægt að búa á jörðinni án hafsins? Er bara eitt haf á jörðinni? Hvaðan kemur súrefnið sem við öndum að okkur? Hvernig liti jörðin út án vatns? Getur verið að það verði meira af plasti í sjónum en fiskum árið 2050? Hvaða áhrif hefur plastmengun á lífið í sjónum?

Á námskeiðinu læra nemendur um mikilvægi hafsins fyrir allt líf á jörðinni og að tilvera manna og hafsins er bundin órjúfanlegum böndum. Við skoðum örplast í smásjá, tökum málin í okkar hendur og höfum áhrif.

Kennari:

  • Margrét Hugadóttir, fjölmenningarfræðingur, náttúrufræðikennari og sérfræðingur hjá Landvernd.

Verkfræðileg verkefni leyst.

Heimurinn er fullur af verkfræðilegum verkefnum sem þarf að leysa. En hvað þarf til að leysa þau? Verkfræðingar styðjast við ákveðna hugmyndafræði sem þeir beita við lausn verkefna. Nemendur fá að kynnast hugmyndafræðinni og beita henni til að leysa verkefni.

Kennarar:

  • Rúnar Unnþórsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands.
  • Guðmundur Valur Oddsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands.

Viltu fá innsýn inn í líf og störf íþróttafræðings og kynnast hvernig hreyfing og svefn geta haft áhrif á heilsuna? Langar þig til að forvitnast um hvernig líkaminn bregst við æfingum og þjálfun?

Í íþrótta- og heilsufræðinámskeiðinu munum við fræðast um og framkvæma ýmsar áhugaverðar mælingar og reyna á alla vöðva líkamans. Verið því tilbúin í skemmtilegan og fróðlegan tíma þar sem við munum hreyfa okkur bæði úti og inni og því er mikilvægt að vera í viðeigandi fatnaði.

Kennari:

  • Rúna Sif Stefánsdóttir, doktorsnemi í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Japanskt mál og menning - Tveggja daga námskeið og örnámskeið

Japönsk menning er um margt sérstök og ímynd landsins til jafns tengd hátækni og hraða nútíma samfélags sem og forn menningu og hefðum. Á námskeiðinu verður aðeins rýnt í sérkenni japanskrar menningar en sérstaklega verða tekin fyrir grunn atriði í japanskri tungu og munu nemendur læra ýmsar almennar kveðjur og grunn orðaforða.

Sjónum verður einnig beint að hinu sérstæða ritmáli japönskunnar, hiragana og katagana sem eru hljóðræn og svo kanji sem er myndtákn. Mun nemendum einnig gefast tækifæri til að skrifa nokkur tákn á hefðbundna vísu.

Kennari:

  • Yayoi Mizoguchi, stundakennari í japönskum fræðum við Háskóla Íslands

Þær eru litskrúðugar og taka stundum hamskiptum. Klæðaburðurinn er vissulega, ja, hvernig á maður að orða þetta kurteislega? Undarlegur? Framsækinn? Grímuballslegur? En þær búa yfir yfirnáttúrulegum kröftum og hæfileikum, mikilli réttlætiskennd og þær eru reiðubúnar að fórna lífi sínu fyrir okkur hin. Hér er að sjálfsögðu átt við ofurhetjur, þessa fágætu sögupersónutegund sem ferðast hefur af blaðsíðum myndasagna á hvíta tjaldið og á liðnum áratug, undir formerkjum Marvel, lagt undir sig kvikmyndaheiminn á heimsvísu.

Í þessu námskeiði verður kafað undir yfirborðið í samfléttuðum kvikmyndaheimi Marvel, eða M(arvel)C(inematic)U(niverse) eins og hann nefndur á ensku. Verður sjónum þar beint bæði að söguheiminum eins og hann birtist á hvíta tjaldinu og svo þeim bollaleggingum sem áttu sér stað á bak við tjöldin, er leiddu til þeirrar fordæmalausu ákvörðunar kvikmyndafyrirtækis að ráðast í gerð nærri tuttugu rándýrra kvikmynda er allar tengjast og mynda saman samfellda sögufléttu.

Þá verða skapgerð og einkenni ofurhetjunnar rædd, hverjir veikleikar hennar séu og hvers vegna hún þarfnist ávallt erkióvinar (e. arch-nemesis). Við munum einnig grafast fyrir um dýpra merkingarsvið myndanna, tengingar við goðsögur, pólitík og margt fleira. Að lokum ræðum við hvort þetta sé allt bara fyrir stáka (svarið er auðvitað nei, eða hvað?).

Kennari:

  • Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands

Kvikmyndir voru ríkjandi miðill sjónrænnar menningar alla tuttugustu öldina og um leið ein vinsælasta afþreying veraldar. Á nýrri öld virðist staða kvikmyndarinnar hins vegar óljósari og tengist það að hluta til sívaxandi vinsældum nýs miðils: Tölvuleikja.

Frá uppruna sínum í tvívíðum Ping Pong eða hægfara innrás geimvera í spilakassa hafa tölvuleikir tekið stökkbreytingum, og breytingarnar hafa haldist í hendur við tæknilega framþróun. Heimar hafa opnast í tölvuleikjum samtímans, heimar sem líkjast okkar eigin (GTA) eða eru framandi (No Man’s Sky), og við erum þátttakendur í atburðarásinni. En kvikmyndir og tölvuleikir eiga þó margt sameiginlegt, þar á meðal grundvallast miðlarnir báðir í nýrri stafrænni tækni og því hefur verið haldið fram að mörkin milli kvikmynda og tölvuleikja séu að þurrkast út. Kvikmyndir líkjast í auknum mæli tölvuleikjum og tölvuleikir sækja í frásagnaraðferðir kvikmynda.

Í þessu námskeiði verður rætt um þróun kvikmynda og tölvuleikja í samtímanum, þá þætti sem miðlarnir tveir eiga sameiginlega og hvað framtíðin kunni að bera í skauti sér þegar kemur að samruna þeirra og gagnkvæmum áhrifum.

Kennari:

  • Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands

Á námskeiðinu verða kennd grunnatriði í kínverskri tungu. Kenndur verður framburður og kynnt PINYIN-hljóðritunarkerfið, sem er grunnurinn að því að ná tökum á kínverskum framburði. Við æfum nokkra einfalda frasa og lærum að syngja einfalt lag á kínversku. Einnig verður kínverska ritmálið kynnt og nemendur fá að spreyta sig á að skrifa nokkur tákn og læra af hverju það er ekki eins erfitt og ætla mætti að lesa og skrifa þessi framandi myndtákn.

Við fræðumst um landið og staðhætti, menningu og árþúsunda langa sögu, ýmis þjóðarbrot, trúarbrögð og heimspeki. Í stuttu máli lærum við bæði um forna hámenningu og ótrúlega hraða nútímavæðingu þessa framandi menningarheims, en Kína er ekki aðeins fjölmennasta ríki veraldar heldur einnig næststærsta hagkerfi heims og það sem vex hraðast.

Kennari:

  • Þorgerður Anna Björnsdóttir, BA í kínverskum fræðum og verkefnisstjóri við Konfúsíusarstofnun Háskóla Íslands.

Í þessu námskeiði fá þátttakendur tækifæri til þess að skapa, túlka og tjá eigin hugmyndir og annarra. Bæði í gegnum skapandi vinnu og leik.

Nemendur vinna með myndir og texta og skapa sína eigin útfærslu sem þeir kynna hver fyrir öðrum. Þátttakendur fara í örstutta hlutverkaleiki í ímynduðum heimi.

Kennari:

  • Hanna Ólafsdóttir, myndlistarmaður og lektor í listgreinum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
  • Rannveig Þorkelsdóttir, aðjunkt í leiklist og leiklistarkennslu við Háskóla Íslands

Hvað eru stjörnuhröp og loftsteinar? Hvað gerist ef stór steinn rekst á jörðina? Í námskeiðinu fá nemendur að handleika alvöru loftsteina frá tunglinu, Mars og úr smástirnabeltinu.

Við skoðum hvernig gígar verða til, hvar stærstu gíga sólkerfisins er að finna og hvernig hægt er að nota gíga til að finna út hve gömul yfirborð mismunandi hnatta eru. Gæti lífið hafa komið til jarðar með loftsteinum?

Kennari:

  • Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðikennari í Vísindasmiðju Háskóla Íslands.

Lyfjafræðin er fjölbreytt fag innan heilbrigðisvísindanna. Þar fara fram ýmsar rannsóknir, allt frá því hvaða efni hafa lyfjafræðilega virkni gagnvart ákveðnum sjúkdómi, hvernig þau eru sett saman (formúleruð) í endanlegt lyfjaform og síðan hvernig þau reynast sjúklingnum.

Þar sem lyfjafræðin tekur sífelldum breytingum verður fjallað um það hvert lyfjafræðin stefnir, frá apóteksframleiðslu yfir í lyfjafyrirtækin. Nemendur munu fá að kynnast ýmsum þáttum lyfjafræðinnar og hvað það þýðir að vera lyfjafræðingur. Nemendur fá einnig að kynnast vinnubrögðum í framleiðslu krema samkvæmt forskrift.

Kennarar:

  • Bergþóra Sigríður Snorradóttir, sérfræðingur við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands
  • Unnur Arna Þorsteinsdóttir, doktorsnemi í lyfjafræði við Háskóla Íslands 

Kennsla og vettvangsferð í einn af leyndardómum Háskóla Íslands.

Hvað eru lög? Hvernig verða þau til og af hverju förum við eftir þeim? Hvað gera lögfræðingar og hvernig lítur starfsumhverfi þeirra út?

Fjallað verður um grunnstoðir lögfræðinnar og hugmyndir okkar um lögin. Við veltum fyrir okkur af hverju við förum eftir lögunum og hvort tvær niðurstöður geti verið jafntækar. Ef svo er, hver ákveður þá hvor niðurstaðan er rétt? Við mátum dómaraskikkjur og setjum upp lítil réttarhöld þar sem við leysum úr raunverulegu álitaefni.

Nemendur eru hvattir til að taka virkan þátt í námskeiðinu og fá að spreyta sig á lögfræðilegum álitaefnum og máta sig í ýmis hlutverk lögfræðinga.

Kennari:

  • Ásgerður Snævarr, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu og stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands.

Getur það sem við borðum haft áhrif á það hvernig okkur líður? Er hægt að bæta minni, námsárangur og árangur í íþróttum með hollu mataræði? Afhverju þurfum við að borða og hvaða næringarefni eru í matnum? Hvað hefur áhrif á fæðuval? Hvað eru ráðleggingar um mataræði og af hverju skipta þær máli?

Í þessu næringarfræðinámskeiði verður farið í grunnatriði næringarfræðinnar og leystar ýmsar þrautir, verkefni og leikir sem svara þessum spurningum og ótal mörgum öðrum. Rætt um hvaða næringarefni eru í matnum og hvaða áhrif þau hafa á líkamann okkar, líðan og árangur. Ráðleggingar um mataræði til að stuðla að vellíðan og heilbrigði verða kynntar.

Búið ykkur undir líflegan tíma sem reynir á heilastarfsemina, bragðskynið, lyktarskynið og fleira!

Kennarar:

  • Ellen Alma Tryggvadóttir, doktorsnemi í næringarfræði og stundakennari við Háskóla Íslands
  • Thelma Rún Rúnarsdóttir, meistaranemi í næringarfræði við Háskóla Íslands.

Heimaplánetan okkar er sú eina þar sem við vitum að líf þrífst. Nú er hún að breytast af völdum okkar mannanna. Í námskeiðinu munu þátttakendur fá að bera saman lífvænleika mismunandi plánetna og komast að því hvar aðrar lífvænlegur plánetur leynast. Er til pláneta B?

Í námskeiðinu verður líka fjallað um þau umhverfisvandamál sem við stöndum frammi fyrir og hvað við getum gert (sem er heilmargt!) til að leysa þau.

Kennari:

  • Sævar Helgi Bragason, þáttagerðarmaður, margverðlaunaður vísindamiðlari og stjörnufræðikennari í Vísindasmiðju Háskóla Íslands

Myndir segja meira en þúsund orð.

En geta myndir hjálpað okkur að skilja okkur sjálf og samfélagið betur? Hvernig getum við notað myndir til að kalla fram hugmyndir og segja góða sögu? Hvaða sögu segjum við þegar við deilum myndum og er það sagan sem við viljum segja?

Í þessu námskeiði vinnum við verkefni og tökum þátt í umræðum sem miða að því að skoða betur hvernig ungt fólk getur notað myndir til að miðla rödd sinni á skýran og áhrifaríkan hátt. Hvernig má til dæmis nota myndir til að velta fyrir sér ýmsum samfélagslegum málefnum, til að tjá skoðanir sínar og fá aukið rými.

Kennarar:

  • Eva Harðardóttir, aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
  • Tinna Ottesen, kvikmyndakona og rýmissagnahöfundur.

Inngangur að rafmagnsverkfræði - Örnámskeið

Öll rafmagnstæki, eins og t.d. spjaldtölvur, útvörp, sjónvörp og GSM-símar, byggjast á rafmagnsrásum. Í þessu námskeiði kynnast nemendur grundvallaratriðum í rafmagnsrásum og framkvæma verklegar æfingar þar sem m.a. samband straums og spennu er skoðað fyrir ýmsar rafmagnsrásir.

Kennarar:

  • Jón Atli Benediktsson, rafmagnsverkfræðingur og rektor Háskóla Íslands, og fleiri.

Hvað er rannsóknarblaðamennska? Hvernig sker hún sig frá annarri blaðamennsku? Hvað þarf til til að vera góður rannsóknarblaðamaður?

Nemendur örnámskeiðsins fá að kynnast störfum rannsóknarblaðamanna og viðfangsefnum þeirra. Einnig munum við skoða hvernig þáttur eins og fréttaskýringarþátturinn Kveikur er búinn til en umsjónarmenn örnámskeiðsins eru báðir úr teymi Kveiks.

Kennarar:

  • Stefán Aðalsteinn Drengsson, framleiðandi í fréttaskýringarþættinum Kveik
  • Aðalsteinn Kjartansson, fréttamaður í fréttaskýringarþættinum Kveik

Ritlist - Ritsmiðja þar sem sköpunargleðin ræður ríkjum - Tveggja daga námskeið

Áherslan á námskeiðinu verður fyrst og fremst á ritun texta af ýmsu tagi. Skoðað verður hvaðan kveikjur og hugmyndir koma og hvernig þeim er fylgt eftir í skrifum.

Nemendur kynna einnig texta sína hver fyrir öðrum og skoða leiðir til að fara með þá lengra og dýpra.

Kennari:

  • Halla Margrét Jóhannesdóttir, leikari, leikstjóri, rithöfundur og stundakennari í ritlist við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands

Farið verður yfir þætti í skurðlækningum, bæði almennum skurðlækningum en einnig með áherslu á hjarta- og heilaskurðlækningar. Einnig verður farið yfir grunnþætti þess að sauma og hverju skurðlæknar þurfa að huga að dags daglega.

Athugið að sýnd eru myndbönd af skurðaðgerðum í námskeiðinu og það því ekki fyrir viðkvæma.

Kennari:

  • Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir á Landspítala Háskólasjúkrahúsi, ásamt deildarlæknum.

Spænska - Hola, ¿Qué tal? -  Tveggja daga námskeið

Hvað skyldu Fernando Torres, Penélope Cruz, Shakira og Lionel Messi eiga sameiginlegt? Hvað er eiginlega salsa, tortilla og jamón? Hvernig getur það gagnast mér að kunna spænsku? Spænska er móðurmál um 400 milljóna manna í meira en tuttugu löndum og er eitt mest talaða tungumál heimsins í dag.

Í námskeiðinu fá nemendur innsýn í spænska tungu og þá fjölbreyttu menningarheima sem að baki henni standa. Nemendur læra einfaldar setningar, ýmis gagnleg orð og kynnast fjölbreytileika hins spænskumælandi heims í gegnum ýmsa miðla, s.s. tónlist og myndir.

Kennari:

  • Sigrún Magnúsdóttir, stundakennari í spænsku við Háskóla Íslands

Að leysa hnúta með stærðfræði - Örnámskeið

Fjallað verður um hvernig má binda og leysa hnúta með hjálp stærðfræði. Við skoðum ákveðna tegund af hnútum sem hægt er að tákna með tölum og finnum aðferð til að breyta hnútunum með því að framkvæma reikninga með almennum brotum.

Nemendur fá að spreyta sig á því að búa til flókna hnúta og síðan leysa þá aftur.

Önnur svipuð verkefni verða skoðuð eins og tími gefst til.

Kennsluefni fyrir námskeiðið.

Kennarar:

  • Benedikt Steinar Magnússon lektor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands.
  • Sigurður Örn Stefánsson dósent við Raunvísindadeild Háskóla Íslands.

Það er mikilvægt fyrir alla að hlúa að eigin geðheilsu og að kunna inn á tilfinningar sínar, góðar og erfiðar. Flestir hafa lent í því að kvíða ótrúlega mikið fyrir einhverju og fresta því endalaust eða jafnvel sleppa. Öllum líður líka einhvern tíma illa og finna fyrir mikilli depurð. En hvenær er kvíði orðinn svo hamlandi eða tilfinningar orðnar svo sterkar að maður ætti að leita sér aðstoðar?

Á námskeiðinu verður fjallað um geðheilsu, tilfinningar, helstu geðraskanir sem ungt fólk glímir við og hvert sé hægt að leita þegar vandi kemur upp. Það verður líka fjallað um hverju aðstandendur fólks með andleg vandamál þurfa að huga að og hvað allir geta gert til að hjálpa sér að líða betur.

Námskeiðið er gagnlegt öllum því geðheilsan fylgir okkur út lífið og flestir munu lenda í því að glíma við sálrænan vanda eða vera aðstandandi. Námskeiðið er fræðandi en samt á mannamáli, nemendur eru hvattir til að taka þátt í umræðum og spjalla við kennara!

Kennarar:

  • Fræðslustýrur Hugrúnar, geðfræðslufélags háskólanema, Kristín Hulda Gísladóttir og Sóley Siggeirsdóttir, meistaranemar í klínískri sálfræði.

Íslenskt táknmál - Örnámskeið

Vissir þú að á Íslandi eru til tvö íslensk mál? Það eru íslenska og íslenskt táknmál.

Hvernig líst þér á að koma í smá ferðalag inn í heim íslenska táknmálsins? Að læra íslenskt táknmál er skemmtilegt og öðruvísi en annað tungumálanám því málið er bara kennt í gegnum sjónina, ekki heyrnina.

Í þessu námskeiðið lærum við grunnatriðin í íslensku táknmáli s.s. að stafa nafnið okkar og segja frá fjölskyldu okkar og tákn fyrir vikudaga, mánuði, fatnað og liti. Við æfum nokkra einfalda frasa og lærum að syngja einfalt lag á íslensku táknmáli. Þá lærum við líka sitthvað um heim og menningu döff fólks.

Kennari:

  • Margrét Gígja Þórðardóttir, táknmálskennari og ráðgjafi hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.

Tækjaforritun Raspberry pi - Tveggja daga námskeið og örnámskeið

Tölvur tengdar við raunheiminn

Í tækjaforritun tengjum við tölvur við einföld tæki eins og ljós eða mótora og forritum tölvur til að stýra tækjunum. Þátttakendur þurfa enga reynslu af forritun en boðið verður upp á verkefni í hvoru tveggja Scratch og Python fyrir mismunandi reynslu- og getustig.

Verkefnin verða blanda af einföldum lokuðum verkefnum eftir forskrift þar sem forritunarmálin eru kynnt, og opnum verkefnum þar sem þátttakendur fikta og gera sín eigin tæki. Ef tími gefst eru tölvurnar tengdar við rofa eða skynjara svo hægt sé að stýra tækjunum án þess að nota mús eða lyklaborð.

Kennari:

  • Martin Swift, eðlisfræðingur, starfsmaður Vísindasmiðjunnar og leiðbeinandi við Háskóla Íslands

Viltu læra að búa til líflegar vefsíður með myndum og mismunandi útliti sem líta vel út í símum, spjaldtölvum og fartölvum? Viltu læra hvernig vefumhverfi virkar og hvað HTML, CSS og JavaScript merkja og hvernig það er notað í vefsmíði til að segja til um uppsetningu, útlit og virkni? Viltu læra að búa til vefsíður sem spila hljóð og myndbönd?

Á þessu námskeiði förum við yfir hvernig við skrifum vefsíður frá grunni og líka hvernig við endurblöndum vefsíður frá öðrum og breytum þeim eins og við viljum. Við notum verkfærið Thimble sem gerir okkur kleift að skrifa vefsíðu beint inn í vafra og sjá samstundis hvernig hún kemur út á vef, gera breytingar og laga og gefa vefsíðuna svo út á vef þegar við erum ánægð.

Enga forkunnáttu þarf og allir búa til vefsíður sem þeir geta sýnt á vefnum og haldið áfram með þegar heim er komið.

Kennari: Salvör Gissurardóttir, lektor í upplýsingatækni við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Í þessu námskeiði munum við kynnast rafmagni og alls konar spennandi hlutum tengdum því betur.

Við búum til okkar eigin vindmyllur og skoðum hvernig þær beisla vindorkuna og hvernig rafmagn verður til úr náttúruöflum.

Þá búum við einnig til vasaljós með því að lóða saman rafrás og fleira skemmtilegt.

Kennarar:

  • Guðrún Höskuldsdóttir, nemi í verkfræðilegri eðlisfræði við Háskóla Íslands og fleiri.

Hagfræði - Vinnumarkaðshagfræði - Örnámskeið

Fjallað verður um kjaraviðræður og gerð kjarasamninga.

Við skoðum markmið og samingsstöðu aðila vinnumarkaðsins og hlutverk hins opinbera við gerð kjarasamninga. Nemendur fá sjálfir að spreyta sig á helstu úrlausnarefnum kjaraviðræðna undir leiðsögn kennara.

Námskeiðinu lýkur á hagnýtu verkefni þar sem tveir hagsmunahópar nemenda semja um kaup og kjör.

Kennari:

  • Ágúst Arnórsson, hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands

Við heyrum stöðugt að vísindi séu mikilvæg fyrir nútíma samfélög. Niðurstöður þeirra eru hagnýttar í óteljandi tækninýjungar sem gjörbreyta lífsháttum okkar og vísindalegar rannsóknir eru því nauðsynlegar til að knýja áfram hagvöxt. Í stuttu máli eru vísindi nauðsynlegt og jákvætt afl í samtímanum. En hvert stefna vísindi? Á framtíð þeirra einungis að vera í höndum vísindamanna? Megum við gagnrýna hvernig sumar uppgötvanir hafa verið hagnýttar hingað til?

Siðfræði vísinda og rannsókna er fag sem greinir og útskýrir siðferðileg álitamál við rannsóknir og tækniþróun. En þessi grein siðfræðinnar lætur sig einnig varða hvernig vísindi ættu að skapa framtíð okkar allra. Í þessu námskeiði munum við beina sjónum okkar að áskorunum framtíðar og spyrja okkur margvíslegra spurninga um hvers konar framtíð vísindi ber að færa okkur á sviðum umhverfismála, heilbrigðis og gervigreindar.

Kennari:

  • Henry Alexander Henrysson, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands.

Þemadagar

Nemendur byrja á því að hitta kennara í kennslustofu þar sem farið verður stuttlega yfir helstu verkefni lögreglunnar.

Nemendur fara svo með kennurum í vettvangsferð til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem þeir fá að fræðast meira um lögregluna á Íslandi, meðal annars um rannsókn sakamála.

Þátttakendur þurfa að mæta í góðum útivistarfötum og skóm, tilbúnir fyrir hvernig veður sem er.

Kennarar:

  • Margrét Valdimarsdóttir, afbrotafræðingur og aðjúnkt við Háskóla Íslands
  • Snorri Örn Árnason, sérfræðingur hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og stundakennari við Háskóla Íslands.

Hvalirnir í Faxaflóa — Hvalafræðsla og hvalaskoðun — Þemadagur

Á námskeiðinu fara nemendur í hvalaskoðunarferð út á Faxaflóa þar sem fræðst verður um líf og undur hvalanna við Ísland. Faxaflói er heimkynni nokkurra algengra hvalategunda en á sumrin leggur mikill fjöldi þeirra leið sína inn í Faxaflóa, þá einna helst í ætisleit.

Algengustu hvalategundirnar á þessum slóðum eru hrefnur, hnúfubakar, hnýðingar og hnísur. Á sumrin iðar Faxaflói af lífi og oft er mikið fuglager á fæðuslóðum hvalanna. Nemendur fá einnig tækifæri til að fylgjast með hinum fjölmörgu lundum sem búa, líkt og hvalirnir, í Faxaflóa á sumrin. Um borð fá nemendur tækifæri til að kynnast hvalarannsóknum sem stundaðar eru um borð í hvalaskoðunarbátum.

Dagurinn byrjar á fræðilegum hluta í kennslustofu. Eftir hádegi verður farið í hvalaskoðunarferðina og henni lýkur um klukkan 16 við hvalaskoðunarfyrirtækið Eldingu, Ægisgarði 7, Reykjavík.

Mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og vera í viðeigandi skóbúnaði.  Athugið að ekki er boðið upp á sjóveikitöflur.

Kennari:

  • Edda Elísabet Magnúsdóttir, aðjúnkt í líffræði við Háskóla Íslands.

Viltu læra með því að búa til hluti með stafrænni tækni, ræða við félaga þína um möguleika á því að nota tæknina og verða færari að nota tölvur til að hanna og skilgreina eigin framtíð? Menntunarhreyfingar eins og FabLab hreyfingin bjóða upp á tækni, forrit og aðferðir til að gera það – til að kynnast 21. aldar færni og skapa sér aukin tækifæri.

Þessi þemadagur fer fram í Fab Lab Reykjavík. Kynntar verða þær hugmyndir sem sköpunarhreyfingin (e. maker movement) byggir á og spáð í hvaða þýðingu þær geta haft fyrir ykkur til framtíðar. Þið fáið kynningu á aðstöðu og tækjum, eins og vinýlskera, geislaskera og þrívíddarprentara, en getið líka prófað ýmsar aðferðir og unnið verkefni eins og tíminn leyfir.

Þið munið vinna með hugmyndir ykkar, teikna og skera í vínilskera eða leiserskera, eða móta í leir, skanna sköpunarverkin og prenta í þrívídd.

Við hvetjum ykkur til að taka með ykkur notaða boli, buxur eða aðrar flíkur sem við gefum nýtt líf með ýmsum aðferðum, einnig mælum við með að taka með sér litla minnisbók til að taka nótur, ef þið viljið.

Nemendur mæta beint í Fab Lab Reykjavík sem er í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti - FB (jarðhæð), við Austurberg 5, 111 Reykjavík. Mæting kl. 9.00.

Kennarar:

  • Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, aðjunkt við Háskóla Íslands
  • Harpa Dögg Kjartansdóttir, kennari í FB
  • Arnar Daði Þórisson, tæknifulltrúi

Langar þig að smíða þinn eigin kappakstursbíl? Team Spark er hópur verkfræðinema sem unnið hefur að þróun, hönnun og smíði eins manns kappakstursbíls í vetur. Í sumar fer hópurinn út með rafknúna kappakstursbílinn TS19 á keppnir í Austurríki, Ítalíu og á Spáni.

Í námskeiðinu fá nemendur að kynnast því hvað þarf til þess að heill kappakstursbíll verði að veruleika, hvar á að byrja og að hverju þarf að huga. Nemendur fara sjálfir í gegnum hönnun og smíði á eigin kappakstursbíl og fá að rekast á hin ýmsu vandamál sem mögulegt er að komi upp í ferli sem þessu.

Unnið verður í kennslustofu verkfræðideildar og einnig í verklegu rými deildarinnar. Allir þeir sem hafa áhuga á kappakstursbílum, tækjum eða brennandi áhuga á krefjandi verkefnum ættu ekki að láta þetta framhjá sér fara.

Kennarar:

  • Liðsmenn liðsins Team Spark við Háskóla Íslands.

Langar þig að kynnast leyndardómum tölvunnar?

Nú þegar heimurinn færist stöðugt hraðar inn í veröld hins stafræna, er forritun sífellt nauðsynlegra tæki til að fóta sig. Nemendur í tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði við Háskóla Íslands ætla að kenna grunnþætti forritunar. Farið verður í einföld atriði Java-forritunarmálsins og HTML-vefforritunar.

Þá fá nemendur einnig að kynnast hugsanaferli forritara, spreyta sig á gagnvirkum æfingum og feta sín fyrstu spor í töfralandi tölvunnar. Hver veit nema við forritum lítinn leik?

Námskeiðið krefst ekki fyrri reynslu af forritun og er því opið öllum þeim sem hafa minnsta áhuga á tölvum. Þemadeginum verður skipt jafnt milli HTML-vefforritunar og Java-málsins. Helmingur hópsins situr hverja umfjöllun í senn og hóparnir skipta svo um stöð eftir hádegismat.

Kennarar:

  • Sóley Benediktsdóttir, BS-nemi í tölvunarfræði við Háskóla Íslands
  • Stefán Gunnlaugur Jónsson, BS-nemi í hugbúnaðarverkfræði við Háskóla Íslands

Fréttavinnsla og heimsókn í Ríkisútvarpið.  Nemendur setja sig í spor fréttamanna og prófa sitt eigið fréttanef!

Á háskólasvæðinu er margt að gerast og fara nemendur um svæðið sem fréttamenn og þefa uppi áhugaverð umfjöllunarefni sem þeir vinna sjálfir fréttir um. Fréttir nemenda verða birtar á þessum vef.

Einnig fara nemendur í heimsókn í Ríkisútvarpið. Þar gefst tækifæri til að skoða hljóð- og myndver sjónvarpsins ásamt því að skoða aðra króka og kima hússins. Nemendur hitta einnig frétta- og dagskrárgerðarmenn Ríkisútvarpsins og þeim gefst kostur á að spyrja þá spurninga um störf fréttamanna, fréttamat, beinar útsendingar og fleira.

Kennarar:

  • Stefán Aðalsteinn Drengsson, framleiðandi fréttaskýringarþáttarins Kveiks
  • Aðalsteinn Kjartansson, fréttamaður í fréttaskýringarþættinum Kveik

Heilsa og heilbrigði - Heilsan skiptir öllu máli

Leikur þér forvitni á að vita meira um mannslíkamann og hvernig við höldum honum sem heilbrigðustum? Langar þig að vita út á hvað starf fólks í heilbrigðiskerfinu gengur?

Við verjum spennandi degi í að skoða ýmsar hliðar heilbrigðisvísinda. Næringafræðingar sýna okkur ýmislegt áhugavert sem tengist næringu. Matvælafræðingar kenna okkur eitthvað nýtt um ferli við að framleiða matvæli. Við fáum að kynnast starfi hjúkrunarfræðinga, tannlækna og lífeindafræðinga á lifandi hátt.

Nemendur mæta í Læknagarð, Vatnsmýrarvegi 16, við Landspítala, kl. 9.00. Þeir sem vilja ganga frá Háskólatorgi mæta kl. 8.40 og ganga með starfsmanni í Læknagarð sem tekur u.þ.b. 20 mínútur. Þá er mikilvægt að klæða sig eftir veðri og vera í viðeigandi skóbúnaði.

Hlökkum til að sjá þig í Læknagarði.

Kvikmyndafræði spyr alls konar spurninga um kvikmyndir; hvers eðlis þær eru og hvernig horft er á þær. Eitt af því sem kvikmyndafræðin er forvitin um er hvernig við greinum á milli ólíkra kvikmynda.

Nú kann að liggja í augum uppi hver munurinn er á kvikmyndagreinum eins og söngleik og vestra, eða hrollvekju og gamanmynd. En hvað segjum við þá um vestra þar sem dansað er og sungið, eða hrollvekju sem einnig er bráðfyndin? Þá er jafnframt ljóst að þegar við förum á spennumynd gerum við okkur ákveðnar hugmyndir um hvernig atburðarásin eigi að vera og hið sama á við um vísindaskáldskap.

Þessar hugmyndir sem við höfum, byggjast á – hvort sem það er meðvitað eða ekki – þekkingu okkar á greinahefðum. Við höfum lært að horfa á kvikmyndir með því einfaldlega að vera vel séð, hafa séð margar myndir, og kvikmyndagerðarfólk veit þetta og kann að bregðast við þessum væntingum, ýmist með því að uppfylla þær eða spila með þær, til dæmis með því að gera eitthvað glænýtt sem við höfum ekki séð áður eða snúa á okkar með öðrum hætti.

Í þessu námskeiði verður byrjað á því að fjalla um nokkur grunnatriði í kvikmyndalestri og svo verður sjónum beint að kvikmyndagreinum. Við lærum hvernig greinahefðir þróast og breytast og hvernig horft er til ólíkra hluta þegar kvikmyndagreinar eru skilgreindar. Atriði úr ólíkum myndum verða sýnd, auk sérstakrar kvikmyndasýningar sem skipulögð er í tengslum við efni námskeiðsins.

Kennarar:

  • Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands
  • Guðrún Elsa Bragadóttir, doktorsnemi og stundakennari í kvikmyndafræði Háskóla Íslands.

Á þessum þemadegi býðst þér að taka þátt í ævintýradegi þar sem allt getur gerst.

Í námskeiðinu verður blandað saman lífsleikni, myndlist, leiklist og gleði. Öllu er blandað saman í heitan pott, hrært vel í, suðan látin koma upp og bragðað á!

Þátttakendum verður boðið að vinna með skapandi aðferðum.  Þeir kynnast nokkrum leikjum sem tengjast lífsleikni. Að því loknu verður lagt af stað í leiðangur og seinni hluta dags búa þátttakendur til sitt eigið verk, það gera þeir með hlutum, myndum og texta sem þeir safna úr ýmsum áttum. Gleðin tekur síðan völdin þegar þátttakendur sýna verk sín.

Kennarar:

  • Hanna Ólafsdóttir, myndlistarkona og lektor í listgreinum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
  • Rannveig Þorkelsdóttir, aðjunkt í leiklist og leiklistarkennslu við Háskóla Íslands.

Skiptir máli hvar ég fæddist? Mannréttindi um víða veröld

Spáð verður í mannréttindi fólks um víða veröld og skiptingu auðs og valda. Meðal annars verður fjallað um nútíma þrælahald, málefni flóttamanna og hatursorðræðu. Einnig verður Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar heimsótt.

Lykilspurningin er: Getum við gert eitthvað? Nemendur setja sig í spor þeirra sem búa við misjafnar aðstæður og skoða persónulegar sögur ungmenna sem hafa ekki sætt sig við stöðu mála.

Kennari:

  • Súsanna Margrét Gestsdóttir, sagnfræðingur og doktorsnemi við Amsterdam-háskóla.

Hvernig bragðast matur í geimnum? Hvað þarf að hafa í huga þegar matreitt er fyrir geimferðir? Hvernig verður þekkingin til og hvað gætir þú lagt til vísindanna í framtíðinni?

Námskeiðið spannar fræðslu, verklegar tilraunir og alls konar skemmtilegheit tengd geimnum, mannslíkamanum, mat og miðlun.

Þemadagurinn byrjar og endar á Háskólatorgi Háskóla Íslands. Nemendur fara með kennurum í strætó fram og til baka og fer kennsla fram í tilraunaeldhúsi og skynmatsherbergi Matís.

Kennarar:

  • Sævar Helgi Bragason, þáttagerðarmaður og margverðlaunaður vísindamiðlari
  • Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
  • Kolbrún Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá Matís

Hvað felst í nýsköpun og af hverju er hún mikilvæg? Hvernig væri heimurinn án nýsköpunar?

Í þjóðfélagi sem er í stöðugri þróun er nýsköpun að verða sífellt mikilvægari. Við munum skyggnast inn í hugarheim frumkvöðulsins og skoða hvaða tól nýtast við nýsköpun og viðskiptaþróun. Farið verður yfir hvernig ferlið er og hvernig hægt er að koma hugmynd frá hugmyndarstigi yfir í framkvæmd og út á markaðinn.

Við munum vinna í hópum og skoða hvað mikilvægt sé að hafa í huga þegar hugmynd er þróuð. Nemendur munu til dæmis taka notendaviðtöl og læra að nota Business Model Canvas til að gera viðskiptaáætlun og þróa þannig hugmynd að viðskiptatækifæri.

Námskeiðið er fyrir þá sem hafa áhuga á nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi. Ekki er nauðsynlegt að vera komin með hugmynd til að taka þátt.

Kennarar:

  • Edda Ýr Georgsdóttir, meistaranemi í Verkefnastjórnun við Háskóla Íslands og viðskiptafræðingur
  • Linda Jóhannsdóttir, meistaranemi í Nýsköpun og viðskiptaþróun við Háskóla Íslands og hönnuður
  • Karen Henný Bjarnadóttir, meistaranemi í Nýsköpun og viðskiptaþróun við Háskóla Íslands og viðskiptafræðingur.

Hvað gera dómarar og lögmenn? Hvernig fara þessi réttarhöld fram sem við heyrum í fréttunum og sjáum í sjónvarpinu?

Við kynnumst starfsumhverfi dómara og lögmanna þegar við förum í vettvangsferð í Héraðsdóm Reykjavíkur. Þar bregðum við okkur í hlutverk þeirra, klæðumst skikkjum og setjum upp réttarhöld þar sem við leysum úr raunverulegu álitaefni.

Nemendur eru hvattir til að taka virkan þátt í námskeiðinu og fá að spreyta sig á lögfræðilegum álitaefnum og máta sig í ýmis hlutverk lögfræðinga.

Þar sem farið verður í vettvangsferð er mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og vera í viðeigandi skóbúnaði.

Kennarar:

  • Ásgerður Snævarr, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu og stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands
  • Flóki Ásgeirsson, lögmaður hjá Málflutningsstofu Reykjavíkur, LLM frá lagadeild Harvard háskóla og stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands.

Töfrar tungumálanna í Veröld – Húsi Vigdísar.

Á þessum degi ferðumst við um heim tungumálanna.

Nemendur Háskóla unga fólksins fá innsýn í framandi menningarheima og læra undirstöðuatriði í ítölsku, pólsku, rússnesku, spænsku og þýsku á lifandi og skapandi hátt.

Kennarar:

  • Sérfræðingar Mála- og menningardeildar Háskóla Íslands.

Skemmtilegt námskeið þar sem þátttakendur læra einfaldar aðferðir við að lifa af úti í náttúrunni í anda Robinsons Crusoe. Það þarf hugvit og áræði til þess að lifa af við erfiðar aðstæður.

Í námskeiðinu munum við læra að búa til skýli, kynnast nokkrum aðferðum við að kveikja bál, tálga, nota spírur sem byggingarefni og elda mat yfir opnum eldi. Reyna mun á samvinnu allra þátttakenda um leið og einstaklingsframtakið er virkjað. Þátttakendur kynnast öruggum hnífsbrögðum og fá að umgangast opinn eld og nýta hann til eldamennsku.

Spennandi og skemmtilegt námskeið fyrir þá sem vilja læra að bjarga sér.

Námskeiðið byrjar og endar á háskólasvæðinu og mun að hluta til fara fram í Miðstöð útivistar og útináms í Gufunesbæ.

Mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og vera í viðeigandi skóbúnaði.

Kennarar:

  • Ingveldur Ævarsdóttir, grunnskólakennari með áherslu á útinám og stundakennari við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
  • Ævar Aðalsteinsson, meistaranemi í tómstunda- og félagsmálafræði og verkefnastjóri í útinámi við Háskóla Íslands.