Skólasetningin í Háskóla unga fólksins gekk ljómandi vel á túninu framan við Aðalbyggingu í morgun.  Glæsilegur hópur 12 - 14 ára nemenda mætti glaðbeittur í skólann og það er greinilegt að við höfum fengið bæði áhugasaman, hugmyndaríkan og skemmtilegan hóp í Háskóla unga fólksins 2021.  Liðsmenn úr sirkuslistahópnum Hringleik tóku þátt í setningarathöfninni og voru með sýningu, hópefli og glens.  Kristín Ása Einarsdóttir, skólastýra, setti skólann formlega og hópstjórar fylgdu sínum hópum í rétta byggingu og fyrstu kennslustundina. 

Kristinn Ingvarsson, ljósmyndari Háskólans, var á ferðinni um háskólasvæðið í dag og myndaði bæði náms- og leikfúsa nemendur þennan fyrsta dag. Við þökkum kærlega fyrir daginn og sjáumst aftur hress í fyrramálið.