Háskóli Íslands

Kvikmyndafræði - Marvel og ofurhetjumyndir

Kvikmyndafræði - Marvel og ofurhetjumyndir - Örnámskeið 

Þær eru litskrúðugar og taka stundum hamskiptum. Klæðaburðurinn er vissulega, ja, hvernig á maður að orða þetta kurteislega? Undarlegur? Framsækinn? Grímuballslegur? En þær búa yfir yfirnáttúrulegum kröftum og hæfileikum, mikilli réttlætiskennd og þær eru reiðubúnar að fórna lífi sínu fyrir okkur hin. Hér er að sjálfsögðu átt við ofurhetjur, þessa fágætu sögupersónutegund sem ferðast hefur af blaðsíðum myndasagna á hvíta tjaldið og á liðnum áratug, undir formerkjum Marvel, lagt undir sig kvikmyndaheiminn á heimsvísu.

Í þessu námskeiði verður kafað undir yfirborðið í samfléttuðum kvikmyndaheimi Marvel, eða M(arvel)C(inematic)U(niverse) eins og hann nefndur á ensku. Verður sjónum þar beint bæði að söguheiminum eins og hann birtist á hvíta tjaldinu og svo þeim bollaleggingum sem áttu sér stað á bak við tjöldin, er leiddu til þeirrar fordæmalausu ákvörðunar kvikmyndafyrirtækis að ráðast í gerð nærri tuttugu rándýrra kvikmynda er allar tengjast og mynda saman samfellda sögufléttu.

Þá verða skapgerð og einkenni ofurhetjunnar rædd, hverjir veikleikar hennar séu og hvers vegna hún þarfnist ávallt erkióvinar (e. arch-nemesis). Við munum einnig grafast fyrir um dýpra merkingarsvið myndanna, tengingar við goðsögur, pólitík og margt fleira. Að lokum ræðum við hvort þetta sé allt bara fyrir stáka (svarið er auðvitað nei, eða hvað?). 

Kennari: Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands