Háskóli Íslands

Kvikmyndafræði þemadagur

Kvikmyndafræði þemadagur 

Kvikmyndafræði spyr alls konar spurninga um kvikmyndir; hvers eðlis þær eru og hvernig horft er á þær. Eitt af því sem kvikmyndafræðin er forvitin um er hvernig við greinum á milli ólíkra kvikmynda.

Nú kann að liggja í augum uppi hver munurinn er á kvikmyndagreinum eins og söngleik og vestra, eða hrollvekju og gamanmynd. En hvað segjum við þá um vestra þar sem dansað er og sungið, eða hrollvekju sem einnig er bráðfyndin? Þá er jafnframt ljóst að þegar við förum á spennumynd gerum við okkur ákveðnar hugmyndir um hvernig atburðarásin eigi að vera og hið sama á við um vísindaskáldskap.

Þessar hugmyndir sem við höfum, byggjast á – hvort sem það er meðvitað eða ekki – þekkingu okkar á greinahefðum. Við höfum lært að horfa á kvikmyndir með því einfaldlega að vera vel séð, hafa séð margar myndir, og kvikmyndagerðarfólk veit þetta og kann að bregðast við þessum væntingum, ýmist með því að uppfylla þær eða spila með þær, til dæmis með því að gera eitthvað glænýtt sem við höfum ekki séð áður eða snúa á okkar með öðrum hætti.

Í þessu námskeiði verður byrjað á því að fjalla um nokkur grunnatriði í kvikmyndalestri og svo verður sjónum beint að kvikmyndagreinum. Við lærum hvernig greinahefðir þróast og breytast og hvernig horft er til ólíkra hluta þegar kvikmyndagreinar eru skilgreindar. Atriði úr ólíkum myndum verða sýnd, auk sérstakrar kvikmyndasýningar sem skipulögð er í tengslum við efni námskeiðsins.

Kennarar: Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, og Guðrún Elsa Bragadóttir, doktorsnemi og stundakennari í kvikmyndafræði Háskóla Íslands.