Háskóli Íslands

Kvikmyndafræði - Unglingaveikin

Kvikmyndafræði - Unglingaveikin - Tveggja daga námskeið

Unglingurinn hefur ekki alltaf verið til en eftir að hann kom í heiminn (sem hugtak, markhópur, og viðfangsefni) hefur hann verið áberandi í menningunni. Þetta á ekki síst við um kvikmyndir, sem áður en svokallaðar „unglingamyndir“ urðu til stíluðu inn á ungt fólk sem markhóp með leikurum eins og James Dean, Marlon Brando og svo Elvis og Bítlunum. En löngu áður en unglingurinn varð að viðfangsefni kvikmynda var hann áhyggjuefni þeirra sem töldu áhrifamátt kvikmynda svo mikinn að ungu fólki stafaði beinlínis hætta af þeim. Ritskoðun kvikmynda og bannlistar hafa ávallt tengst unglingnum sem mögulegum áhorfanda.

Í þessu námskeiði verður uppfinning unglingsins rædd, kafað verður ofan í unglingamyndina sem sérstaka tegund kvikmynda og rætt um unglinginn sem áhorfanda sem fullorðnir hafa áhyggjur af. Í leiðinni verður stiklað á stóru um kvikmynda– og poppmenningarsöguna, drepið niður fæti í undarlegum afkimum (líkt og strandarmyndinni og rokkmyndinni) og loks litið til samtíma fjölmiðla á borð við YouTube. 

Kennari: Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands