Háskóli Íslands

Kvikmyndir og tölvuleikir

Kvikmyndafræði - Kvikmyndir og tölvuleikir - Tveggja daga námskeið

Kvikmyndir voru ríkjandi miðill sjónrænnar menningar alla tuttugustu öldina og um leið ein vinsælasta afþreying veraldar. Á nýrri öld virðist staða kvikmyndarinnar hins vegar óljósari og tengist það að hluta til sívaxandi vinsældum nýs miðils: Tölvuleikja.
 
Frá uppruna sínum í tvívíðum Ping Pong eða hægfara innrás geimvera í spilakassa hafa tölvuleikir tekið stökkbreytingum, og breytingarnar hafa haldist í hendur við tæknilega framþróun. Heimar hafa opnast í tölvuleikjum samtímans, heimar sem líkjast okkar eigin (GTA) eða eru framandi (No Man’s Sky), og við erum þátttakendur í atburðarásinni. En kvikmyndir og tölvuleikir eiga þó margt sameiginlegt, þar á meðal grundvallast miðlarnir báðir í nýrri stafrænni tækni og því hefur verið haldið fram að mörkin milli kvikmynda og tölvuleikja séu að þurrkast út. Kvikmyndir líkjast í auknum mæli tölvuleikjum og tölvuleikir sækja í frásagnaraðferðir kvikmynda.
 
Í þessu námskeiði verður rætt um þróun kvikmynda og tölvuleikja í samtímanum, þá þætti sem miðlarnir tveir eiga sameiginlega og hvað framtíðin kunni að bera í skauti sér þegar kemur að samruna þeirra og gagnkvæmum áhrifum. 
 
Kennari: Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands