Háskóli Íslands

Líf og fjör í Háskóla unga fólksins

Háskóli unga fólksins hefur gengið eins og í sögu og er fjörið og fróðleiksþorstinn við völd hjá nemendum.

Háskólasvæðið iðar af lífi enda eru það 375 börn og unglingar sem stunda nám í skólanum núna.  

Skólinn var settur með pomp og pragt þriðjudagsmorgun og þá fengu nemendur afhent skólagögn.   Þá sóttu nemendur tveggja daga námskeið þriðjudag og miðvikudag í allskonar námskeiðum af öllum fræðasviðum Háskóla Íslands. 

Í dag fimmtudag voru þemadagar þar sem nemendur voru í 15 ólíkum þemum, sum vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið og jafnvel út á sjó. Sem dæmi fóru nemendur í afbrotafræði þema í vettvangsferð til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem þau hittu lögreglumenn og skoðuðu sig um. Dýralíffræði, hvalafræðslu þemadagur endaði á hvalaskoðunarferð með Eldingu út á Faxaflóa. Í FabLab og stafrænni tækni kynntust nemendur því hvernig búa má til hluti með stafrænni tækni, fengu að skanna sköpunarverk sín og prenta í þrívídd.

Í Læknagarði var þemað heilsa og heilbrigði þar sem skoðaðar voru ýmsar hliðar heilbrigðisvísinda og kynnt út á hvað starf fólks í heilbrigðiskerfinu gengur. Í mannréttindaþema var spáð var í mannréttindi fólks um víða veröld og Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar heimsótt. Matur í geimnum þemadagur fór fram í tilraunaeldhúsi og skynmatsherbergi Matís þar sem nemendur spreyttu sig á verklegum tilraunum tengdum geimnum, mannslíkamanum, mat og miðlun. Þeir sem voru í tómstunda- og félagsmálafræði þema fóru upp í Gufunes og lærðu að búa til skýli, kynntust ólíkum aðferðum við að kveikja bál, tálga og nota spírur sem byggingarefni.

Alls voru 15 ólík þemu í dag og hvarvetna skein áhuginn úr andlitum nemenda. 

Veðurblíðan er einstök og tíminn vel nýttur í frímínútum og hádegishléi til útileikja.  

Á morgun föstudag verða örnámskeið, grillveisla og vegleg lokahátíð við Háskólatorg og Aðalbyggingu.

Fleiri myndir og fréttir eru á Facebook síðu skólans