Háskóli Íslands

Lokahátíð og vísindagleði í Háskólabíó laugardaginn 13. júní

Skólastarfið í Háskóla unga fólksins hefur gengið afskaplega vel undanfarna daga.  Nemendur skólans hafa sótt fjölmörg námskeið af öllum fimm fræðasviðum Háskóla Íslands. Í dag föstudaginn 12. júní voru nemendur á svokölluðum þemadögum þar sem þeir fengu heilan dag í sama faginu sem gerir þeim kleift að fara mun dýpra í fræðin. Þemadagarnir voru einnig brotnir upp með ýmiskonar vettvangsferðum, tilraunum og skemmtunum.
 
Á morgun, laugardaginn 13. júní, er lokadagurinn í Háskóla unga fólksins 2015. Frá klukkan 9.00 -12.00 sækja nemendur örnámskeið. Eftir hádegisverð á Háskólatorgi kl. 12 verður gengið yfir í Háskólabíó þar sem vegleg lokahátíð og vísindagleði fer fram.
 
Glæsileg lokahátíð hefst í stóra salnum kl. 12.30 og efnt verður til fróðlegrar og skemmtilegrar vísindagleði í kjölfarið. Á lokahátíðinni fá nemendur afhent viðurkenningarskjal fyrir þátttöku í skólanum og fagna tímamótunum með félögum sínum og starfsfólki Háskóla unga fólksins. BMX Bros verða með hjólaatriði á stóra sviðinu og vegleg vísindagleði með lifandi vísindamiðlun tekur svo við í anddyri Háskólabíós. Þar verður ýmislegt í boði, leikir og þrautir, kappakstursbíll, vindmyllur, endurlífgun, tónvísindasmiðjur Biophiliu, stjörnukíkir, furðuspeglar og fleira. Það verður mikið fjör og foreldrar/forráðamenn og systkini eru velkomin. 
 
Endilega fylgist með okkur á Facebook síðu Háskóla unga fólksins. Þar má finna fullt af myndum frá starfinu í Háskóla unga fólksins síðustu daga.