Háskóli Íslands

Mannréttindalögfræði - þemadagur

Mannréttindalögfræði - þemadagur 

Þegar kemur að jarðfræði er Ísland einn allra virkasti staður jarðar. Hér verða eldgos með örfárra ára millibili, jörðin titrar stöðugt undir fótum okkar og jöklar hafa grafið landið sundur og saman á síðustu milljónum ára. Á höfuðborgarsvæðinu er víða hægt að sjá merkilegar jarðfræðiminjar, svo sem gervigíga, fornar eldstöðvar, hraun og jökulminjar. Þessi fyrirbæri segja öll sína sögu og það er því upplagt að skoða þau betur til að fá góða innsýn í jarðfræði landsins.
Á þemadegi í jarðvísindum verður farið í dagsferð með rútu um höfuðborgarsvæðið og nágrenni þess og ýmis stórmerkileg og áhugaverð jarðfræðifyribrigði skoðuð. Hefur einhvern tímann gosið í borginni? Hvenær lágu jöklar síðast yfir höfuðborgarsvæðinu og gæti það gerst einhvern tímann aftur í framtíðinni? Hvaðan koma hraunin sem við sjáum víða á svæðinu? Nemendur og kennarar munu ræða þessar og margar fleiri spurningar fram og til baka og velta fyrir sér jarðsögu og myndun svæðisins yfir daginn.
Þátttakendur þurfa að mæta í góðum útivistarfötum, tilbúnir fyrir hvernig veður sem er.
Kennarar: Gísli Örn Bragason, M.Sc. í jarðfræði og kennari við Verzlunarskóla Íslands og Snæbjörn Guðmundsson, doktorsnemi og aðjúnkt í jarðfræði við Háskóla Íslands
Kennsla og spennandi vettvangsferðir.
 
Hvað eiga mannréttindafrömuðirnir Mahatma Gandhi og Nelson Mandela sameiginlegt? Hvað ætli þeir hafi lært þegar þeir voru í háskóla?
 
Njóta allir sömu réttinda? Við munum skoða söguna og velta fyrir okkur þeim mannréttindum sem við höfum og hvernig við öðluðumst þau. Við munum spyrja okkur þeirra spurninga hvort við eða einhverjir aðrir þurfi frekari réttindi og hvað við getum gert til að afla þeirra. Við vitum að í gamla daga fór fólk í kröfugöngur, skrifaði greinar í blöðin og fleira til þess að ná fram réttindum. Er staðan önnur í dag? Er eitthvað annað sem hægt er að gera? Hvað með herferðir á internetinu? Hvernig má nota internetið til að ná fram réttindum – hvernig er það gert?
 
Farið verður í vettvangsferð til UM Women þar sem við ætlum að fræðast um það starf sem þar er unnið og hvernig Internetið er notað til þess að koma mikilvægum skilaboðum á framfæri.
 
Nemendur eru hvattir til að taka virkan þátt og reynt verður að flétta spurningar þeirra inn í efni þemadagsins.
 
Kennarar: Elín Ósk Helgadóttir, lögfræðingur LL.M. og stundakennari við Háskóla Íslands og Ivana Anna Nikolic, BA nemi í lögfræði við Háskóla Íslands.