Háskóli Íslands

Meðalaldur í Háskóla Íslands lækkar umtalsvert

Skapandi stærðfræði, rafmagnsverkfræði, hugmyndasaga, stjörnufræði, fornleifafræði,  næringarfræði, frumkvöðlafræði, kínverska, vélaverkfræði og lyfjafræði eru meðal þess sem ungir nemendur í Háskóla unga fólksins leggja stund á dagana 10.-14. júní í Háskóla Íslands. Um 350 krakkar á aldrinum 12-16 ára sækja skólann að þessu sinni og hafa aldrei verið fleiri. Þetta er í tíunda sinn sem skólinn er starfræktur.
 
Skólinn var settur í morgun og það lifnaði heldur betur yfir háskólasvæðinu en segja má að skólinn hafi verið árviss sumarboði við Háskóla Íslands. Í hópi nemenda í ár eru m.a. verðlaunahafar í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna 2012 en meðal verðlauna í keppninni var gjafabréf í Háskóla unga fólksins.
 
Nemendur velja á milli nærri 40 námskeiða í fjölbreyttum greinum sem kenndar eru innan ólíkra fræðasviða Háskóla Íslands. Meðal nýjunga í ár eru skapandi stærðfræði, rafmagnsverkfræði, hugmyndasaga og iðnaðarverkfræði en sívinsæl námskeið eru sem fyrr í boði, svo sem efnafræði, japanska, sálfræði, kynjafræði, stjörnufræði, líffræði, spænska og heimspeki svo eitthvað sé nefnt. Kennsla í Háskóla unga fólksins er í höndum kennara og framhaldsnema við Háskóla Íslands.
 
Sérstakur þemadagur verður í Háskóla unga fólksins miðvikudaginn 12. júní en þá verja nemendur heilum degi í greinum eins og fréttamennsku, jarðvísindum, tómstunda- og félagsmálafræði, tölvunarfræði, kvikmyndafræði, iðnaðar- og vélaverkfræði, heilsu og heilbrigði og dýralíffræði auk þess að heimsækja fyrirtæki og stofnanir sem tengjast greinunum. Þannig munu nemendur í dýralíffræði fræðast um hvalahljóð í hvalaskoðunarferð á Faxaflóa, aðrir fræðast um jarðsöguna í ferð umhverfis höfðuborgarsvæðið, nemendur í stjórnmála- og kynjafræði heimsækja Jón Gnarr borgarstjóra og fréttamennskunemar kynna sér störf á RÚV.
 
Margt annað áhugavert verður um að vera á þemadeginum því meðal annars setja nemendur í iðnaðarverkfræði upp verksmiðju og í vélaverkfræði búa nemendur til sitt eigið orkuver sem framleiðir rafmagn.
 
Botninn verður sleginn í Háskóla unga fólksins á veglegri lokahátíð föstudaginn 14. júní. Þar fagna nemendur, starfsfólk og kennarar saman góðri viku.
 
Háskóli unga fólksins hefur verið starfræktur í júnímánuði allt frá árinu 2004. Skólinn hefur einnig ferðast um landið sem hluti af Háskólalestinni síðustu þrjú ár en í nýliðnum maímánuði heimsótti Háskólalestin þrjá áfangastaði á landsbyggðinni.
 
Upplýsingar um Háskóla unga fólksins er að finna á vef hans, www.ung.hi.is, og á Facebook-síðu skólans.