Háskóli Íslands

Miðaldaþemadagur

Landnámsmenn - Víkingar - Miðaldir -  Innsýn í líf fólks á miðöldum. Þemadagur. 

Vélaverkfræði í Háskóla unga fólksins

Hvernig sjá nemendur fyrir sér miðaldir?  Hvenær voru miðaldir og hvað einkenndi þær?  Hvaðan komu landnámsmennirnir til Íslands? Af hverju komu þeir – tengist það eitthvað miðaldamenningu í öðrum Evrópulöndum?
 
Í námskeiðinu veltum við vöngum yfir þessum spurningum og öðrum sem munu vakna og eru ofarlega í hugum nemenda sjálfra. Skoðað verður hvað var líkt og hvað ólíkt með Íslandi og Evrópu á miðöldum – og einnig hvort Norðurlönd og syðri hluti Evrópu áttu einhver sameiginleg einkenni.
 
Helsti arfur Íslendinga frá miðöldum eru handritin sem eru talin til þjóðargersema okkar og eru á heimsminjaskrá UNESCO. En það sem í þeim stendur er ekki síður merkilegt: Þar er að finna kvæði um forn trúarbrögð og sögur sem eru lykill að miðöldum hér á landi. Margar þeirra eru sameiginlegur arfur Norðurlandaþjóðanna. Á síðustu árum hafa verið gerðar kvikmyndir og sjónvarpsþættir sem tengjast víkingatímanum og miðöldum sem byggja að einhverju leyti á þessum sögum. Þar má nefna t.d. kvikmyndir um guðinn Þór og þættina Game of Thrones og Vikings.
 
Við munum sjá brot úr kvikmyndum og þáttum, fara á Þjóðminjasafnið og skoða gripi, vopn og aðra muni sem hafa fundist í jörð sem segja okkur margt um daglegt líf fólks. Einnig munum við velta fyrir okkur handritamenningu Íslendinga á miðöldum, og þeim sögum og heimildum sem þau varðveita um horfna menningu okkar. Markmiðið er að gefa nemendum innsýn í líf fólks á miðöldum og fræða þá um víkingatímann. 
 
Kennarar:  Hildur Ýr Ísberg og Ingibjörg Eyþórsdóttir, doktorsnemar í Íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands.