Háskóli Íslands

Nemar í Háskóla unga fólksins á ferð og flugi

Gleði og áhugi hefur einkennt fyrstu daga Háskóla unga fólksins og fjölmargt drifð á daga nemenda. Háskólinn var settur á mánudag og þann dag og þriðjudag sótti hver nemandi þrjú námskeið sem hann hafði valið. Hlé er gert á kennslu í hádeginu og hluta þess tíma hafa nemendur nýtt til fjölbreyttra leikja á háskólasvæðinu undir stjórn nemenda í tómstunda- og félagsmálafræði á Menntavísindasviði. Veðrið hefur leikið við nemendur og kennara það sem af er viku og útlit er fyrir áframhaldandi blíðu.

Auk fjölmargra leikja var efnt til fjölteflis fyrir utan Háskólatorg í hádeginu á þriðjudag. Þar reyndu ungir skákunnendur að máta stórmeistarann Helga Ólafsson. Veittu þau honum harða mótspyrnu, þó enginn lengur en Magnús Fannar Benediktsson, nemandi úr Brúarásskóla í Fljótsdalshéraði. Hann er einn fjölmargra nemenda af landsbyggðinni sem hafa lagt land undir fót til þess að sækja Háskóla unga fólksins. 

Í gær, miðvikudag, var sérstakur þemadagur en þar höfðu nemendur valið sér eina námsgrein og vörðu heilum degi í alls kyns verkefni tengd henni. Meðal þess sem nemendum stóð til boða var fjölmiðlafræði, jarðvísindi, kvikmyndir, tölvunarfræði, stjörnufræði, viðskiptafræði og jafnrétti, lýðræði og stjórnmál. Nemendur í síðastnefnda hópnum heimsóttu Jón Gnarr borgarstjóra í Ráðhús Reykjavíkur og áttu m.a. fund með honum í sal borgarstjórnar. Hópurinn heimsótti einnig Alþingishúsið þar sem þingkonurnar Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir fræddu hópinn um störf þingmanna og svöruðu ótal spurningum.

Þá heimsóttu nemendur í fjölmiðlafræði Ríkisútvarpið í Efstaleiti og kynntu sér m.a. störf bæði dagskrárgerðar- og fréttamanna. Einnig fengu nemendur að skoða leikmunadeild RÚV og sömuleiðis EM-stofuna þar sem Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamaður og umsjónarmaður EM-stofunnar, tók á móti hópnum.

Í dag og á morgun, föstudag, munu nemendur svo sækja fleiri námskeið sem þeir hafa sjálfir valið en botninn verður sleginn í Háskóla unga fólksins á veglegri lokahátíð kl. 15 á morgun. Þar munu nemendur, starfsfólk og kennarar fagna saman góðri viku.

Myndir frá starfinu í Háskóla unga fólksins má sjá á heimasíðu skólans, www.ung.hi.is og á Facebook-síðu skólans.