Háskóli Íslands

Nú er fullbókað í Háskóla unga fólksins 2016

Hlökkum mikið til að taka á móti okkar nýju nemendum í næstu viku.

Hagnýtar upplýsingar fyrir nemendur og forráðamenn barna í Háskóla unga fólksins 2016:
 
Skólasetning 
Skólasetning verður mánudaginn 13. júní kl. 8.30, aðra daga hefst skólinn kl. 9:00. 
Við skólasetninguna eiga nemendur að mæta í stofu 102 á neðstu hæð á Háskólatorgi (Háskólatorg er byggingin við hliðina á Aðalbyggingu, fyrir aftan Lögberg), sjá hér.
Á Háskólatorgi fá nemendur afhenta möppu. Í henni er blýantur, laus blöð og helstu upplýsingar um Háskóla unga fólksins.
 
Einnig fá allir nemendur afhenta stundatöflu sína, með upplýsingum um kennslustofur og korti af háskólasvæðinu. Mikilvægt er að nemendur kynni sér vel öll gögn sem þeir fá afhent.
Á háskólasvæðinu verða starfsmenn Háskóla unga fólksins til staðar og vísa nemendum til vegar og aðstoða eftir þörfum. Starfsmenn verða í merktum bolum eða með greinileg nafnspjöld svo að auðvelt verður að þekkja þá. Ekki er gert ráð fyrir að forráðamenn verði viðstaddir skólasetningu.
 
Tímasetningar
Skólinn hefst alla daga kl. 9.00, nema mánudaginn 13. júní en þá er skólasetning kl. 8.30. Kennslu lýkur kl. 16.00 fyrstu þrjá dagana. Fimmtudaginn 16. júní hefst kennsla kl. 9.00 eins og hina dagana og stendur til kl. 12.00. Eftir hádegismat á Háskólatorgi verður gengið yfir í Háskólabíó þar sem lokahátíðin og vísindagleðin hefst kl.13.00. Dagskrá lýkur í kringum kl.16.00.
 
Stundatafla
Nemendur fá afhenta stundatöflu við skólasetninguna 13. júní og ekki er hægt að breyta um námskeið eftir að skólinn hefst. Ef nauðsyn krefst, verða breytingar einungis gerðar í samráði við starfsfólk Háskóla unga fólksins.  
 
Þjónustuborð Háskóla unga fólksins
Háskóli unga fólksins verður með þjónustuborð á Háskólatorgi dagana 13. til 16. júní og þangað geta nemendur leitað hvenær sem er. Einnig verða starfsmenn Háskóla unga fólksins ávallt til staðar á háskólasvæðinu og veita nemendum þá aðstoð sem þörf er á. 
 
Matur og hádegishlé
Í hádeginu verður boðið upp á léttan hádegisverð sem er innifalinn í námskeiðsgjaldinu. Vilji nemendur hafa með sér einhverja hressingu til að neyta milli kennslustunda er það að sjálfsögðu velkomið. Háma, matsala stúdenta, verður opin og þar geta nemendur einnig keypt sér ýmislegt matarkyns hafi þeir áhuga á slíku. 
 
Hádegisverður – innifalinn í námskeiðsgjaldi: 
 
         Matseðill 13. – 16. júní
Mánudagur Baguette m/túnfisk, ost & grænmeti eða ost & skinku. Ávextir, skyrdrykkir og vatn.
Þriðjudagur Grillaðar Goðapylsur eða grænmetispylsur (útigrill) og kókómjólk. 
Miðvikudagur Samlokur m/túnfisk, ost & grænmeti eða ost & skinku. Ávextir, skyrdrykkir og vatn.
Fimmtudagur Pasta með eða án kjöts, skyrdrykkir, ávextir og vatn.
 
Í hádegishléi verður ýmislegt skemmtilegt um að vera: íþróttir, spil og spjall, inni og úti. Meðal annars verður frábær dagskrá á grasflötinni fyrir framan Aðalbyggingu í öllum hádegishléum.  
 
Lokahátíð og vísindagleði í Háskólabíói
Eftir hádegismat á Háskólatorgi fimmtudaginn 16. júní göngum við saman yfir í Háskólabíó kl. 12.40. Þar hefst glæsileg lokahátíð í stóra salnum kl. 13.00 og efnt verður til fróðlegrar og skemmtilegrar vísindagleði í kjölfarið. Á lokahátíðinni fá nemendur afhent viðurkenningarskjal fyrir þátttöku í skólanum og fagna tímamótunum með félögum sínum og starfsfólki Háskóla unga fólksins. Alda Dís sigurvegari Ísland Got Talent 2015 verður með söngatriði á stóra sviðinu og vegleg vísindagleði með lifandi vísindamiðlun tekur svo við í anddyri Háskólabíós. Þar verður ýmislegt í boði, fornleifafræði, endurlífgun, vindmyllur, stjörnukíkir, japönsk fræði, furðuspeglar og frábærar efnafræðitilraunir. Það verður mikið fjör og foreldrar/forráðamenn og systkini eru velkomin í Háskólabíó.
 
Fatnaður og fylgihlutir
Háskóli unga fólksins hefur frá upphafi átt einstöku veðurláni að fagna – en ávallt er allra veðra von á okkar ástkæra landi. Mikilvægt er því að nemendur séu vel búnir til þess að geta tekið virkan þátt í öllu starfi skólans, innandyra sem utan. 
 
Fréttir á Fésbók og á ung.hi.is 
Fréttir af skólastarfinu verða settar inn á fésbókarsíðu Háskóla unga fólksins og hér á heimasíðuna okkar, og við hvetjum ykkur til þess að heimsækja síðurnar.
 
Óskilamunir
Allir óskilamunir verða settir á Þjónustuborð Háskóla Íslands sem er opið alla virka daga kl. 8:30-16:30, sjá hér.