Háskóli Íslands

Skráning hafin í Háskóla unga fólksins

Skráning hófst á hádegi í dag í Háskóla unga fólksins sem haldinn verður dagana 10.-14. júní í Háskóla Íslands. Hátt í fimmtíu námskeið eru í boði að þessu sinni.

Háskóli unga fólksins hefur verið starfræktur við Háskóla Íslands undanfarin níu ár. Hann er ætlaður ungmennum á aldrinum 12–16 ára (í 6.-10. bekk) og hefur frá upphafi verið árviss sumarboði við Háskóla Íslands þar sem unga kynslóðin sækir námskeið í fjölbreyttum greinum háskólans.

Nemendur í Háskóla unga fólksins búa sjálfir til sínar stundatöflur. Þeir geta valið námskeið á ólíkum sviðum háskólans. Meðal nýrra námskeiða eru hugmyndasaga, sameindalíffræði, skapandi stærðfræði og rafmagnsverkfræði. Þessu til viðbótar geta nemendur valið sér eina námsgrein á svokölluðum þemadegi miðvikudaginn 12. júní. Þá verja nemendur heilum degi í verkefni með tilteknu þema en meðal nýrra þema má nefna iðnaðarverkfræði, vélaverkfræði og dýralíffræði. Kennsla í Háskóla unga fólksins er í höndum fræðimanna og framhaldsnema við Háskóla Íslands.

Yfirlit yfir námskeið í Háskóla unga fólksins má sjá á heimasíðu skólans.

Kennsla í Háskóla unga fólksins stendur yfir frá kl. 9 til 15 og er léttur hádegisverður innifalinn í námskeiðsgjaldinu sem er 17.500 krónur.

Skráning fer fram á heimasíðu skólans, www.ung.hi.is.

Við þetta má bæta að Háskóli unga fólksins ferðast einnig um landið með Háskólalestinni í maí og verða haldin námskeið í samstarfi við grunnskóla og sveitarfélög á þremur stöðum að þessu sinni.