Háskóli Íslands

Skráning í Háskóla unga fólksins 2019

Skráning í Háskóla unga fólksins 2019 hefst miðvikudaginn 22. maí kl. 17.00 og fer eingöngu fram rafrænt hér á forsíðunni. Mörg námskeið fyllast á nokkrum klukkustundum daginn sem skráning hefst.   
 
Nemendur geta valið úr rúmlega 50 námskeiðum af öllum fræðasviðum Háskóla Íslands. Hér er hægt að skoða námskeiðin sem eru í boði í ár.
 
Skólinn stendur yfir dagana 11. - 14. júní og kostar kr. 22.000. Opið fyrir nemendur í 6. - 10. bekk grunnskóla, fædd 2003 - 2007.
 
Hér eru mikilvægar upplýsingar varðandi skráningu:
 
1. Verið viðbúin þegar skráningin opnar! Vinsælustu námskeiðin eru fljót að fyllast. Þegar námskeið fyllast detta þau út sem valmöguleiki og þá þarf að velja annað í staðinn.
 
2. Hver og einn nemandi útbýr sína eigin stundatöflu og því er gott að kynna sér vel fyrirkomulagið og námskeiðin sem í boði eru áður en skráning hefst. Við hvetjum ykkur til að hafa við höndina lista yfir óska námskeiðin, auk lista yfir námskeið til vara ef óska námskeiðin eru kennd á sama tíma eða ef einhver þeirra eru orðin fullbókuð.
 
3. Ekki er víst að vinir eða systkini geti verið saman í tímum. Algengt er að vinir vilji vera saman í tímum, en þar sem mörg fög eru fljót að fyllast er það ekki alltaf hægt. Nemendur eru fljótir að kynnast samnemendum sínum í skólanum og geta hitt vini sína úr öðrum námskeiðum í hléum á milli tíma. Starfsfólk skólans er duglegt við að hrista hópinn saman og því ætti enginn að vera einmanna. Fjölmörg börn koma ein síns liðs í skólann og eru alsæl. 
 
4. Það er skemmtilegra að prófa eitthvað nýtt. Nemendur sem áður hafa verið í Háskóla unga fólksins ættu að prófa önnur námskeið í ár en valin voru síðast. Það er mun fróðlegra og skemmtilegra að upplifa eitthvað nýtt og spennandi heldur en að sitja sama námskeiðið tvö ár í röð.
 
5. Það borgar sig að vera fljótur. Af tæknilegum ástæðum eru tímamörk á því hve lengi hægt er að staldra við inn á hverri síðu í skráningarkerfinu. Þess vegna borgar sig að vera búin að ákveða valið og vera snöggur að velja.
 
6. Skráning hefur ekki gengið í gegn fyrr en þátttakandi hefur fengið staðfestingu með tölvupósti á uppgefið netfang. Þegar skólinn byrjar að fyllst kemur upp textinn „Í augnablikinu er fullt í öll námskeið. Reyndu aftur.“ Þetta getur gerst í öllum skrefum skráningarinnar. Munið að skráning hefur ekki tekist fyrr en staðfesting hefur borist með tölvupósti.
 
7. Verið með upplýsingarnar tilbúnar. Á skráningarforminu er beðið um eftirfarandi upplýsingar. Netfang, kennitölu, heimilisfang og símanúmer nemanda og greiðanda. Símanúmer og netfang greiðanda og nemanda má vera það sama, t.d. ef börnin eru ekki með slíkt. Einnig er beðið um greiðsluupplýsingar. Hægt er að borga með kreditkorti, millifærslu úr heimabanka eða gjafakorti. Ef greitt er með kredit- eða gjafakorti er gott að hafa það við höndina.
 
8. Það getur komið upp rauður kassi og upphrópunarmerki í kringum netföng hjá fólki með ákveðin stýrikerfi og stillingar. Haldið ótrauð áfram því þið komist á næstu stig þótt kassinn rauði komi upp.
 
9. Verið því viðbúin að ekki komast allir að. Síðustu ár hafa færri komist að en vilja og það sama blasir við í sumar.
 
10. Það er ekki hægt að breyta námskeiðum í stundatöflum eftirá nema vegna mjög sérstakra aðstæðna.
 
Við óskum ykkur góðs gengis við skráninguna og hlökkum til að sjá ykkur!
 
Háskóli unga fólksins verður starfræktur í sextánda sinn í sumar en skólinn hefur notið gríðarlegra vinsælda meðal ungu kynslóðarinnar undanfarin ár.
Nemendur í skólanum kynnast undrum tilverunnar með vísindamönnum Háskóla Íslands og á milli þess að kynna sér fjölmargar fræðigreinar skemmta nemendur sér í skipulögðum leikjum á túninu fyrir framan Aðalbyggingu. 
 
Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá Háskóla unga fólksins 2018.