Háskóli Íslands

Spendýr - Dýrafræði

Dýralíffræði - Villt íslensk spendýr - Tveggja daga námskeið 

Á námskeiðinu munu nemendur fræðast um líffræði íslenskra spendýra bæði á landi og í sjó. Fjölbreytileiki íslenskra landspendýra er ekki gríðarmikill, á því eru góðar skýringar sem fjallað verður um á námskeiðinu.
 
Aðeins eitt spendýr var hér á undan manninum en það er heimskautarefurinn og verða honum gerð góð skil á námskeiðinu enda stórmerkilegt og einstakt spendýr. Maðurinn hefur verið ábyrgur fyrir innflutningi annarra landspendýra sem nú finnast villt í íslenskri náttúru. Það eru minnkurinn, hagamúsin, húsamúsin, brúnrottan, kanína og hreindýr.
 
Einnig verður fjallað um hvítabjörninn sem hefur reglulega stigið hér á land við mismikinn fögnuð landsmanna. Þó svo að landspendýralíf sé nokkuð fábrotið er sjávarspendýralífið ákaflega fjölbreytt en hér við land er að finna þónokkrar selategundir og um 12 hvalategundir. Nemendur fá að kynnast undraheimi sjávarspendýranna sem er allfrábrugðinn heimi landspendýranna. 
 
Kennari: Edda Elísabet Magnúsdóttir, líffræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands