Háskóli Íslands

Takk fyrir frábæra daga

Vel heppnaðri viku í Háskóla unga fólksins lauk á laugardag með veglegri lokahátíð og vísindagleði í Háskólabíói þar sem nemendur tóku við viðurkenningarskjölum fyrir þátttökuna í skólanum þetta árið.
 
Óhætt er að segja gleðin hafi skinið úr andlitum þátttakenda í Háskóla unga fólksins að lokinni fjögurra daga fjölbreyttri dagskrá en frá miðvikudegi til laugardags sóttu nemendur námskeið sem þeir höfðu valið og tengjast greinum sem kenndar eru í Háskóla Íslands. Valið stóð alls á milli 35 námskeiða auk þess sem boðið var upp á þemadag þar sem nemendur vörðu heilum degi í einni námsgrein. 
 
Áhuginn á hinum fjölbreyttu greinum vísindanna leyndi sér ekki og sést það m.a. á því að nemendur lögðu það á sig að mæta í skólann á laugardegi þar sem boðið var upp á fjölbreytt örnámskeið. Að þeim loknum var skundað í Háskólabíó þar sem við tók lokahátíð Háskóla unga fólksins en þar fengu nemendur afhent viðurkenningarskjal fyrir þátttöku í skólanum. Enn fremur tróðu BMX Brós upp á stóra sviðinu með stórkostlegu hjólaatriði og að lokinni athöfninni biðu nemenda, systkina þeirra og forráðamanna veitingar og lifandi vísindamiðlun í anddyri Háskólabíós. 
 
Það er samdóma álit þeirra sem komu að skipulagningu og vinnu vip Háskóla unga fólksins að nemendur í ár hafi verið til stakrar fyrirmyndar og sýnt bæði áhuga, frumkvæði og mikla hugmyndaauðgi í þeim námskeiðum sem þeir sóttu. Þannig var tíminn ekki aðeins lærdómsríkur fyrir nemendur heldur einnig kennara skólans. 
 
Aðstandendur Háskóla unga fólksins þakka innilega fyrir frábærar viðtökur þetta árið og hlakka til að sjá spræka og forvitna nemendur aftur að ári.
 
Hér að ofan eru nokkrar myndir frá starfi skólans en nálgast má mun fleiri myndir á Facebook-síðu Háskóla unga fólksins.