Háskóli Íslands

Þemadagur í jarðvísindum - Jarðfræðiferð

Þemadagur í jarðvísindum - Jarðfræðiferð

Þegar kemur að jarðfræði er Ísland einn allra virkasti staður jarðar. Hér verða eldgos með örfárra ára millibili, jörðin titrar stöðugt undir fótum okkar og jöklar hafa grafið landið sundur og saman á síðustu milljónum ára. Á höfuðborgarsvæðinu er víða hægt að sjá merkilegar jarðfræðiminjar, gervigíga, fornar eldstöðvar, hraun og jökulminjar. Þessi fyrirbæri segja öll sína sögu og það er því upplagt að skoða þau betur til að fá góða innsýn í jarðfræði landsins.
 
Á þemadegi í jarðvísindum verður farið í dagsferð með rútu um höfuðborgarsvæðið og nágrenni þess og ýmis stórmerkileg og áhugaverð jarðfræðifyribrigði skoðuð. Hefur einhvern tímann gosið í borginni? Hvenær gengu jöklar síðast yfir höfuðborgarsvæðið, og mun það kannski gerast einhvern tímann aftur í framtíðinni? Hvaðan koma hraun, sem við sjáum víða á svæðinu? Nemendur og kennarar munu ræða þessar og margar fleiri spurningar fram og til baka og velta fyrir sér jarðsögu og myndun svæðisins á ferðinni.
Mögulega verður hluta af deginum varið í stutta gönguferð svo gott er að mæta í góðum skóm. Þátttakendur þurfa einnig að mæta í góðum útivistarfötum, tilbúnir fyrir hvernig veður sem er. 
 
Kennarar: Snæbjörn Guðmundsson og Sævar Helgi Bragason, jarðfræðingar og kennarar við Vísindasmiðju Háskóla Íslands.