Háskóli Íslands

Vel heppnuð vika í Háskóla unga fólksins

Vel heppnaðri viku í Háskóla unga fólksins lauk föstudaginn 14. júní með veglegri lokahátíð í stóra sal Háskólabíós.

Á lokahátíðinni fögnuðu bæði nemendur, starfsfólk og kennarar skemmtilegri og gefandi viku en óhætt er að segja að hún hafi verið viðburðarík fyrir alla sem að henni komu. Aldrei hafa fleiri námskeið verið í boði í Háskóla unga fólksins og aldrei hafa fleiri nemendur sótt skólann, eða um 350.

Í samtölum við kennara hefur komið fram að hópurinn í ár hafi verið einkar áhugasamur og ljóst að ekki þarf að kvíða framtíðinni ef miðað er við áhuga og virkni nemenda í hinum fjölbreyttu vísinda- og fræðigreinum sem þeir kynntust í liðinni viku. Kennararnir fengu einnig mikilvæga reynslu við að miðla vísindunum í Háskóla unga fólksins, en kennslan er í höndum bæði kennara og nemenda við Háskóla Íslands.

Þess má geta að í ár kenndu bæði Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu, í Háskóla unga fólksins. Kristín, sem er prófessor í lyfja- og efnafræði náttúruefna, kenndi lyfjafræði og fjallaði þar m.a. um það hvernig við nýtum efni úr þörungum í ýmis matvæli. Jón Atli, sem er prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, fór m.a. yfir grunnatriði rafmagnsfræðinnar og ýmis lögmál hennar.

Á lokahátíðinni í Háskólabíói á föstudag var boðið upp á ýmislegt til skemmtunar. Þannig sýndu nemendur í eðlisfræði í Háskóla unga fólksins ásamt kennaranum Ara Ólafssyni hvernig eldorgel virkar og þá skemmti töframaðurinn Einar Mikael gestum með göldrum og glensi. Auk þess tóku nemendur við viðurkenningarskjali fyrir þátttöku í Háskóla unga fólksins að viðstöddum fjölmörgum foreldrum og forráðamönnum.

Háskóli unga fólksins verður tíu ára á næsta ári og verður þeim tímamótum fagnað þegar næsti hópur fróðleiksfúsra ungmenna kemur á háskólasvæðið að ári. Það er tillhlökkunarefni fyrir aðstandendur skólans.

Myndir frá starfi Háskóla unga fólksins í liðinni viku er að finna á Facebook-síðu skólans.