Háskóli unga fólksins 2023

Háskóli unga fólksins 2023 var haldinn 12.-16. júní.

Hægt var að velja á milli fjölbreyttra stundataflna með átta námskeiðum og einum þemadegi hver.

Í boði voru námskeið af öllum sviðum Háskóla Íslands, í félagsvísindum, hugvísindum, menntavísindum, heilbrigðisvísindum,verkfræði, raun- og náttúruvísindum og þverfræðilegum greinum. Það er hægt að lesa um öll námskeiðin hér fyrir neðan. 

Nemendur tóku tvö námskeið á dag, hvort um sig 90 mínútur. Miðvikudagurinn 14. júní var þemadagur. Þá voru nemendur í sama faginu allan daginn.

Skólinn stóð frá kl. 9:00 - 12:30 alla dagana.

Námskeið

Námskeið í 90 mín.

Á hverju ári þjást milljónir manna í stríðum og átökum víðsvegar um heim. Án kastljóss fjölmiðla gleymast þessi stríð og átök. Mannúðarsamtök víða um heim reyna halda athygli samfélagsins þar sem enginn á skilið að vera gleymdur.

Námskeiðið fjallar um þessar gleymdu krísur, átök og stríð. Kastljósinu verður beint að sjúkdómum sem fá enga athygli eins og Khala Zar og Lassa vírusinn en líka skoða þær framfarir sem oft gleymist að fjalla um eins og t.d. þegar ákall almennings leiddi til ódýrari berklalyfja.

Hvernig er það að búa við stríð og átök þegar enginn í heiminum er að veita því athygli? Hvernig eiga mannúðarsamtök að vekja athygli á þessum átökum ef enginn er að horfa? Við fjöllum um þessar gleymdu krísur, hvað er að gerast og hvort það hjálpi færri að deyja ef fleiri vita?

Á námskeiðinu ættu nemendur að læra að víkka sjóndeildarhringinn og hugsa á gagnrýninn hátt um það sem er í fréttum og hvað fær athygli samfélagsins á Norðurlöndum. Nemendur ræða hvers vegna nútíma upplýsingasamfélag ákveður að ræða og kafa ofan í ákveðin málefni og ekki önnur. Nemendur fá tækifæri til að vinna verkefni til að vekja athygli á gleymdri krísu og ræða hvernig það er best.

Kennari:

  • Lára Jónasdóttir, verkefnisstjóri hjá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín.

Fjallað verður um hvernig má binda og leysa hnúta með hjálp stærðfræði. Við skoðum ákveðna tegund af hnútum sem hægt er að tákna með tölum og finnum aðferð til að breyta hnútunum með því að framkvæma reikninga með almennum brotum.

Nemendur fá að spreyta sig á því að búa til flókna hnúta og síðan leysa þá aftur.

Önnur svipuð verkefni verða skoðuð eins og tími gefst til.

Kennsluefni fyrir námskeiðið: https://edbook.hi.is/huf/

Kennarar

  • Benedikt Steinar Magnússon, dósent við Raunvísindadeild Háskóla Íslands

  • Sigurður Örn Stefánsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín. 

Hvað eru fjölmiðlar og hvaða máli skipta þeir? Hvað telst frétt og hvað eru falsfréttir? Hver er munurinn á því að vinna fréttir fyrir dagblöð, netmiðla og sjónvarp? Hvað gera fréttamenn og hvaða hlutverki gegna kvikmyndatökumenn og ljósmyndarar í fréttum? Þú færð svör við þessu og ýmsu fleiru í námskeiðinu en þú munt líka fá að spreyta þig á tækjum og tólum sem fréttamenn nota í sinni vinnu.

Kennarar

  • Björn Gíslason, kynningar- og vefritstjóri á markaðs- og samskiptasviði Háskóla Íslands

  • Sveinn Benedikt Rögnvaldsson, verkefnisstjóri við deild stafrænnar kennslu og miðlunar við Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín.

Efnafræði fjallar um byggingu og eiginleika hinna ýmsu efna og hvernig efni hvarfast hvert við annað. Fræðigreinin er mjög stór og fjölbreytt því efni eru allt í kringum okkur. Allur matur, lyf, hreinsiefni, tölvur, sprengjur og jafnvel við sjálf erum gerð úr mismunandi efnum.  

Í efnafræðinámskeiði Háskóla unga fólksins gera nemendur nokkrar áhugaverðar tilraunir og leysa skemmtileg verkefni. 
Til skoðunar verða efni sem allir ættu að þekkja úr umhverfinu, svo sem C-vítamín, vatn, edik og kerti. Notuð verður aðferð sem kallast títrun við að magngreina C-vítamín og vatn verður rafgreint og þannig brotið upp í frumefni sín, þ.e. súrefni og vetni.

Kennarar

  • Katrín Lilja Sigurðardóttir, aðjúnkt við Raunvísindadeild Háskóla Íslands og forsprakki hins landsfræga Sprengjugengis
  • Gunnhildur Diljá Gunnarsdóttir, nemandi í efnafræði við Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín.

Langar þig að geta bjargað mannslífi? Bjargráður er félag læknanema um endurlífgun en markmið félagsins er að kenna krökkum og fullorðnum grunnatriðin í endurlífgun. Hvað eigum við að gera ef við komum að manneskju sem liggur á jörðinni? Hvað ef hún svarar ekki ef við köllum á hana? Hvað ef hún andar ekki?

Við förum yfir öll þessi atriði og gerum það á skemmtilegan hátt svo engum ætti að leiðast á meðan lært er um þessi mikilvægu atriði sem geta hjálpað ykkur að bjarga mannslífi.

Þema 180 mín.

Í þema gefst lengri tími til að læra um og æfa sig í því að bjarga mannslífi.  

Kennari

  • Félagar í Bjargráði, félagi læknanema við Háskóla Íslands.

Námskeið í 90 mín. 

Langar þig að vita hvað frumgerð er? Hefur þig alltaf langað til að verða uppfinninga maður- eða kona? Hefur þú áhuga á því að búa til og þróa lausnir við einhverju, stóru eða smáu, vandamáli? Þá er þetta námskeið fyrir þig.

Á námskeiðinu munum við skoða ýmsar frumgerðir og hvernig er hægt að byrja frumgerðar ferlið. Hvernig við fáum hugmyndir, hvernig við getum byrjað ferlið og skipulagt okkur til að framkalla lágmarks virkni og prófa lausnina.

Nemendur vinna saman í hópum við að þróa lausnir byggðar á fyrirfram skilgreindum vandamálum og þróa einfalda frumgerð úr almennum hráefnum.

Kennarar

  • Andri Sæmundsson, tæknisérfræðingur í FabLab Reykjavík. 

  • Hafliði Ásgeirsson, tæknimaður á Verkfræði- og náttúruvísindasviði og BS í Orku- og umhverfistæknifræði frá Háskóla Íslands. 

Þema í 180 mín.

Í þessari smiðju læra nemendur um geðheilbrigði, grunnstoðir góðrar geðheilsu og merki þess að geðrænn vandi sé til staðar. Kynnt verða bjargráð sem nýtast til að efla eigin geðheilsu og úrræði sem standa til boða við geðrænum vanda. Við leggjum áherslu á að allar tilfinningar eru eðlilegar og því eðlilegt að tala um þær. Þá kennum við leiðir til að nálgast samtal um geðheilsu á heilbrigðan og uppbyggilegan hátt.

Í smiðjunni verður lagt upp úr virkri þátttöku nemenda og opinni umræðu.

Kennarar

  • Stjórnarmeðlimir Hugrúnar geðfræðslufélags, sem eru nemendur í félagsráðgjöf, hjúkrunarfræði, læknisfræði og sálfræði við Háskóla Íslands 

Námskeið í 90 mín. 

Hvað eru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun? Á námskeiðinu fá nemendur fræðslu um heimsmarkmiðin og mikilvægi þeirra. Nemendur vinna í hópum og takast á við skemmtileg verkefni þeim tengdum. 

Sameinuðu þjóðirnar hafa skilgreint 17 heimsmarkmið sem lýsa stærstu viðfangsefnum og helstu áskorunum sem þjóðir heims standa nú frammi fyrir. 

Kennarar

  • Kristrún María Heiðberg, kennari og verkefnastjóri UNESCO-skóla

  • Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi

Námskeið í 90 mín.

Hvernig veit ég hvað er satt? Hvað gerir mig að mér? Hver er munurinn á vélmenni og manneskju? Er ég með frjálsan vilja?

Í þessu námskeiði kynnumst við helstu spurningum heimspekinnar og nýjum leiðum til að sjá heiminn. Þetta munum við gera með því að skoða brot úr kvikmyndum sem gera þessar spurningar lifandi.

Heimspeki er í forgrunni í námskeiðinu, og kvikmyndirnar eru tækin sem við notum til að koma okkur af stað. Við lærum að hugsa á heimspekilegan hátt, beitum gagnrýninni hugsun og skerpum á huganum.

Þema 180 mín.

Við köfum dýpra inn í heim kvikmyndanna, skreppum í vettvangsferð í Bíó Paradís og fáum að skyggnast á bak við tjöldin.

Kennarar

  • Ellert Björgvin Schram, MA í heimspeki frá Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín. 

Langar þig að smíða þinn eigin kappakstursbíl? Team Spark er hópur verkfræðinema sem unnið hefur að þróun, hönnun og smíði eins manns kappakstursbíls í vetur. Í námskeiðinu fá nemendur að kynnast því hvað þarf til þess að heill kappakstursbíll verði að veruleika, hvar á að byrja og að hverju þarf að huga. Snert verður á burðarþolsfræði, straumfræði og ýmsum öðrum fræðum sem koma við smíði kappakstursbíla. Allir þeir sem hafa áhuga á kappakstursbílum, tækjum eða brennandi áhuga á krefjandi verkefnum ættu ekki að láta þetta framhjá sér fara.

Þema í 180 mín.

Á þemadeginum gefst lengri tími til að fara dýpra í efnistökin við smíði kappakstursbíls. Team Spark er hópur verkfræðinema sem unnið hefur að þróun, hönnun og smíði eins manns kappakstursbíls í vetur. Í námskeiðinu fá nemendur að kynnast því hvað þarf til þess að heill kappakstursbíll verði að veruleika, hvar á að byrja og að hverju þarf að huga. Snert verður á burðarþolsfræði, straumfræði og ýmsum öðrum fræðum sem koma við smíði kappakstursbíla. Allir þeir sem hafa áhuga á kappakstursbílum, tækjum eða brennandi áhuga á krefjandi verkefnum ættu ekki að láta þetta framhjá sér fara.

Kennarar

  • Óðinn Eldon Ragnarsson, nemandi í vélaverkfræði og tæknistjóri Team Spark, kappaksturs- og hönnunarliðs Háskóla Íslands. Kennir námskeið. 

  • Frosti Hlynsson,  nemandi í vélaverkfræði og meðlimur í Team Spark, kappaksturs- og hönnunarliðs Háskóla Íslands. Kennir þemadag. 

Þema í 180 mín.

Skapandi smiðja þar sem þátttakendur vinna í litlum hópum að því að búa til litla fígúru, tæki eða annað álíka úr einföldum efniviði auk ljósa, mótora eða skynjara sem tengd eru við Microbit tölvur. Tölvurnar eru svo forritaðar til að stýra rafbúnaðinum til að glæða smíðina lífi.

Engin þörf er á forþekkingu á föndri eða forritun en sköpunargleði er kostur.

Notaður verður myndrænn ritill sem auðvelt er að læra á, en reynslumeiri þátttakendur geta einnig notað JavaScript eða Python ef þau kjósa það heldur.

Kennarar

  • Martin Swift, eðlisfræðingur, starfsmaður Vísindasmiðjunnar og leiðbeinandi við Háskóla Íslands

  • Þorsteinn Elí Gíslason, eðlisfræðingur, nemi í hugbúnaðarverkfræði og starfsmaður Vísindasmiðjunnar 

Námskeið 90 mín.

Viltu fá innsýn inn í líf og störf íþróttafræðings og kynnast hvernig hreyfing og svefn geta haft áhrif á heilsuna? Langar þig til að forvitnast um hvernig líkaminn bregst við æfingum og þjálfun?
Í íþrótta- og heilsufræðinámskeiðinu munum við fræðast um og framkvæma ýmsar áhugaverðar mælingar og reyna á alla vöðva líkamans. Verið því tilbúin í skemmtilegan og fróðlegan tíma þar sem við munum hreyfa okkur bæði úti og inni og því er mikilvægt að vera í viðeigandi fatnaði.
 
Mikilvægt er að klæða sig í viðeigandi íþróttafatnað og skóbúnað, fyrir inni og útiveru.

Þema í 180 mín.

Í þema verður farið í hjólaferð á Klambratún þar sem hópurinn fær kennslu í frisbígolfi. Farið verður yfir það helsta sem þarf til þess að stunda frisbígolf sem íþrótt og afþreying. Hvernig kastar maður frisbígolf diskum og hvernig eru leikreglurnar? Ef þú hefur áhuga á íþróttaiðkun, góðri heilsu, útiveru og lífsstíl er þetta kjörið þema fyrir þig.
 
Nauðsynlegt er að mæta með hjól og hjálm. Klæða sig eftir veðri og vera í viðeigandi skóbúnaði.

Kennarar

  • Sigurður Skúli Benediktsson, aðjúnkt við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

  • Rúna Sif Stefánsdóttir, lektor við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín.

Á námskeiðinu verða kennd grunnatriði í mandarín kínversku. Ritmálið verður kynnt og nemendur fá að prófa sig áfram að skrifa nokkur tákn og af hverju það er ekki eins erfitt og ætla mætti að lesa og skrifa þessi framandi myndtákn. Við lærum nokkrar setningar og að telja á kínversku. 

Við köfum líka aðeins inn í kínverska menningarheiminn sem Kína er svo þekkt fyrir - svo sem kínversku stjörnumerkin, kínverska matarmenningu, ferðalög, spreytum okkur á einföldum verkefnum og förum jafnvel saman í leik. 

Kennarar

  • Þorgerður Anna Björnsdóttir, BA í kínverskum fræðum og verkefnisstjóri við Konfúsíusarstofnun Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín. 

Hvaða máli skiptir kyn? 

Af hverju eru karlar með hærri laun en konur og kvárar? Af hverju eru karlar í meirihluta á Alþingi? Og af hverju eru næstum allir hjúkrunarfræðingar konur og flestir forstjórar karlar? Af hverju gerir samfélagið misjafnar kröfur til okkar út frá kyni? Af hverju á sumt fólk svona erfitt með að læra að nota rétt fornöfn? Hvað er átt við þegar talað er um eðli kynjanna? Hvaða máli skiptir kynhneigð fyrir líf okkar í heild? Hvað með cís fólk, kvára og trans fólk? Fáum við skilaboð um hvernig við eigum að haga okkur vera eftir því hvaða kyni við tilheyrum eða erum talin tilheyra?

Námskeiðið fjallar um hvernig kynjafræðin skoðar þessi mál og mörg önnur. Hugmyndir fólks um hvað hæfir konum, körlum og kvárum, og hvað sé kvenlegt og karlmannlegt eru mikilvægir þættir í tilveru okkar og menningu. Í námskeiðinu veltum við fyrir okkur hvaðan hugmyndir okkar um kyn koma, og hvort hægt sé að breyta þeim.

Þema í 180 mín.

Kynja- og jafnréttisfræði - þemadagur

Við hittum baráttufólk og sérfræðinga sem eru að vinna í jafnréttismálum á ýmsum sviðum. Þau segja okkur frá sinni vinnu, hvað þeim finnst mikilvægast að breyta í samfélaginu, og hvernig þau fara að því að ná fram breytingum.

Þemadagurinn hefst með undirbúningi, þar sem við búum til spurningar og ræðum hvað við viljum læra af gestunum. Svo vindum við okkur í umræður með okkar góðu gestum, og endum daginn á skemmtilegu verkefni. Ef þú hefur áhuga á jafnrétti og vilt læra að breyta heiminum, þá er þetta þemadagurinn fyrir þig!

Kennarar

  • Arnar Gíslason (hann), jafnréttisfulltrúi HÍ og doktorsnemi í kynjafræði við Háskóla Íslands

  • Valgerður Pálmadóttir (hún), hugmyndasagnfræðingur og nýdoktor hjá Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín. 

Lyfjafræðin er fjölbreytt fag innan heilbrigðisvísindanna. Þar fara fram ýmsar rannsóknir, allt frá því hvaða efni hafa lyfjafræðilega virkni gagnvart ákveðnum sjúkdómi, hvernig þau eru sett saman (formúleruð) í endanlegt lyfjaform og síðan hvernig þau reynast sjúklingnum.

Þar sem lyfjafræðin tekur sífelldum breytingum verður fjallað um það hvert lyfjafræðin stefnir, frá apóteksframleiðslu yfir í lyfjafyrirtækin. Nemendur munu fá að kynnast ýmsum þáttum lyfjafræðinnar og hvað það þýðir að vera lyfjafræðingur. Nemendur fá einnig að kynnast vinnubrögðum í framleiðslu krema samkvæmt forskrift.

Kennari

  • Bergþóra Sigríður Snorradóttir, sérfræðingur við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín.

Kennsla og vettvangsferð í einn af leyndardómum Háskóla Íslands.

Hvað eru lög? Hvernig verða þau til og af hverju förum við eftir þeim? Hvaða hlutverki gegna Alþingi, handhafar framkvæmdarvalds og dómsvalds? Hvað gera lögfræðingar og hvernig lítur starfsumhverfi þeirra út?
Fjallað verður um grunnstoðir lögfræðinnar og hugmyndir okkar um lögin. Við veltum fyrir okkur af hverju við förum eftir lögunum og hvernig lögin snerta okkar daglega líf og athafnir. Við mátum dómaraskikkjur og ræðum raunveruleg álitaefni.

Nemendur eru hvattir til að taka virkan þátt í námskeiðinu og fá að spreyta sig á lögfræðilegum álitaefnum og máta sig í ýmis hlutverk lögfræðinga.

Kennari

  • Ivana Anna Nikolic, lögfræðingur hjá umboðsmanni Alþingis og stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands.

Þema 180 mín.

Spáð verður í mannréttindi fólks um víða veröld og skiptingu auðs og valda. Meðal annars verður fjallað um nútíma þrælahald, málefni flóttamanna og rétt barna til menntunar.

Námskeiðinu lýkur með heimsókn á Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar.
Grundvallarspurning er: Getum við gert eitthvað? Nemendur setja sig í spor þeirra sem búa við misjafnar aðstæður og skoða persónulegar sögur ungmenna sem hafa ekki sætt sig við stöðu mála.

Kennari

  • Súsanna Margrét Gestsdóttir, lektor við Deild faggreinakennslu Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín

Menning og mannlíf Mið-Austurlanda er í senn margbrotið og heillandi.

Í þessu námskeiði kíkjum við á minjar um forn menningarsamfélög, allt frá Súmerum og Egyptum fyrir þúsundum ára, og rennum yfir sögu, trúarbrögð og tungumál landanna, allt til dagsins í dag. Við skoðum sérstaklega íslam, uppruna þess og samfélög múslima.

Nemendur fá auk þessa skyndinámskeið í arabísku og geta spreytt sig á að skrifa nokkur orð með arabískum stöfum. 

Kennari

  • Þórir Jónsson Hraundal, lektor við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands

Námskeið 90 mín

Vandamál og áskoranir, eru alls staðar í kringum okkur og er margt sem þarf að laga og bæta úr. Það á við í umhverfinu, náttúrunni og samfélaginu en einnig nær okkur, eins og heima við, í skólanum, í frístundinni eða nánasta nágrenni.

Nýsköpun getur átt sér stað á ýmsum sviðum en með henni er hægt að laga eða bæta hluti, umhverfið og samfélagið en einnig einfaldlega til að koma fram með nýja vöru eða þjónustu. Öll geta komið fram með hugmyndir og aldur skiptir alls engu máli. Margir krakkar hafa fundið upp stórsnjalla hluti en t.d. íspinninn, trampólín, eyrnahlífar, blindraletur, vasareiknirinn og fleiri hlutir, voru fundin upp af krökkum.

Ert þú kannski með hugmynd í kollinum sem þú vilt láta verða að veruleika? Ertu ekki með hugmynd en vilt læra hvernig hægt er að koma fram með góða nýsköpunarhugmynd?

Á þessu námskeiði lærum við um það hvernig hægt er að koma fram með góða hugmynd og vinna aðeins með hana áfram.

Þema 180 mín

Gervigreind og nýsköpun. Á vinnustofunni, sem snillingurinn Hildur Arna Hakansson stýrir, skoðum við gervigreindir, hvað þær geta gert fyrir okkur, hvernig þær virka og hvernig þær geta nýst samfélaginu í að leysa allskyns vandamál. Við hönnum gervigreind með ákveðin vandamál í huga með hugmyndafræði nýsköpunar að leiðarljósi.

Kennarar

  • Eyjólfur Brynjar Eyjólfsson, forstöðumaður NýMenntar, á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Eyjólfur hefur unnið lengi í nýsköpunar- og frumkvöðlaumhverfinu og m.a. stýrt Nýsköpunarkeppni grunnskólanna og Samsýningu framhaldsskólanna, til margra ára.

  • Hildur Arna Hakansson, kennari og verkefnastjóri hjá NýMennt á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. 

Námskeið í 90 mín.

Réttarvísindi notast við ýmsar raungreinar til að svara lögfræðilegum spurningum. Réttarvísindi eru oftast notuð til að rannsaka glæpi og framkalla sönnunargögn sem hægt er að nota fyrir rétti í sakamálum. Í réttarvísindanámskeiði Háskóla unga fólksins kynnast nemendur mismunandi sviðum réttarvísinda og hvernig þau nýtast í dómsmálum. Áhersla verður lögð á rannsóknir á fingraförum, DNA, efnagreiningar og vettvangsrannsóknir. Nemendur fá einnig að skoða eigin fingraför og prufa að finna fingraför á mismunandi yfirborðum og í lok námskeiðs eiga nemendur að geta nýtt þekkingu sýna til að leysa ráðgátu.

Við biðjum nemendur að taka með einn lítinn hlut úr ruslinu að heiman í poka, við munum svo leita að fingraförum á hlutnum í tímanum.

Kennari

  • Adam Erik Bauer, réttarefnafræðingur á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín. 

Á námskeiðinu verður fjallað um samskipti barna og ungmenna, jafnt augliti til auglitis, sem og á netinu. Velt verður upp spurningum eins og hvað eru góð samskipti? Hvað einkennir neikvæð samskipti? Hverjar eru óskrifuðu samskiptareglurnar í samfélaginu? Hvað er samskiptavandi?

Einnig verður lögð áhersla á samfélagsmiðlanotkun barna og ungmenna og samskipti þeirra á samfélagsmiðlum. Á meðal þess sem fjallað verður um er starfrænt fótspor, góðar netvenjur og uppbyggileg netsamskipti.

Loks verður fjallað um mismunandi birtingarmyndir eineltis, hvernig hægt sé að koma í veg fyrir einelti og hvað eigi að gera þegar upp kemur einelti í hópum.

Þema 180 mín.

Á þemadeginum verður fjallað um samskipti barna og ungmenna, jafnt augliti til auglitis, sem og á netinu. Einnig verður lögð áhersla á samfélagsmiðlanotkun barna og ungmenna og samskipti á samfélagsmiðlum. Þar að auki verður fjallað um mismunandi birtingarmyndir eineltis, hvernig hægt sé að koma í veg fyrir einelti og hvað eigi að gera þegar upp kemur einelti í hópum.

Lögð verður sérstök áhersla á samskipti og einelti á netinu. Fjallað verður um mismunandi birtingarmyndir óæskilegra samskipta og eineltis á meðal barna og ungmenna á netinu. Fjallað verður um hvað eigi að gera þegar slíkt kemur upp og ræddar verða leiðir til þess að sporna gegn því. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á virkni þátttakenda sem snýr að því að stuðla að jákvæðum samskiptum á netinu og þátttakendur munu jafnvel þróa samskiptareglur fyrir sig, heimilið sitt eða hópinn sinn.

Kennari

  • Sema Erla Serdaroglu, aðjúnkt í tómstunda- og félagsmálafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín. 

Farið verður yfir þætti í skurðlækningum, bæði almennum skurðlækningum en einnig með áherslu á hjarta- og heilaskurðlækningar. Einnig verður farið yfir grunnþætti þess að sauma og hverju skurðlæknar þurfa að huga að dags daglega.

Athugið að sýnd eru myndbönd af skurðaðgerðum í námskeiðinu og það því ekki fyrir viðkvæma.

Kennari

  • Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir á Landspítala Háskólasjúkrahúsi, ásamt deildarlæknum.

Þema í 180 mín

Viltu læra að nota stafræna tækni til að búa til eitthvað nytsamlegt?

Í þessari smiðju munið þið vinna með hugmyndir ykkar: teikna og skera í vínilskera og geislaskera.

Kynntar verða þær hugmyndir sem sköpunarhreyfingin (e. Maker Movement) byggir á og spáð í hvaða þýðingu þær geta haft fyrir ykkur til framtíðar. Þið fáið kynningu á aðstöðu í sköpunar- og tæknismiðjum, og vinnið verkefni eins og tíminn leyfir.

Við hvetjum ykkur til að taka með ykkur notaða boli, taupoka, buxur eða aðrar flíkur sem við gefum nýtt líf, ef þið viljið. Það þarf að vera hitaþolið.

Smiðjan fer fram í Mixtúru sköpunar- og upplýsingatækniveri SFS í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í Stakkahlíð (gengið inn frá Stakkahlíð / Austurhlíð, hliðin sem snýr niður að Ísaksskóla). Mixtúra er í stofu K-101, Kletti. 

Kennari

  • Unnur Jónsdóttir, upplýsingatæknikennari 

  • Signý Traustadóttir, smíðakennari

Þema í 180 mín

Töfrar tungumálanna í Veröld – Húsi Vigdísar.
Á þessum degi ferðumst við um heim tungumálanna.
Nemendur Háskóla unga fólksins fá innsýn í framandi menningarheima og læra undirstöðuatriði í ítölsku, þýsku, frönsku, latínu, arabísku og japönsku í sannkölluðu tungumálamaraþoni.

Kennari

  • Sérfræðingar Mála- og menningardeildar Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín. 

Á námskeiðinu verður farið yfir mikilvæg skref sem þarf að hafa í huga þegar kemur að hönnun tölvuleikja. Nemendur fá aðgang að einfaldri útgáfu af tölvuleik sem þeir fá tækifæri til að gera eigin útfærslu á. Lögð er áhersla á tilraunir, skapandi hugsun og að þau sjái hvernig þeirra ákvarðanir geta haft áhrif á upplifun spilara á leiknum þeirra.

Nemendur fá að kynnast því að vinna með sérsmíðaðan hugbúnað til þess að gera uppfærslur á sinni hönnun, s.s. hljóði, hraðabreytingum, litum, ögnum (e. particles) og öðrum minni breytingum.

Leiðbeinendur námskeiðsins munu stuðla að einstaklingsmiðaðri kennslu til að mæta nemendum með ólíka reynslu og þekkingu á viðfangsefninu. Þannig geta allir prófað að dýfa litlu tánni í undraheima forritunar.

Þema 180 mín.

Á þemadegi verður farið yfir allt grunnnámskeiðið og að því loknu er farið í vettvangsferð í höfuðstöðvar CCP í Grósku. CCP er stærsta tölvuleikjafyrirtæki á Íslandi. Þar fær hópurinn kynningu á fyrirtækinu, vinnuaðstöðu og að hitta fólk sem vinnur við tölvuleikjagerð.

Hér má sjá vefsíðu námskeiðsins og verkefni nemenda 2023

Kennari

  • Henrý Þór Jónsson er starfandi grafík forritari hjá CCP og MS í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands. Í meistaranáminu lagði Henrý Þór áherslu á þróun hugbúnaðar og var lokaverkefnið fullbúinn tölvuleikur í leikjavélinni Unreal.

Aðstoðarkennari

  • Sædís Harpa Stefánsdóttir, mynd- og tónmenntakennari með MT í kennslu list og verkgreina og BA í tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands.

 

Þema 180 mín.

Undraheimar Þjóðminjasafnins: Sköpun myndverka, steinaduft og svansfjaðrir

Jarðlitir og skapandi flæði eru þema þessarar heimsóknar á Þjóðminjasafnið. Við skoðum forn verkfæri til að mylja steina og jurtir fyrir málningu og blek sem notuð voru í skreyti- og myndlist. Einnig fjaðurpenna og handrit. Svo leikum við okkur sjálf með sambærileg verkfæri til að búa til eigin málverk.

Kennarar

  • Anna Leif Auðar Elídóttir, safnkennari

  • Helga Aradóttir, safnkennari hjá Náttúruminjasafni Íslands

Námskeið 90 mín.

Getur rokið okkar loksins gert eitthvað gagn?

Vindorka hefur á síðastliðnum áratugum verið að ryðja sér til rúms og nú rísa vindmyllur um allan heim og seinast hér á Íslandi. Öll þekkjum við af eigin raun hve mikill kraftur vindsins er og því er spennandi að hugsa til þess að hægt sé að nýta hann.

En af hverju snúast vindmyllur þegar vindurinn blæs? Hvernig verður rafmagn til úr náttúruöflum? Hvað eiga vindmyllur skylt við flugvélar?

Í þessu námskeiði skoðum við hvernig rafmagn er búið til úr náttúruöflunum og sérstaklega hvernig vindmyllur beisla vindorkuna. Nemendur fá síðan tækifæri til þess að hanna, útfæra og smíða sína eigin vindmylluspaða og prófa getu þeirra með aflmælingu.

Þema 180 mín.

Í þema gefst lengri tími til að fara dýpra í efnistökin við vindmyllusmíði og hvernig rafmagn er búið til úr náttúruöflunum og sérstaklega hvernig vindmyllur beisla vindorkuna. Nemendur fá gott tækifæri til þess að hanna, útfæra og smíða sína eigin vindmylluspaða og prófa getu þeirra með aflmælingu.

Kennarar

  • Sóldís Lydía Ármannsdóttir, BS nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands

  • Nanna Katrín Gísladóttir, BS nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands

 

Námskeið 90 mín.

Hvað eru skrímsli? Hvernig þekkjum við þau? Eru til íslensk skrímsli? Hvernig birtast skrímsli í bíómyndum og tölvuleikjum?

Í þessu námskeiði munum við skoða skrímsli út frá ýmsum sjónarhornum. Við munum velta fyrir okkur hvað það er sem einkennir skrímsli, ræða um helstu ógnvalda og furðuverur úr íslenskum þjóðsögum og velta því fyrir okkur hvernig ný skrímsli verða til t.d. í kvikmyndum og tölvuleikjum.

Þá munu nemendur einnig útbúa sitt eigið skrímsli. Nemendur hafa val um hvernig þau framkvæma verkefnið, taka upp stutta kvikmynd, skrifa sögu eða teiknimyndasögu, búa til plaggat, skúlptúr eða setja hugmyndir niður á blað og kynna.  

Kennari

  • Dagrún Ósk Jónsdóttir, doktorspróf í Þjóðfræði frá Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín

Hvernig tengjast orðin Nike, panikk og Arion grískri goðafræði? Hvað hafa fyrirtækin Bónus, Volvo og Nova með latínu að gera? Hvaðan koma íslensku orðin úlfaldi, dóni, appelsína og stígvél? Tengist morgunsár meiðslum og hungursneyð brauðsneiðum? Fyrir hvað stendur G-ið í G-mjólk og af hverju tölum við um að einhver sé moldríkur eða að drumur sé í dós?
 
Með því að velta fyrir okkur orðunum sem við notum, og fletta kannski í orðabókum, koma í ljós áhugaverð svör við ýmsum spurningum sem þessum.
 
Í Háskóla unga fólksins ætlum við að skoða ýmsar birtingarmyndir tungumálsins og kanna uppruna orða sem við notum oft en þekkjum líklega ekki söguna á bak við. Við skoðum arfleið fornu tungumálanna latínu og grísku, því að jafnvel þótt tungurnar séu útdauðar og enginn tali þær lengur gætir áhrifa þeirra víða, meira að segja í íslensku. 
 
Auk þess ætlum við að velta fyrir okkur almennum spurningum um tungumálið á borð við eftirfarandi: Hvernig verða ný orð til? Hver má búa til ný orð? Hvað er íslenska gömul og hvernig hljómaði sú íslenska sem Snorri Sturluson talaði? Gætum við spjallað við Egil Skallagrímsson ef við hittum hann úti á götu? 

Kennari

  • Hrefna Svavarsdóttir, BA nemi í íslensku við Háskóla Íslands