Háskóli Íslands

Námskeið 2018

Hér til vinstri má sjá námskeiðin í boði í Háskóla unga fólksins 2018. Smellið á námskeiðsheitin til að sjá námskeiðslýsingarnar.  
 
Sumarið 2018 verða í boði afar fjölbreytt námskeið af öllum fræðasviðum Háskóla Íslands. Íþrótta- og heilsufræði, franska, frumkvöðlafræði, dýralíffræði og lyfjafræði eru aðeins brot af þeim ótalmörgu námskeiðum sem í boði verða. Fræðimenn og framhaldsnemar við Háskólann hafa umsjón með flestum námskeiðunum.
 
Í ár verður skólinn frá mánudegi til föstudags, 11. - 15. júní. Nemendur velja fjögur tveggja daga námskeið, einn þemadag og þrjú örnámskeið. Tveggja daga námskeiðin eru kennd 11. og 12. júní og í fyrsta tíma 14. og 15. júní. Þemadaginn 13. júní eru nemendur í sama faginu allan daginn. Þrjú örnámskeið eru kennd síðustu tvær kennslustundirnar 14. júní og í miðjutíma 15. júní.  Glæsileg lokahátíð og vísindagleði verður í Háskólabíó í síðasta tímanum föstudaginn 15. júní og þá má taka foreldra/forráðamenn og systkini með.
 
Í lýsingu námskeiðanna kemur fram hvort námskeið sé kennt sem tveggja daga námskeið, örnámskeið eða bæði. 
 
Hér má sjá dæmi um stundatöflu nemanda 2018. Í stað námskeiðsheita stendur námskeið 1, námskeið 2 o.s.frv.  

 
Nemendur útbúa sína eigin stundatöflu þegar búið er að opna fyrir skráningar kl.18:00 þann 23. maí. Stundum þarf að velja og hafna þar sem sú staða getur komið upp að einhver af óska námskeiðunum eru kennd á sama tíma. En nemendur hafa oft upplifað það að velja námskeið, sem í upphafi var ekki endilega óska námskeið, og vera svo alveg hæst ánægð.
 
Ef námskeið birtist ekki á settum tíma í skráningarkerfinu þá er uppselt á námskeiðið og velja skal annað í staðinn. Við biðlum til nemenda sem hafa verið í Háskóla unga fólksins áður og verið á námskeiðum í Efnafræði eða Eðlisfræði að velja önnur námskeið í ár til að hleypa þeim sem aldrei hafa komist á þessi námskeið að. Það er líka meira gaman að upplifa nýja hluti heldur en að sitja sama námskeiðið tvö, þrjú ár í röð.
 
Ekki verður skipt í aldurshópa 2018 en í ár er skólinn opinn fyrir nemendur fædda árin 2002 - 2006.  
 
Hér að neðan má sjá hvenær hvaða námskeið eru kennd í Háskóla unga fólksins 2018 sem getur auðveldað stundatöflugerðina.