Háskóli unga fólksins 2021

Háskóli unga fólksins var haldinn 14. - 16. júní 2021.

Hægt var að velja á milli tveggja fastra stundataflna. Í hvorri stundatöflu voru sex námskeið eða tvö á dag. 

Stundataflan Askja - Efnafræði, Heimsmarkmiðin, Kínversk fræði, Lyfjafræði, Stjórnmálafræði og Tómstunda- og félagsmálafræði.
Stundataflan Árnagarður - Covid-19, Eldfjöll og eldgos, Félagsráðgjöf, Íþrótta- og heilsufræði, Japönsk fræði og Tækjaforritun. 

Alls voru átta nemendahópar með 15 nemendum í, í Háskóla unga fólksins 2021.  Alls 120 nemendur.  

Skólinn stóð frá kl. 9.00 - 12.15 dagana þrjá.  Öll námskeið voru 90 mínútur, fyrra kl. 9.00-10.30 og seinna kl.10.45-12.15.  Korters frímínútur kl. 10.30-10.45. 

Fræðimenn og framhaldsnemar við Háskólann hafa umsjón með flestum námskeiðunum. 

Námskeið

Efnafræði fjallar um byggingu og eiginleika hinna ýmsu efna og hvernig efni hvarfast hvert við annað. Fræðigreinin er mjög stór og fjölbreytt því efni eru allt í kringum okkur. Allur matur, lyf, hreinsiefni, tölvur, sprengjur og jafnvel við sjálf erum gerð úr mismunandi efnum.  

Í efnafræðinámskeiði Háskóla unga fólksins gera nemendur nokkrar áhugaverðar tilraunir og leysa skemmtileg verkefni. 
Til skoðunar verða efni sem allir ættu að þekkja úr umhverfinu, svo sem C-vítamín, vatn, edik og kerti. Notuð verður aðferð sem kallast títrun við að magngreina C-vítamín og vatn verður rafgreint og þannig brotið upp í frumefni sín, þ.e. súrefni og vetni.

Kennari:

  • Katrín Lilja Sigurðardóttir, aðjúnkt við Raunvísindadeild Háskóla Íslands og forsprakki hins landsfræga Sprengjugengis

Í námskeiðinu verður fjallað um eldgos á Íslandi og víðar um heim og áhrif þeirra á Jörðina.

Við skoðum eldgos undir jöklum, fræg eldgos á Íslandi og annars staðar í heiminum. Við lærum að greina og þekkja mismunandi tegundir eldfjallagrjóts, skoðum hvernig þau verða til og notum smásjár til að greina mismunandi steindir.

Sérstök áhersla verður lögð á að fræðast um eldgosið sem nú stendur yfir á Reykjanesskaga.

Kennari

  • Sævar Helgi Bragason, þáttagerðarmaður, margverðlaunaður vísindamiðlari og stjörnufræðikennari í Vísindasmiðju Háskóla Íslands. 

Samvinna og samningar  – réttindi barna.

Í námskeiðinu verður boðið upp á vinnusmiðju í samskiptum og samningum þar sem viðfangsefnið er réttindi barna.

Við munum fjalla um margbreytileika þjóða og ólíkt viðhorfi til barna tengt menningu og lögum.

Þátttakendur munu kynnast listinni að setja sig í spor annarra, hlusta, ræða saman út frá ólíkum sjónarhornum og leitast við að ná samkomulagi.

Kennari

  • Hervör Alma Árnadóttir, dósent í Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands

Hvernig heim viljum við?

Nemendur velja sér heimsmarkmið til að vinna með, spila, fara í leiki og taka dæmi um hvað þeir geti gert til ná heimsmarkmiðinu.

Kennari

  • Auður Pálsdóttir, sérfræðingur í sjálfbærnimenntun við Háskóla Íslands

Heimsfaraldur COVID-19 hefur haft ólýsanleg áhrif á líf flestra. Orsakavaldurinn er ein margra kórónuveira sem við þekkjum en er án nokkurs vafa orðin sú frægasta.

Enginn vafi er á því að frekari heimsfaraldrar muni koma fram á sjónarsviðið á næstu áratugum. Þá skiptir máli að kanna hvað við vitum um þennan heimsfaraldur, og hvað við getum lært af honum til að bregðast betur við í seinni heimsfaröldrum.

Kennari

  • Jón Magnús Jóhannesson, deildarlæknir á Landspítalanum og sérnámslæknir í lyflækningum

Viltu fá innsýn inn í líf og störf íþróttafræðings og kynnast hvernig hreyfing og svefn geta haft áhrif á heilsuna? Langar þig til að forvitnast um hvernig líkaminn bregst við æfingum og þjálfun?
 
Í íþrótta- og heilsufræðinámskeiðinu munum við fræðast um og framkvæma ýmsar áhugaverðar mælingar og reyna á alla vöðva líkamans. Verið því tilbúin í skemmtilegan og fróðlegan tíma þar sem við munum hreyfa okkur bæði úti og inni og því er mikilvægt að vera í viðeigandi fatnaði.

Kennari

  • Rúna Sif Stefánsdóttir, doktorsnemi í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Japanskt mál og menning. 

Japönsk menning er um margt sérstök og ímynd landsins til jafns tengd hátækni og hraða nútíma samfélags sem og forn menningu og hefðum.  

Á námskeiðinu verður aðeins rýnt í sérkenni japanskrar menningar en sérstaklega verða tekin fyrir grunn atriði í japanskri tungu og munu nemendur læra ýmsar almennar kveðjur og grunn orðaforða. 

Sjónum verður einnig beint að hinu sérstæða ritmáli japönskunnar, hiragana og katagana, sem eru atkvæðisleturgerðir, og svo kanji, sem byggist á myndtáknum. Nemendum gefst einnig tækifæri til að skrifa nokkur tákn á hefðbundna vísu.

Kennari

  • Yayoi Mizoguchi, stundakennari í japönskum fræðum við Háskóla Íslands

Á námskeiðinu verða kennd grunnatriði í mandarín kínversku.  Ritmálið verður kynnt og nemendur fá að spreyta sig á að skrifa nokkur tákn og læra af hverju það er ekki eins erfitt og ætla mætti að lesa og skrifa þessi framandi myndtákn.

Við munum læra mandarín kínversku með því að nota vefsvæðið kinverska.is sem kennari námskeiðisins er að þróa þessa dagana. Þar geta nemendur fengið tækifæri fyrir og eftir námskeiðið til þess að æfa sig í lestri með lestraræfingum og leikjum.

Hver nemandi fær gefins kennslubók með þeim orðum sem farið verður yfir á námskeðinu og verðlaun verða veitt fyrir fyrsta sæti í spurningarleik sem spilaður verður í lok námskeiðisins.

Kennari

  • Daníel Bergmann, BA í kínverskum fræðum og verkefnisstjóri við Konfúsíusarstofnun Háskóla Íslands

Lyfjafræðin er fjölbreytt fag innan heilbrigðisvísindanna. Þar fara fram ýmsar rannsóknir, allt frá því hvaða efni hafa lyfjafræðilega virkni gagnvart ákveðnum sjúkdómi, hvernig þau eru sett saman (formúleruð) í endanlegt lyfjaform og síðan hvernig þau reynast sjúklingnum.

Þar sem lyfjafræðin tekur sífelldum breytingum verður fjallað um það hvert lyfjafræðin stefnir, frá apóteksframleiðslu yfir í lyfjafyrirtækin. Nemendur munu fá að kynnast ýmsum þáttum lyfjafræðinnar og hvað það þýðir að vera lyfjafræðingur. Nemendur fá einnig að kynnast vinnubrögðum í framleiðslu krema samkvæmt forskrift.

Kennari

  • Bergþóra Sigríður Snorradóttir, sérfræðingur við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands
     

Bandarísk stjórnmál – og hvernig virkar þetta kjörmannakerfi eiginlega?

Hvernig getur frambjóðandi sigrað í kosningum með færri atkvæði en keppinauturinn? Hvað má forseti Bandaríkjanna gera? Og hvernig virkar þetta kjörmannakerfi eiginlega?

Í námskeiðinu kynnast nemendur stjórnskipan Bandaríkjanna, helstu verkefnum forseta, valdsviði hans, þingsins, og hæstaréttar, auk þess að fræðast um forsendur kjörmannakerfisins.

Kennari

  • Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands

Könnunarleiðangur (e. Outdoor Journeys) er skemmtileg aðferð til að kanna nærumhverfi sitt, bæði í námi og frístundum.

Á þessu námskeiði fá nemendur að kynnast öflugri og árangursríkri aðferð við að uppgötva og læra um nýja hluti út frá þeirra eigin áhuga og forvitni.

Nemendur fá að upplifa reynslumiðað úti- og ævintýranám í nærumhverfinu og hafa um leið bein áhrif á hvaða verkefni þau velja að vinna.

Við komum okkur fyrir í okkar eigin útikennslustofu, tendrum þar lítið bál og höfum þar notalega stund á meðan við kynnum verkefnin sem unnin voru fyrir hvort öðru.

Kennari

  • Ævar Aðalsteinsson, tómstunda- og félagsmálafræðingur og verkefnastjóri í útinámi við Háskóla Íslands 

 

Skapandi smiðja sem sameinar föndur og forritun.

Þátttakendur vinna í litlum hópum að því að búa til litla fígúru, tæki eða annað álíka úr einföldum efniviði auk ljósa, mótora eða skynjara sem tengd eru við Microbit tölvur. Tölvurnar eru svo forritaðar til að stýra rafbúnaðinum til að glæða smíðina lífi.

Engin þörf er á forþekkingu á föndri eða forritun en sköpunargleði er kostur.

Forritað verður í myndrænum ritli sem auðvelt er að læra á, en reynslumeiri þátttakendur geta einnig forritað í JavaScript eða Python ef þau kjósa það heldur.

Kennari

  • Martin Swift, eðlisfræðingur, starfsmaður Vísindasmiðjunnar og leiðbeinandi við Háskóla Íslands