Gervigreind

Hvað er gervigreind og hvað er þetta ChatGPT sem er alltaf verið að tala um? Hvernig getum við nýtt okkur gervigreind til að létta okkur lífið og hvað þurfum við að varast? Gervigreind verður sífellt meira áberandi í samfélagsumræðunni enda getur hún gert ótrúlegustu hluti, allt frá því að skilja mannlegt mál yfir í að taka ákvarðanir sem stjórna flóknum ferlum innan fyrirtækja. Á námskeiðinu verður farið yfir það hvernig gervigreindin hefur þróast undanfarin ár og þau stórkostlegu tækifæri sem fylgja þeirri þróun. 
 
En gervigreindin er ekki gallalaus og það er grundvallaratriði að skilja hvaða hættur geta leynst í notkun hennar. Hvers vegna eru til dæmis snjallaðstoðarmenn eins og Siri, Alexa og Embla yfirleitt alltaf konur? Hvers vegna hætti Amazon við að nota gervigreind til þess að fara sjálfvirkt yfir starfsumsóknir hjá sér? Hvers vegna koma ítrekað fram dæmi þar sem gervigreindin sýnir fordóma og útskúfun tiltekinna hópa? Er hægt að koma í veg fyrir það? Hvernig getum við notað gervigreind á þannig hátt að það tryggi jafnrétti og öryggi allra sem að henni koma?
 
Auk þess að fara yfir helstu vefþjónustur er varða gervigreind fá nemendur í hendurnar einfaldan kóða sem opnar dyrnar að nokkrum íslenskum og erlendum gervigreindarlíkönum. Nemendurnir aðlaga kóðann að sínum óskum með hjálp kennara. Engin fyrri reynsla af tækni eða forritun nauðsynleg. Námskeiðið hentar öllum, bæði tæknitröllum og forvitnum nýgræðingum. Öllum gefst tækifæri til þess að kanna undraheima gervigreindar með einstaklingsmiðaðri aðstoð.

Titill
Hvernig námskeið

Texti
  • Námskeið í 90 mín
Mynd
Image