Um Háskóla unga fólksins

Megináhersla Háskóla unga fólksins (HUF) er að vekja áhuga ungs fólks á námi, vísindum og fræðum. Með HUF gefst börnum og unglingum kostur á því að fræðast um flestallt milli himins og jarðar og öðlast um leið innsýn í hið gróskumikla vísinda- og fræðastarf sem á sér stað innan Háskóla Íslands. 
Háskóli Íslands stefnir markvisst að því að efla tengsl við íslenskt samfélag og hina yngri samborgara og að stuðla að auknum áhuga allra og skilningi á vísindum. 
Að auki skapar HUF sérstaka hátíðar- og sumarstemmingu á háskólasvæðinu í lok kennsluársins.  

Háskóli unga fólksins (HUF) hefur verið starfræktur frá árinu 2004 og var settur á fót út frá hugmynd Páls Skúlasonar, þáverandi rektors, sem kynntist svipaðri starfsemi á ferðum sínum erlendis. Í upphafi var HUF ætlaður bráðgerum ungum nemendum en var síðar opnaður öllum börnum á Íslandi sem hafa áhuga á fróðleik og vísindum.  
 
Fyrstu árin var HUF smár í sniðum en skólinn hefur vaxið og dafnað og notið gríðarlegra vinsælda meðal ungu kynslóðarinnar undanfarin ár. 

HUF er fyrir börn og unglinga á aldrinum 12-14 ára (í 6. - 8. bekk grunnskóla). Skólinn stendur yfir í tæpa viku í júnímánuði eftir að kennslu lýkur í grunnskólum landsins. Skráning fer eingöngu fram rafrænt á heimasíðu skólans, ung.hi.is. Opnað er fyrir skráningar á fyrirfram tilgreindum tíma um miðjan maí svo allir hafi jafna möguleika á að skrá sig.  

Nemendur sækja nokkur stutt námskeið og kynnast undrum vísinda og fjölbreyttra námsgreina með fræðafólki Háskóla Íslands á meðan á skólanum stendur. Hvert ár er boðið upp á fjölbreytt úrval námskeiða af öllum fræðasviðum HÍ, í félagsvísindum, hugvísindum, menntavísindum, heilbrigðisvísindum, verkfræði, raun- og náttúruvísindum og þverfræðilegum greinum.

Námskeiðin sem hafa verið kennd í HUF eru hátt í tvö þúsund og brautskráðir nemendur skólans eru ríflega tíu þúsund. 

Háskóli unga fólksins hefur hlotið Vísindamiðlunarverðlaun Rannís eins og Háskólalestin og Vísindasmiðjan.