Háskóli unga fólksins var haldinn 13. - 16. júní 2016. Þetta ár voru það nemendur fæddir 2000-2004 (6.-10. bekk grunnskóla) sem áttu kost á því að sækja skólann heim.

Um 350 nemendur sátu námskeið í þeim fjölmörgu fögum sem boðið var uppá og hver og einn nemandi útbjó sína eigin stundatöflu með fjórum tvegga daga námskeiðum, þemadegi og tveimur örnámskeiðum.

Einnig var boðið upp á grillveislu, útileiki og fleira skemmtilegt.

Í lokin var haldin glæsileg lokahátíð í Háskólabíó þar sem allir fengu afhent viðurkenningarskýrteini fyrir þátttökuna. Þá var fjölskyldum boðið að taka þátt í vísindagleði þar sem hægt var að upplifa vísindin á lifandi og leikandi hátt.

Námskeið

Örnámskeið

Tónvísindasmiðjurnar eru eintök blanda af vísindum, tónlist og sköpun. Byggt er á smáforritum úr tónverki Bjarkar Guðmundsdóttur, Biophilia. 

Þarna sameinast kraftar sjálfrar náttúrunnar, undraveröld tónfræðinnar og sköpunargleði nemenda. 

Kennslan fer meðal annars fram með lifandi vísindatilraunum, tóndæmum og spjaldtölvum. Nemendur prófa að skapa sína eigin tónlist og taka virkan þátt í smiðjunum. 

Umsjónarmenn: 

  • Ragna Skinner, tónmenntakennari
  • Sævar Helgi Bragason, jarðfræðingur og formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness

Í fréttum er þetta helst: Fréttamat og fréttaskrif 

Á hverjum degi þurfa fréttamenn að velja úr fjölda upplýsinga og ákveða hvað er frétt og hvað ekki. Hvar finna þeir fréttirnar og hvernig vita þeir hvað er frétt og hvað ekki? 

Á námskeiðinu verður fjallað um þetta og einnig hvernig á að skrifa fréttir. Nemendur spreyta sig á að skrifa fréttir og fá að prufa tól og tæki sem fréttamenn nota við vinnu sína, myndavélar og hljóðnema. 

Kennarar:

  • Hrefna Rós Matthíasdóttir
  • Stefán Drengsson
  • MA-nemar í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands. 

Félagssamskipti geta skipt sköpum úti í náttúrunni og sagt til um hvort dýrin finni sér, t.d. mat, maka, heimili, öryggi eða yfir höfuð lifi af. Leiðir dýra til samskipta eru oft æðifjölbreyttar og vekja gjarnan forvitni okkar mannanna.

Hversvegna eru samskipti svona mikilvæg mörgum spendýrum og það að tilheyra félagskerfi? Hvernig fara dýrin að því að „tala“ saman og tjá sig við hvort annað? Hvernig hafa félagssamskipti haft áhrif á þróun ýmissa spendýra, bæði líkamleg einkenni og atferlisfræðileg?

Í námskeiðinu munum við leita svara við þessum spurningum og mörgum fleiri. Við munum leggja áherslu á að kynnast spendýrum sem félagsverum og þörfum þeirra og aðferðum til samskipta.

Kennari: 

  • Edda Elísabet Magnúsdóttir, líffræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands

Efnafræði fjallar um byggingu og eiginleika hinna ýmsu efna og hvernig efni hvarfast hvert við annað. Fræðigreinin er mjög stór og fjölbreytt því efni eru allt í kringum okkur. Allur matur, lyf, hreinsiefni, tölvur, sprengjur og jafnvel við sjálf erum gerð úr mismunandi efnum.

Í efnafræðinámskeiði Háskóla unga fólksins gera nemendur nokkrar áhugaverðar tilraunir og leysa skemmtileg verkefni. Unnið verður inni í kennslustofum efnafræðideildar þar sem nemendur fá að kynnast hinu spennandi umhverfi tilraunastofunnar og vinna sjálfir með efni og áhöld efnafræðinnar.

Til skoðunar verða efni sem allir ættu að þekkja úr umhverfinu, svo sem C-vítamín, vatn, edik og kerti. Við munum líka velta fyrir okkur af hverju blóm, grænmeti og ávextir hafa mismunandi liti og gera skemmtilega tilraun með liti.

Forvitnir krakkar verða ekki sviknir af þessu námskeiði.

Kennarar: 

  • Katrín Lilja Sigurðardóttir, stundakennari í efnafræði við Háskóla Íslands og forsprakki hins landsfræga Sprengjugengis
  • Snædís Björgvinsdóttir, stundakennari í efnafræði við Háskóla Íslands.

Langar þig að geta bjargað mannslífi?

Bjargráður er félag læknanema um endurlífgun en markmið félagsins er að kenna krökkum og fullorðnum grunnatriðin í endurlífgun.

  • Hvað eigum við að gera ef við komum að manneskju sem liggur á jörðinni?
  • Hvað ef hún svarar ekki ef við köllum á hana?
  • Hvað ef hún andar ekki?

Við förum yfir öll þessi atriði og gerum það á skemmtilegan hátt svo engum ætti að leiðast á meðan lært er um þessi mikilvægu atriði sem geta hjálpað ykkur að bjarga mannslífi.

Kennarar:

  • Félagar í Bjargráði, félagi læknanema við Háskóla Íslands

Kynntar verða sýnitilraunir með ljós, þar sem fyrirbærin skautun, alspeglun, víxlun og bognun leika lykilhlutverk við að mynda skrautleg mynstur. Meðal tilraunanna verða: litaheimur límbandsins, mynstur UHU-límsins, ljósgreiður úr leysiprentara, mæling á hárþykkt og vatnsbunuljósleiðari. Þátttakendur fá tækifæri til að búa til eigin uppstillingar að sumum tilraununum.

Kennari:

  • Ari Ólafsson, dósent við Raunvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði.

Í námskeiðinu munu nemendur fræðast um hvað fornleifafræðingar gera í störfum sínum. Störf fornleifafræðinga eru fjölbreytt og rannsóknaraðferðir eru margar. Farið verður yfir hvað fornleifafræðingar gera í fornleifauppgröftum, hvernig þeir fara fram, hvaða aðferðum er beitt og hvernig við nýtum þær upplýsingar sem koma fram við fornleifarannsóknir. Einnig verður skoðað hvernig fornleifaskráning  fer fram og hvernig við sjáum fornleifar í umhverfinu.

Nemendur fá að kynnast íslenskri fornleifafræði og þeim rannsóknum sem stundaðar eru hér á landi og hvaða upplýsingar þær rannsóknir gefa okkur um fortíðina. Hvað segja byggingar, gripir, bein og öskuhaugar okkur um fólkið sem lifði  á Íslandi?  Hvað upplýsingar getum við séð um líf einstaklinga út frá beinagrindum?  Hvernig getum við aldursgreint minjar?

Fjallað verður um þessar og ótal margar aðrar spurningar sem fornleifafræðingar leitast við að svara með rannsóknum sínum. Nemendur fá að spreyta sig í verkefnum og skoða ýmislegt sem tengist fornleifarannsóknum.  Fornleifafræði er spennandi vísindagrein og verður enn meira spennandi eftir þetta námskeið.

Kennarar:

  • Margrét Hrönn Hallmundsdóttir, fornleifafræðingur og framhaldsnemi við Háskóla Íslands
  • Rúna Þráinsdóttir, fornleifafræðingur.

Hvað er heimspeki?

Heimspekin er gömul fræðigrein sem hefur glímt við grundvallarspurningar mannlegrar tilvistar undanfarin 2400 ár, í það minnsta.

Í námskeiðinu verður stiklað á stóru yfir sögu heimspekinnar og ólíkar spurningar hennar skoðaðar. Nemendur fá tækifæri til að kljást við spurningar líkt og „Erum við til?“, „Hvernig getum við vitað að heimurinn sem við skynjum sé raunverulegur?“ og „Hvernig getum við þekkt rétt frá röngu?“ Í tengslum við það verður sjónum beint að kvikmyndaheimspeki og viðfangsefni hennar.

Í námskeiðinu fá nemendur einnig að kynnast heimspekilegri samræðu og grundvallaatriðum gagnrýninnar og heimspekilegrar hugsunar. Þá er skoðað hvernig við færum rök fyrir skoðunum okkar, hvernig við myndum okkur skoðun, hvað eru gild og réttmæt rök, og helstu einkenni rökvillna.

Kennarar: 

  • Emma Björg Eyjólfsdóttir
  • Elsa Haraldsdóttir
    • doktorsnemar í heimspeki við Háskóla Íslands 

Verkfræðilegar uppskriftir

Hvernig virka vélmenni? Hvernig virka forrit? Hvað þarf til að stjórna þeim? Nemendur fá að kynnast hvernig verkfræðilegar uppskriftir eru notaðar til að fá fram ákveðninni virkni og hegðun vél- og hugbúnaðar.

Verkfræðileg verkefni leyst (örnámskeið)

Heimurinn er fullur af verkfræðilegum verkefnum sem þarf að leysa. En hvað þarf til að leysa þau? Verkfræðingar styðjast við ákveðna hugmyndafræði sem þeir beita við lausn verkefna. Nemendur fá að kynnast hugmyndafræðinni og beita henni til að leysa verkefni.

Kennarar:

  • Rúnar Unnþórsson, dósent
  • Guðmundur Valur Oddsson, lektor
    • báðir við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands. 

Japönsk menning er um margt sérstök og ímynd landsins er jafnt tengd hátækni og hraða nútímasamfélags sem fornri menningu og hefðum.

Á námskeiðinu verður gluggað í sérkenni japanskrar menningar en sérstaklega verða tekin fyrir grunnatriði í japanskri tungu og nemendur læra ýmsar almennar kveðjur og grunnorðaforða. Sjónum verður einnig beint að hinu sérstæða ritmáli japönskunnar, hiragana og katagana, sem eru atkvæðisleturgerðir, og svo kanji, sem byggist á myndtáknum. Nemendum gefst einnig tækifæri til að skrifa nokkur tákn á hefðbundna vísu.

Kennari:

  • Yayoi Mizoguchi, stundakennari í japönskum fræðum við Háskóla Íslands 

Hvað þýðir að vera strákastelpa? Eða stelpustrákur? Er annað meira töff en hitt? Hvernig birtast staðalímyndir um kynin, fatlað fólk og hinsegin fólk? Afhverju er veruleikinn okkur svona photoshoppaður? Býður hann upp á fjölbreytileika mannlífs sem fær að blómstra á eigin forsendum eða eigum við öll að vera alveg eins? Megum við vera eins og við viljum, óháð kyni, stöðu og uppruna? Verðum við að feta veg karlmennskunnar ef við erum strákar og veg kvenleikans ef við erum stelpur? Hvað með intersex og trans? Og hvað koma fornöfn málinu við?

Markmið kynjafræðikennslunnar í Háskóla unga fólksins er að færa nemendum tæki til þess að greina stöðu kynjanna og setja í samhengi við eigið líf. Fjallað verður um birtingarmyndir ójafnréttis í samfélaginu m.a. út frá auglýsingum, samfélgasmiðlum, völdum og forréttindum, stjórnmálum, klámvæðingu og ofbeldi.

Kennari:

  • Lára Rúnarsdóttir, kynjafræðingur og jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands

Á námskeiðinu verða kennd grunnatriði í kínverskri tungu. Kenndur verður framburður og kynnt PINYIN-hljóðritunarkerfið, sem er grunnurinn að því að ná tökum á kínverskum framburði. Við æfum nokkra einfalda frasa og lærum að syngja einfalt lag á kínversku. Einnig verður kínverska ritmálið kynnt og nemendur fá að spreyta sig á að skrifa nokkur tákn og læra af hverju það er ekki eins erfitt og ætla mætti að lesa og skrifa þessi framandi myndtákn.

Svo fræðumst við um landið og staðhætti, menningu og árþúsunda langa sögu, ýmis þjóðarbrot, trúarbrögð og heimspeki. Í stuttu máli lærum við bæði um forna hámenningu og ótrúlega hraða nútímavæðingu þessa framandi menningarheims, en Kína er ekki aðeins fjölmennasta ríki veraldar heldur einnig næststærsta hagkerfi heims og það sem vex hraðast.

Kennari:

  • Magnús Björnsson MA, stundakennari og forstöðumaður Konfúsíusarstofnunarinnar Norðurljósa.

Í námskeiðinu verður skyggnst in í undraheim hljóðsins: Hvað er hljóð, hvernig virka hljóðfæri og hátalarar, og af hverju hljóma hljóðfæri ólíkt?

Nemendur kanna eiginleika bylgja almennt með sýndartilraunum auk þess að smíða einfalda hljóðgjafa og skoða hljóðbylgjurnar frá þeim.

Kennari:

  • Martin Swift, eðlisfræðingur, starfsmaður Vísindasmiðjunnar og leiðbeinandi við Háskóla Íslands

Lyfjafræðin er fjölbreytt fag innan heilbrigðisvísindanna. Þar fara fram ýmsar rannsóknir, allt frá því hvaða efni hafa lyfjafræðilega virkni gagnvart ákveðnum sjúkdómi, hvernig þau eru sett saman (formúleruð) í endanlegt lyfjaform og síðan hvernig þau reynast sjúklingnum.

Þar sem lyfjafræðin tekur sífelldum breytingum þá verður fjallað um það hvert lyfjafræðin stefnir, frá apóteksframleiðslu yfir í lyfjafyrirtækin. Nemendur munu fá að kynnast ýmsum þáttum lyfjafræðinnar og hvað það þýðir að vera lyfjafræðingur. Nemendur einnig fá að kynnast vinnubrögðum í framleiðslu krema samkvæmt forskrift.

Kennari:

  • Berglind Eva Benediktsdóttir, lektor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands

Kennsla og vettvangsferð í einn af leyndardómum Háskóla Íslands.

Hvað eru lög? Hvernig verða lög til? Af hverju förum við eftir lögum?

Til þess að geta svarað þessum spurningum þurfum við að skoða þá sem fara með valdið í landinu, hver gerir hvað og hvernig þessir valdhafar vinna saman. Hverjir dæma eftir lögunum og hvernig komast þeir að niðurstöðu? Eru lögfræðingar oft að elta glæpamenn eins og í Law and Order? Fjallað verður um grundvallaratriði lögfræðilegrar aðferðarfræði og hvernig finna má svör við hinum ýmsu spurningum sem vakna í daglegu lífi.

Nemendur eru hvattir til að taka virkan þátt og reynt verður að flétta spurningar þeirra inn í námskeiðið með því að leysa úr þeim með aðferðum lögfræðinnar.

Kennari:

  • Elín Ósk Helgadóttir, lögfræðingur LL.M. og stundakennari við Háskóla Íslands

Skiptir máli hvar ég fæddist?

Spáð verður í mannréttindi fólks um víða veröld og skiptingu auðs og valda. Meðal annars verða málefni flóttamanna og nútímaþrælahald skoðuð.

Grundvallarspurning er: Getum við gert eitthvað? Nemendur setja sig í spor þeirra sem búa við misjafnar aðstæður, skoða persónulegar sögur ungmenna sem hafa ekki sætt sig við stöðu mála og velta fyrir sér mögulegum leiðum til úrbóta.

Kennari:

  • Súsanna Margrét Gestsdóttir, sagnfræðingur.

Örnámskeið

Menning og mannlíf Mið-Austurlanda er í senn margbrotið og heillandi. Í þessu námskeiði kíkjum við á minjar um forn menningarsamfélög, allt frá Súmerum og Egyptum fyrir þúsundum ára, og rennum yfir sögu, trúarbrögð og tungumál landanna, allt til dagsins í dag. Við skoðum sérstaklega íslam, uppruna þess og samfélög múslima.

Nemendur fá auk þessa skyndinámskeið í arabísku og geta spreytt sig á að skrifa nokkur orð með arabískum stöfum.

Kennari:

  • Þórir Jónsson Hraundal, nýdoktor við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands.

Hvað eru miðaldir? Hvað vitum við um þær og hvaða máli skipta þær fyrir nútímann?
 
Í námskeiðinu verður  fjallað um hugtakið miðaldir, við hvað það á, hvaða heimildir eru til um það tímabil og hver munurinn er á íslenskum miðöldum og erlendum. Í Evrópu má víða sjá glæsilegar byggingar, kastala og kirkjur, sem reistar voru á miðöldum. Listasmíðar Íslendinga á miðöldum eru ekki jafnáberandi heldur samastanda af dýrmætum skinnhandritum sem varðveita merkilegar bókmenntir.  Fjallað verður um þessar bókmenntir, ólíkar greinar þeirra, hverjir sömdu þær og af hverju.

Áhrif miðalda og miðaldabókmennta í gegnum aldirnar verða einnig skoðuð, sem og hvernig slíkt efni er notað í samtímanum, t.d. sem efniviður í sjónvarpsþáttum á borð við Vikings og Game of Thrones og kvikmyndunum um ofurhetjuna Þór.

Kennarar:

  • Þórdís Edda Jóhannesdóttir
  • Kolfinna Jónatansdóttir
    • doktorsnemar í Íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands

Örnámskeið

Í námskeiðinu verður skoðað hvaða næringarefni eru í matnum okkar og hvaða áhrif þau hafa á líkamann. Þrautir sem reyna á bragðskynið, lyktarskynið og jafnvel heilastarfsemina verða leystar. Kennslan byggir á virkri þátttöku nema undir leiðsögn næringarfræðinga við Háskóla Íslands og Landspítala

Kennarar:

  • Birna Þórisdóttir
  • Ellen Alma Tryggvadóttir
    • doktorsnemar í næringarfræði við Háskóla Íslands

Uppfinningar, endurhönnun og nýsköpun

Vissir þú að uppfinningamenn og nýsköpun geta orðið til hvar sem er og að það er hægt að læra aðferðir uppfinningamanna?

Í námskeiðinu kynnast nemendur ferlum við að finna upp nýjar afurðir eða endurhanna hluti sem þegar eru til og fara í gegnum þessi ferli. Kynntar verða ýmsar nýjungar og uppfinningar og nemendur skoða og skilgreina umhverfi sitt, leita þarfa og vinna hugmynd til kynningar.

Kennarar:

  • Ásta Sölvadóttir, stundakennari við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
  • Ágústa Guðmundsdóttir, grafískur hönnuður.

Inngangur að rafmagnsverkfræði - Örnámskeið

Öll rafmagnstæki, eins og t.d. spjaldtölvur, útvörp, sjónvörp og GSM-símar, byggjast á rafmagnsrásum. Í þessu námskeiði kynnast nemendur grundvallaratriðum í rafmagnsrásum og framkvæma verklegar æfingar þar sem m.a. samband straums og spennu er skoðað fyrir ýmsar rafmagnsrásir.

Kennarar:

  • Jón Atli Benediktsson, rafmagnsverkfræðingur og rektor Háskóla Íslands
  • og fleiri

Sameindalíffræði - Darwin, DNA og þróun lífssins

Fjallað verður um byggingu DNA, breytileika á milli einstaklinga og þróun lífsins. Erfðaupplýsingar má nota á ýmsa vegu, til að greina faðerni, uppruna flensuveirunnar, lífsýni á glæpavettvangi og skyldleika þjóða og ólíkra tegunda.

Nemendur fá að einangra DNA og draga DNA á geli og kynnast tvíburarannsóknum á DNA-sviði. Þeir fá að kanna eigin bakteríuflóru og rækta upp bakteríur á agarskálum með og án sýklalyfja. Þau kynnast því hvernig við mögnum upp gen og vinnum með pípettur.

Darwin og þróunarkenningin verður kynnt og hvernig hægt er að útskýra allan breytileika lífvera með hugmyndum þróunar.

Kennari:

  • Katrín Halldórsdóttir, nýdoktor og verkefnisstjóri á rannsóknarstofu í stofnerfða- og þróunarfræði 

Að vera góður í samskiptum og kunna að vinna í hópi er talið skipta miklu máli fyrir líðan fólks og velgengni í lífinu.

Að læra og kenna samskipti á virkan hátt í gegnum leik er aðferð sem lengi hefur verið notuð í félagsráðgjöf. Hugmynd aðferðarinnar er rakin til John Dewey (1859-1952), en hann sagði að mikilvægt væri að læra á virkan hátt með því að framkvæma. Skoða svo eftirá hvað hafi gengið vel og hvað síður. Á þennan meðvitaða hátt verði lærdómurinn skiljanlegri fyrir þann sem nemur og skili betri árangri.

Í þessu námskeiði verður fjallað um einkenni hópa og góðra samskipta.  Kenndar verða æfingar til þess að efla samskipti einstaklinga og hópa. Nemendur fá tækifæri til þess að skoða mismunandi leiðir til samskipta í gengum hópa- og samskipta æfingar.

Kennari:

  • Hervör Alma Árnadóttir, lektor við Félagsráðgjafadeild, Háskóla Íslands

Farið verður yfir þætti í skurðlækningum, bæði almennum skurðlækningum en einnig með áherslu á hjarta- og heilaskurðlækningar. Einnig verður farið yfir grunnþætti þess að sauma og hvað skurðlæknar þurfa að huga að dags daglega.

Kennarar:

  • Sindri Aron Viktorsson
  • Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir á Landspítala Háskólasjúkrahúsi

Spænska - Hola, ¿Qué tal?

  • Hvað skyldu Fernando Torres, Penélope Cruz, Shakira og Lionel Messi eiga sameiginlegt?
  • Hvað er eiginlega salsa, tortilla og jamón?
  • Hvernig getur það gagnast mér að kunna spænsku?

Spænska er móðurmál um 400 milljóna manna í meira en tuttugu löndum og er eitt mest talaða tungumál heimsins í dag. Í námskeiðinu fá nemendur innsýn í spænska tungu og þá fjölbreyttu menningarheima sem að baki henni standa. Nemendur læra einfaldar setningar, ýmis gagnleg orð og kynnast fjölbreytileika hins spænskumælandi heims í gegnum ýmsa miðla, s.s. tónlist og myndir.

Kennari:

  • Sigrún Magnúsdóttir, stundakennari í spænsku við Háskóla Íslands

Steinaríkið - Jarðvísindi

Finnst þér gaman að skoða alls konar steina úti í náttúrunni?

Í örnámskeiðinu um steinaríkið munum við skoða alls konar grjót og steina, bæði íslenska og útlenska, hraun og hrafntinnu, kristalla og steingervinga, létta og þunga, litríka og einsleita.

Hvernig myndast allir þessir mismunandi steinar og hvaða umhverfisaðstæður ráða því hvaða steinar eru til á hverjum stað? Hvaða steinar eru sjaldgæfir á Íslandi og eru kannski til séríslenskir steinar? Er hægt að nota steina og grjót í eitthvað nytsamlegt? Við munum skoða þetta allt saman á námskeiðinu og að sjálfsögðu fá þátttakendur sjálfir að handleika og grandskoða steinana.

Ef þið eigið fallega eða áhugaverða steina megið þið endilega koma með þá á námskeiðið og við getum skoðað þá saman.

Kennari:

  • Snæbjörn Guðmundsson, doktorsnemi í jarðfræði við Háskóla Íslands

  • Hvernig varð alheimurinn til?
  • Hvar finnum við svarthol?
  • Hversu stór er Vetrarbrautin okkar?
  • Hvað eru hulduefni og hulduorka?

Við leitum svara við þessum spurningum og fleirum sem tengjast stjörnunum og alheiminum á námskeiðinu.

Kennari:

  • Sævar Helgi Bragason, jarðfræðingur og formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.

Rannsóknir sýna að meðalmanneskja, sem lifir í 70 ár eyðir um 27 árum af lífi sínu í frítíma. Sem segir okkur það að við þurfum að nýta þennan tíma vel, bæði á uppbyggilegan hátt og til hafa gaman.

Aldur skiptir ekki máli þegar leikur er annars vegar, það geta allr leikið sér.

Í námskeiðinu verður tekist á við nýjar áskoranir og stígið út fyrir þægindarammann. Farið verður í spennandi leiki og skemmtileg verkefni unnin yfir daginn.

Kennarar:

  • Birta Baldursdóttir
  • Elva Margrét Árnadóttir
    • BA í Tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands 

Tölva vinnur úr upplýsingum með því að breyta alls kyns upplýsingum í tvenndartölur (tvenndartölur eru tölurnar núll og einn). Síðan eru framkvæmdar reikniaðgerðir á þessum upplýsingum til að taka ákvarðanir eða endurraða þessum tölum allt eftir tilgangi verksins.

Þetta námskeið er bóklegt og verklegt. Fyrri daginn er farið yfir grundvallarhugtök og nauðsynleg atriði til að hanna einfaldan samleggjara og seinni daginn hannar hver nemandi sinn samleggjara.

Kennari:

  • Agnes Linnet, BSc. í rafmagnsverkfræði við Háskóla Íslands.

Vatnalíffræði: Skordýr

Í námskeiðinu verður farið í undirstöðuatriði vatnalíffræðinnar. Vatnalíffræði fjallar um eðlis- og efnafræðilega þætti vatna, lífríki þeirra og hvernig það mótast af eðlis- og efnafræðinni. Fjallað verður um mismunandi gerðir vatna á Íslandi en eitt af íslensku sérkennunum eru lindarvötnin, sem óvíða eru jafn algeng og hér, en einnig eru margar aðrar vatnagerðir sérstakar, eins og mýrlendi og jökulár.

Farið verður í Vatnsmýrina við Öskju, náttúrufræðahús háskólans, og náð í sýni af smádýrum og hornsílum og einnig verður fuglalíf skoðað. Vatnsmýrin er varpland andanna sem fara á Tjörnina með ungana sína.

Háskóli Íslands býður upp á kynningu á skordýrum í Elliðaárdal, m.a. á vatnaskordýrum að kvöldi 12. júní. Þetta er tveggja tíma ganga undir heitinu „Með fróðleik í fararnesti“ og eru nemendur boðnir velkomnir í fylgd með foreldrum sínum.

Kennari:

  • Gísli Már Gíslason, prófessor í vatnalíffræði við Háskóla Íslands. 

  • Hvað er verkfræði?
  • Hvað gera verkfræðingar?
  • Hvar má þá finna?
  • Hvernig nýtist verkfræðileg hugsun við smíði kappakstursbíls?

Snert verður á helstu greinum vélaverkfræðinnar sem stuðst er við við smíði kappakstursbíls (t.d. burðarþolsfræði, efnisfræði og vélhlutafræði).

Skemmtileg og krefjandi verkefni verða unnin þar sem verkfræðilegri hugsun verður beitt. Einnig verður bíllinn í ár TS16 skoðaður ásamt eldri bílum liðsins.

Kennarar:

  • Daníel Freyr Hjartarson, BS í vélaverkfræði og stundakennari við HÍ
  • og aðrir liðsmenn liðsins Team Spark við Háskóla Íslands.

Í fréttum er oft vísað til norðurslóða, norðurskautsríkja, og vestnorrænna landa og víst er að áhugi umheimsins á þessum norðlægu slóðum hefur vaxið mikið á undanförnum árum.

Í þessu námskeiði verður gerður greinarmunur á þessum hugtökum og vestnorrænu löndin þrjú – Ísland, Grænland og Færeyjar - skoðuð sérstaklega. Hvað eiga þau sameiginlegt? Hvað er ólíkt með þeim? Af hverju hafa aðrir svona mikinn áhuga á þessum löndum? Hvers vegna er mikilvægt fyrir Ísland að vinna náið með þessum nágrönnum sínum?

Kennari: Margrét Cela, verkefnisstjóri Rannsóknaseturs um norðurslóðir og stundakennari við Háskóla Íslands.

Vindmyllusmíði – Getur rokið okkar loksins gert eitthvað gagn?

Vindorka hefur á síðastliðnum áratugum verið að ryðja sér til rúms og nú rísa vindmyllur um allan heim og seinast hér á Íslandi. Öll þekkjum við af eigin raun hve mikill kraftur vindsins er og því er spennandi að hugsa til þess að hægt sé að nýta hann.

En af hverju snúast vindmyllur þegar vindurinn blæs? Hvernig verður rafmagn til úr náttúruöflum? Hvað eiga vindmyllur skylt við flugvélar?

Í þessu námskeiði skoðum við hvernig rafmagn er búið til úr náttúruöflunum og sérstaklega hvernig vindmyllur beisla vindorkuna. Nemendur fá síðan tækifæri til þess að hanna, útfæra og smíða sína eigin vindmylluspaða og prófa getu þeirra með aflmælingu.

Kennarar:

  • Baldur Brynjarsson, stundakennari við Raunvísindadeild Háskóla Íslands
  • Aðalheiður Guðjónsdóttir, MS-nemi í Iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands
  • Baldur Helgi Þorkelson, BSc-nemi í Umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands

Hver er erfiðasta spurning í heimi?

Krakkar og unglingar hafa frá upphafi verið duglegustu spyrjendurnir á Vísindavefnum. Nú býðst þeim sem skrá sig í Háskóla unga fólksins að setjast hinum megin við borðið og svara spurningum um allt milli himins og jarðar! Á námskeiðinu fáið þið að vinna saman tvö og tvö í tölvuveri undir leiðsögn kennara.

Öll svör sem þið skrifið verða birt á Vísindavefnum í sérstökum flokki sem heitir Unga fólkið svarar. Í lok námskeiðsins verður farið í skemmtilegan spurningaleik.

Á Vísindavef Háskóla Íslands – visindavefur.hi.is – getur hver sem er fengið svör við næstum því hverju sem er. Þar er núna að finna svör við um 10.000 spurningum, meðal annars þessum hér: Hvernig getur alheimurinn verið endalaus? Er hægt að senda fólk á milli staða með teleport-vél? og Hver er erfiðasta spurningin í heiminum?

Kennarar:

  • Jón Gunnar Þorsteinsson, bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins
  • og fleiri
Þemadagar

Hvalirnir í Faxaflóa — Hvalafræðsla og hvalaskoðun — Þemadagur

Á námskeiðinu fara nemendur í hvalaskoðunarferð út á Faxaflóa þar sem fræðst verður um líf og undur hvalanna við Ísland. Faxaflói er heimkynni nokkurra algengra hvalategunda en á sumrin leggur mikill fjöldi þeirra leið sína inn í Faxaflóa, þá einna helst í ætisleit. Algengustu hvalategundirnar á þessum slóðum eru hrefnur, hnúfubakar, hnýðingar og hnísur. Á sumrin iðar Faxaflói af lífi og oft er mikið af fuglageri á fæðuslóðum hvalanna. Nemendur fá einnig tækifæri til að fylgjast með hinum fjölmörgu lundum sem búa, líkt og hvalirnir, í Faxaflóa á sumrin. Um borð fá nemendur tækifæri til að kynnast hvalarannsóknum sem stundaðar eru um borð í hvalaskoðunarbátum.

Á námskeiðinu fara nemendur í hvalaskoðunarferð út á Faxaflóa þar sem fræðst verður um líf og undur hvalanna við Ísland. Faxaflói er heimkynni nokkurra algengra hvalategunda en á sumrin leggur mikill fjöldi þeirra leið sína inn í Faxaflóa, þá einna helst í ætisleit.

Algengustu hvalategundirnar á þessum slóðum eru hrefnur, hnúfubakar, hnýðingar og hnísur. Á sumrin iðar Faxaflói af lífi og oft er mikið fuglager á fæðuslóðum hvalanna. Nemendur fá einnig tækifæri til að fylgjast með hinum fjölmörgu lundum sem búa, líkt og hvalirnir, í Faxaflóa á sumrin. Um borð fá nemendur tækifæri til að kynnast hvalarannsóknum sem stundaðar eru um borð í hvalaskoðunarbátum.

Dagurinn byrjar á fræðilegum hluta í kennslustofu. Eftir hádegi verður farið í hvalaskoðunarferðina og henni lýkur um klukkan 16 við hvalaskoðunarfyrirtækið Eldingu, Ægisgarði 7, 101 Rvk.

Mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og vera í viðeigandi skóbúnaði.

Kennari:

  • Edda Elísabet Magnúsdóttir, doktorsnemi í líffræði við Háskóla Íslands.

Langar þig að smíða þinn eigin kappakstursbíl? Team Spark er hópur verkfræðinema sem unnið hefur að þróun, hönnun og smíði eins manns kappakstursbíls í vetur. Í sumar fer hópurinn út með bílinn á keppni á sjálfri Silverstone kappakstursbrautinni í Bretlandi.

Í námskeiðinu fá nemendur að kynnast því hvað þarf til þess að heill kappakstursbíll verði að veruleika, hvar á að byrja og að hverju þarf að huga. Nemendur fara sjálfir í gegnum hönnun og smíði á eigin kappakstursbíl og fá að rekast á hin ýmsu vandamál sem möguleiki er að reka sig á í ferli sem þessu. Unnið verður í kennslustofu verkfræðideildar og einnig í verklegu rými deilarinnar. Allir þeir sem hafa áhuga á kappakstursbílum, tækjum eða brennandi áhuga á krefjandi verkefnum ættu ekki að láta þetta framhjá sér fara.

Kennarar:

  • Daníel Freyr Hjartarson, BS í vélaverkfræði og stundakennari við HÍ
  • og aðrir liðsmenn liðsins Team Spark við Háskóla Íslands.

Þemadagur í fornleifafræði - Landnám í Reykjavík

Á þemadeginum verður farið í heimsókn í uppgröft sem stendur yfir á Landsímareitnum. Þar fáum við að hitta fornleifafræðinga að störfum og sjáum hvernig þeir vinna. Einnig fáum við að skoða gripi og bein sem fundist hafa við rannsóknina.

Einnig verður farið á Landnámssýninguna og gengið um miðborgina og staðir skoðaðir þar sem fornleifarannsóknir hafa farið fram.

Lögð verður áhersla  á landnám í Reykjavík í þessari ferð og nemendur fá að sjá og kynnast rannsóknum sem hafa staðið yfir og eru enn yfirstandandi í miðbænum.

Mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og vera í viðeigandi skóbúnaði.

Kennarar:

  • Margrét Hrönn Hallmundsdóttir, fornleifafræðingur og framhaldsnemi við Háskóla Íslands
  • Rúna Þráinsdóttir, fornleifafræðingur.

Fréttavinnsla og heimsókn í Ríkisútvarpið. Nemendur setja sig í spor fréttamanna og prófa sitt eigið fréttanef!

Á Háskólasvæðinu er mikið að gerast og fara nemendur um svæðið sem fréttamenn og þefa uppi áhugaverð umfjöllunarefni sem þeir vinna sjálfir fréttir um. Fréttir nemenda verða birtar á þessum vef.

Einnig fara nemendur í heimsókn í Ríkisútvarpið. Þar gefst tækifæri til að skoða hljóð- og myndver sjónvarpsins ásamt því að skoða aðra króka og kima hússins. Nemendur hitta einnig frétta- og dagskrárgerðarmenn Ríkisútvarpsins og þeim gefst kostur á að spyrja þá spurninga um störf fréttamanna, fréttamat, beinar útsendingar og fleira.

Kennarar:

  • Hrefna Rós Matthíasdóttir
  • Stefán Drengsson
    • MA-nemar í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.

Finnst þér mannslíkaminn áhugaverður? Langar þig að fræðast um heilbrigði og heilsu og kynnast spennandi viðfangsefnum heilbrigðisstarfsfólks?

Dagurinn hefst á sameiginlegum fyrirlestri þar sem við fáum innsýn í fjölbreytt starf læknisins. Þá tekur við hópavinna þar sem við skoðum ýmsar hliðar heilbrigðisvísinda. Við kynnumst til að mynda sálfræði og vinnum skemmtilegt verkefni í tengslum við hana, við hugum að tönnum og tannheilsu og fáum jafnvel að prófa borinn, og margt fleira spennandi.

Hlökkum til að sjá þig í Læknagarði.

Þemadagur í heimspeki – Maðurinn í tengslum við umhverfi sitt og samfélag

Háskóli ÍslandsNemendur fá tækifæri til að skyggnast inn í tvö ólík viðfangsefni heimspekinnar, lýðræði og náttúra, eða samfélag og umhverfi.

Fyrri hluti: Maðurinn í samfélaginu – stjórnmálaheimspeki

Í þessum hluta skyggnumst við inn í heim stjórnmála, valds og lýðræðis. Við kynnum okkur stjórnmálin, ríkisvaldið, frelsi og vald. Hvernig réttlætum við vald ákveðins hóps yfir öðrum? Hvers vegna mótmælir fólk? Hvað þýðir lýðræði? Hvers vegna höfum við stjórnkerfi yfir höfuð? Hverjir taka þátt í stjórnmálum – og hvers vegna útiloka þau ungt fólk?

Við heimsækjum jafnframt Alþingi og sjáum hvernig þar er um að lítast og ræðum um mótmæli á Íslandi á undanförnum misserum.

Seinni hluti: Maður og náttúra – náttúruheimspeki

Í seinni hluta námskeiðsins verður fjallað um náttúruna, lífríkið og siðfræði þess. Farið verið á stúfana í nánasta umhverfi háskólans og skoðað hvernig menning og náttúra fléttast saman. Velt er upp spurningum í tengslum við ábyrgð mannsins gagnvart náttúrunni, hvaða gildi hún hefur og hvaða stöðu hún hefur í samfélagi manna. „Er náttúran eitthvað sem við getum ávallt gengið að vísu?“, „Hvað er óspillt náttúra?“ Nemendur fá innsýn inn í helstu spurningar heimspekinnar um þessa þætti og velta fyrir hlutverki sínu í umgengni við náttúruna.

Mikilvægt er að klæða sig eftir veðri.

Kennarar:

  • Emma Björg Eyjólfsdóttir
  • Elsa Haraldsdóttir
    • doktorsnemar í heimspeki við Háskóla Íslands

Langar þig til að forvitnast um það hvernig líkaminn bregst við æfingum og þjálfun?

Á þemadegi í íþrótta- og heilsufræði munum við fræðast og framkvæma ýmsar mælingar og spekulera í þjálfun. Við munum líka hreyfa okkur inni og úti, fara í vettvangsferð og fleira skemmtilegt, því er nauðsynlegt að mæta í viðeigandi fatnaði.

Kennari:

  • Gunnhildur Hinriksdóttir, aðjúnkt í  íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Í Jarðfræðiferð með reikistjörnuívafi förum við í dagsferð um Suðurlandið. Skoðum eldfjöll og hraun, fossa, jökulmenjar og jarðhitasvæði á Suðurlandi og finnum hliðstæður við þessar jarðmyndanir á öðrum hnöttum í sólkerfinu okkar.

Svo skoðum við líka eldgos á sólinni okkar, ef veður leyfir.

Við verðum mikið úti svo mikilvægt er að mæta vel klædd.

Kennarar:

  • Sævar Helgi Bragason, jarðfræðingur og formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness
  • Alma Gytha Huntingdon-Williams, BS-nemi í jarðfræði

Kynjafræðiþemadagur - Femíniskar hreyfingar og grasrótarsamtök

Á þemadeginum ætlum við að skyggnast inn í starf grasrótasamtaka og femíniskra hreyfinga á Íslandi og fræðast um helstu feminísku málefni líðandi stundar. Má þar nefna stöðu og baráttu hinsegin fólks, fatlaðs fólks og baráttunni fyrir betra samfélagi án kynferðisofbeldis.

Farið verður í vettvangsferðir og því mikilvægt að klæða sig eftir veðri.

Kennarar:

  • Lára Rúnarsdóttir, kynjafræðingur og jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands
  • Herdís Sólborg Haraldsdóttir.

Hvað eiga mannréttindafrömuðirnir Mahatma Gandhi og Nelson Mandela sameiginlegt? Hvað ætli þeir hafi lært þegar þeir voru í háskóla?

Njóta allir sömu réttinda? Við munum skoða söguna og velta fyrir okkur þeim mannréttindum sem við höfum og hvernig við öðluðumst þau. Við munum spyrja okkur þeirra spurninga hvort við eða einhverjir aðrir þurfi frekari réttindi og hvað við getum gert til að afla þeirra. Við vitum að í gamla daga fór fólk í kröfugöngur, skrifaði greinar í blöðin og fleira til þess að ná fram réttindum. Er staðan önnur í dag? Er eitthvað annað sem hægt er að gera? Hvað með herferðir á internetinu? Hvernig má nota internetið til að ná fram réttindum – hvernig er það gert?

Farið verður í vettvangsferð til UM Women þar sem við ætlum að fræðast um það starf sem þar er unnið og hvernig Internetið er notað til þess að koma mikilvægum skilaboðum á framfæri.

Nemendur eru hvattir til að taka virkan þátt og reynt verður að flétta spurningar þeirra inn í efni þemadagsins.

Kennarar:

  • Elín Ósk Helgadóttir, lögfræðingur LL.M. og stundakennari við Háskóla Íslands
  • Hildur Hjörvar, meistaranemi í lögfræði og fyrrum nemandi í Háskóla unga fólksins.

Á námskeiðinu hitta nemendur heimsfræga vísindakonu og fara í ævintýraleik þar sem þau koma með tillögur að betri framtíð á Íslandi. Þessar tillögur verða sendar til stjórnvalda eftir námskeiðið.

Dr. Jane Goodall er heimsþekkt og ein ástsælasta vísindakona heims á sviði dýrafræða. Bæði börn og fullorðnir um allan heim þekkja hana úr fjölmörgum sjónvarpsþáttum um hegðan villtra dýra, einkum simpansa, en hún hefur náð ótrúlegu sambandi við þá og varpað einstæðu ljósi á líf þeirra og samfélög með rannsóknum sínum. Jane hefur ítrekað lýst yfir áhyggjum sínum af loftslagsbreytingum og hún hlakkar til að hitta íslensk ungmenni og ræða við þau þessi málefni.

Dagurinn byrjar inni í kennslustofu þar sem nemendur munu skilgreina áskoranir í tengslum við loftslagsbreytingar og vinna að tillögum sínum í hópum. Í kjölfarið fá nemendur einstakt tækifæri til að hitta Jane Goodall og kynna tillögur sínar fyrir henni. Eftir hádegi verður farið í útikennslu, ef veður leyfir, og þar verður m.a. farið í ævintýraleik í búningum þar sem nemendur setja sig í spor ýmissa hagsmunaaðila (dýra og fólks) á náttúrusvæði sem er í hættu. Nemendur stýra leiknum sjálfir og hafa þannig áhrif á framvindu leiksins. Enginn veit hvernig útkoman verður!

Þemadagurinn er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Landverndar og námskeiðið fer að hluta til fram á ensku. Mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og vera í góðum skóm.

Kennarar:

  • Caitlin Wilson, bókmenntafræðingur og doktorsnemi í sjálfbærni við Háskóla Íslands
  • Katrín Magnúsdóttir, líffræðingur, mannfræðingur og með diplóma í kennslufræðum og menntun til sjálfbærni
  • Rannveig Magnúsdóttir, kvikmyndagerðarkona og doktor í líffræði frá Háskóla Íslands

Tómstundir – Skiptir einhverju máli hvað við gerum í frítímanum?

Rannsóknir sýna að meðalmanneskja, sem lifir í 70 ár eyðir um 27 árum af lífi sínu í frítíma. Sem segir okkur það að við þurfum að nýta þennan tíma vel, bæði á uppbyggilegan hátt og til hafa gaman.

Aldur skiptir ekki máli þegar leikur er annars vegar, það geta allr leikið sér.

Í námskeiðinu verður tekist á við nýjar áskoranir og stígið út fyrir þægindarammann. Farið verður í spennandi leiki, hópefli og í vettvangsferð í Gufunes. Skemmtileg verkefni verða einnig unnin yfir daginn.

Kennarar:

  • Birta Baldursdóttir
  • Elva Margrét Árnadóttir
    • BA í Tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands

Í sögubókum kemur fram að Ingólfur Arnarson hafi verið fyrsti landnámsmaður á Íslandi og numið land í Reykjavík 874. En hvaðan kemur sú vitneskja og er þetta satt?

Í námskeiðinu verður fjallað um þær heimildir sem til eru um upphaf Íslandsbyggðar, miðaldahandrit og fornleifar.

Annars vegar verður fjallað um miðaldahandritin, hvenær þau voru rituð og hvað þau segja um landnám Íslands og landnámsmennina. Einnig verður fjallað rækilega um það hvernig handrit voru búin til, bæði hvaða þekkingu þurfti til að skrifa texta þeirra og hvernig handbragðið var. Nemendur fá að kynnast ferlinu við handritagerð, hvernig skinn voru verkuð og blek búið til og fá að prófa að skrifa á skinn.

Hins vegar verður fjallað um fornleifar og hvað þær segja okkur um upphaf Íslandsbyggðar og hvaða minjar hafa fundist frá landnámsöld.

Farið verður á Landnámssýninguna í Aðalstræti og leifar um fyrstu byggð í Reykjavík skoðaðar, sem og handrit sem þar eru og tengjast landnáminu. Mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og koma í góðum skóm því gengið verður frá Háskóla Íslands í Aðalstræti.

Kennarar:

  • Þórdís Edda Jóhannesdóttir
  • Kolfinna Jónatansdóttir
    • doktorsnemar í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands

Vindorka hefur á síðastliðnum áratugum verið að ryðja sér til rúms og nú rísa vindmyllur um allan heim og seinast hér á Íslandi. Öll þekkjum við af eigin raun hve mikill kraftur vindsins er og því er spennandi að hugsa til þess að hægt sé að nýta hann.

En af hverju snúast vindmyllur þegar vindurinn blæs? Hvernig verður rafmagn til úr náttúruöflunum? Hvað eiga vindmyllur skylt við flugvélar?

Í þessu námskeiði munum við skoða hvernig rafmagn er búið til úr náttúruöflunum og sérstaklega hvernig vindmyllur beisla vindorkuna. Nemendur fá síðan tækifæri til þess að hanna, útfæra og smíða sína eigin vindmylluspaða og prófa getu þeirra með aflmælingu.

Kennarar:

  • Baldur Brynjarsson, stundakennari við Raunvísindadeild Háskóla Íslands
  • Aðalheiður Guðjónsdóttir, MS-nemi í Iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands
  • Baldur Helgi Þorkelson, BSc-nemi í Umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands

Þýska – Bitte schön

Í þessu námskeiði verður leikið og sungið á þýsku. Hvernig ætli Meistari Jakob hljómi á þýsku? Við ætlum að mynda stuttar gagnlegar setningar eins og t.d. að kynna okkur, heilsa fólki og kveðja og þakka fyrir okkur. Við æfum okkur einnig í að panta mat á veitingastað og útbúum okkar eigið orðasafn yfir mikilvægustu orðin.

Ef tími gefst til fáum við líka að kynnast þýskum staðháttum og menningu.

Kennari:

  • Þórunn Elín Pétursdóttir þýskukennari
Share