Á þriðja hundrað fróðleiksfúsir og fjörugir 12-14. ára nemendur streymdu í Háskóla Íslands í morgun til að setjast á skólabekk í Háskóla unga fólksins.

Háskóli unga fólksins fagnar 20 ára afmæli í sumar og var því settur í tuttugasta sinn í morgun.  Við skólasetningu fengu nemendur afhent námsgögn og hlýddu á þau Jón Atla Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Kristínu Ásu Einarsdóttur, skólastjóra Háskóla unga fólksins. 

Að lokinni skólasetningu á Háskólatorgi héldu áhugasömu ungu nemendurnir svo í sína fyrstu kennslustund í Odda og Öskju í fylgd starfsmanna skólans.

Í fyrstu kennslustund fengust nemendur m.a. við stjörnufræði, ævintýri orðanna, réttarvísindi, sjúkraþjálfun, skurðlækningar, japönsk fræði, efnafræði, dulkóðun, heimspeki og manneskjuna, lögfræði, íþrótta- og heilsufræði, gervigreind, hvali í sýndarveruleika og blaða- og fréttamennsku.

Næstu fimm dagar verða þéttskipaðir af fróðleik og fjöri með fræðimönnum Háskóla Íslands, en nemendur sækja námskeið af öllum sviðum Háskóla Íslands, í félagsvísindum, hugvísindum, menntavísindum, heilbrigðisvísindum, verkfræði, raun- og náttúruvísindum og þverfræðilegum greinum.

Megináhersla skólans er að vekja áhuga ungs fólks á námi, vísindum og fræðum og gefa unga fólkinu kost á því að fræðast um flestallt milli himins og jarðar.

Kristinn Ingvarsson, ljósmyndari Háskólans, var á ferðinni um háskólasvæðið í dag og myndaði glaðbeitta nemendur þennan fyrsta dag.

Á morgun, þriðjudag, mæta nemendur beint í kennslustofu samkvæmt stundatöflu. Við þökkum kærlega fyrir daginn og sjáumst aftur hress í fyrramálið.

Myndir af starfi skólans vikuna 10 - 14. júní 2024

 

Image