Þá hafa 250 krakkar á aldrinum 12–14 ára skráð sig til þátttöku í hinum árlega Háskóla unga fólksins sem stendur dagana 10. - 14. júní.

Orðaleikir og bókmenntir, gervigreind, stjörnufræði, dulkóðun, íþrótta- og heilsufræði, hvalir í sýndarveruleika, blaða- og fréttamennska, japönsk fræði, sjúkraþjálfun og rafmagns- og tölvuverkfræði er meðal þess sem þau munu fást við í skólanum.

Háskóli unga fólksins hefur verið starfræktur í tvo áratugi og heldur því upp á 20 ára afmæli sitt með pomp og prakt síðasta skóladaginn með veglegri afmælisköku, grillveislu og uppblásnum útileiktækjum. 

Í Háskóla unga fólksins kynnast fróðleiksfúsir og fjörugir krakkar alls kyns vísindum og fræðum út frá ýmsum spennandi og skemmtilegum sjónarhornum en áherslan er á lifandi miðlun og virka þátttöku nemenda.

Nemendur gátu valið á milli 35 námskeiða í 14 ólíkum stundatöflum að þessu sinni. Í þeim er að finna námskeið af öllum fræðasviðum Háskóla Íslands, í félagsvísindum, hugvísindum, menntavísindum, heilbrigðisvísindum, verkfræði, raun- og náttúruvísindum og þverfræðilegum greinum.
Meðal annars er boðið upp á stundatöflu þar sem jafnólík viðfangsefni og lögfræði, heimspekin og manneskjan, efnafræði, sköpun og stafræn tækni, skurðlækningar, ævintýri orðanna og lyfjafræði koma við sögu og aðra þar sem nemendur kynnast tómstunda - og félagsmálafræði, þjóðfræði og skrímslum, kynjafræði, tölvutækni og forritun og geðheilbrigði og tilfinningum. 

Kennsla fer fram kl. 9:00 - 12:30 og aðallega í tveimur byggingum skólans, Öskju og Odda. Nemendur sækja tvö námskeið hvern dag að undanskildum miðvikudeginum 12. júní, en þá verja þeir öllum tímanum í tiltekinni grein í svokölluðu þema sem er mismunandi eftir stundatöflum og þá er oft farið eitthvað á stúfana. Háskóla unga fólksins lýkur svo með afmælisveislu og lokahátíð í hádeginu 14. júní.

Kennsla í Háskóla unga fólksins er að mestu í höndum vísindamanna og nemenda við Háskóla Íslands.
Hægt verður að fylgjast með skólastarfinu bæði hér á vefsíðu skólans og Facebook-síðu hans
 

Image