Nemendur í tölvuleikjahönnun fóru í vettvangsferð til tölvuleikjafyrirtækisins CCP í Grósku þar sem þau fengu kynningu á fyrirtækinu og hittu fólk sem vinnur við tölvuleikjagerð. Nemendur í íþrótta- og heilsufræði fengu að spreyta sig í æfingabraut í World Class og gera ýmsar áhugaverðar mælingar í Íþróttahúsi HÍ. Nemendur í alþjóðamálum fóru með rútu á varnarsvæðið í Keflavík og fengu þar að skoða stjórnstöðina og kynnast starfseminni þar. Í Mixtúru, sköpunar- og upplýsingatækniveri á Menntavísindasviði HÍ, voru nemendur í sköpunarhreyfingunni og stafrænni tækni m.a. að vinna með hugmyndir og hönnun með vínylskera og þrívíddarprentara.

Þá opnuðu Vísindagarðar Háskóla Íslands í Grósku dyr sínar fyrir nemendum í nýsköpun en þar hittu nemendur frumkvöðla, hlýddu á hvetjandi fyrirlestur og unnu með eigin hugmyndir. Í Vísindasmiðju HÍ í Háskólabíói kynntust nemendur dulkóðun og gerðu tilraunir með ljós og liti. Enn fremur hittust nemendur í leikjafræði og næringarfræði og gerðu spennandi tilraunir og þrautir tengdar báðum greinum. Víðar á háskólasvæðinu köfuðu aðrir hópar í ólík viðfangsefni eins og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, kínversk fræði, python-forritun og margt fleira.

Á morgun er síðasti dagurinn í Háskóla unga fólksins og þá sækja nemendur tvö námskeið. Lokahátíð og grillveisla hefst svo kl. 12.30 þar sem svangir nemendur fá pylsur, bæði hefðbundnar og grænmetis, fyrir framan Háskólatorg. Útileikir verða á grasflötinni fyrir framan Aðalbyggingu og þar verður einnig hægt að spreyta sig í ofurþrautabraut og á fussball-fótboltaborði.

Kristinn Ingvarsson, ljósmyndari Háskólans, fór einnig um víðan völl í dag og fangaði stemningu þema-dagsins.