Áhuginn skein úr augum þeirra ríflega 250 nemenda sem mættu í skólasetningu Háskóla unga fólksins á Háskólatorgi í morgun. Nemendurnir eru á aldrinum 12 – 14 ára og greinilegt að þau eru tilbúin í næstu fjóra daga sem einkennast munu af miklum fróðleik og fjöri með fræðimönnum Háskóla Íslands. Dagurinn hófst á því að nemendur fengu afhent námsgögn og þá hlýddu þau á Jón Atla Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Kristínu Ásu Einarsdóttur, skólastjóra Háskóla unga fólksins. Að því loknu var nemendum fylgt í tíma í Odda og Öskju þar sem kennslan fer fram.
Kristinn Ingvarsson, ljósmyndari Háskólans, var á ferðinni um háskólasvæðið í dag og myndaði bæði náms- og leikfúsa nemendur þennan fyrsta dag. Skoða má myndirnar með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.
Á morgun, þriðjudag, mæta nemendur beint kennslustofu samkvæmt stundatöflu. Við þökkum kærlega fyrir daginn og sjáumst aftur hress í fyrramálið.
Myndir úr Háskóla unga fólksins 2022