Skólasetningin Háskóla unga fólksins gekk glimrandi vel í morgun þegar ríflega 250 krakkar á aldrinum 12 - 14. ára mættu á Háskólatorg. Nemendur fengu afhent námsgögn og hlýddu á þau Jón Atla Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Kristínu Ásu Einarsdóttur, skólastjóra Háskóla unga fólksins.  

Skólinn var settur í nítjánda sinn í morgun en skólinn var settur á fót árið 2004 og brautskráðir nemar frá upphafi hátt í sex þúsund.  

Glaðbeitt og áhugasöm héldu ungu nemendurnir svo í sína fyrstu kennslustund í Odda og Öskju í fylgd starfsmanna skólans. Það er greinilegt að kominn er hugmyndaríkur og skemmtilegur hópur í Háskóla unga fólksins 2023.  Í fyrstu kennslustund fengust nemendur m.a. við nýsköpun, íþrótta- og heilsufræði, heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, réttarvísindi, lögfræði, stærðfræði, skurðlækningar og heimspeki og kvikmyndir.  

Næstu fimm dagar verða þéttskipaðir af fróðleik og fjöri með fræðimönnum Háskóla Íslands, en nemendur sækja námskeið af öllum sviðum Háskóla Íslands, í félagsvísindum, hugvísindum, menntavísindum, heilbrigðisvísindum, verkfræði, raun- og náttúruvísindum og þverfræðilegum greinum.  

Kristinn Ingvarsson, ljósmyndari Háskólans, var á ferðinni um háskólasvæðið í dag og myndaði bæði náms- og leikfúsa nemendur þennan fyrsta dag.  

Á morgun, þriðjudag, mæta nemendur beint í kennslustofu samkvæmt stundatöflu. Við þökkum kærlega fyrir daginn og sjáumst aftur hress í fyrramálið.   

Skoða má myndirnar með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.  

Myndir úr Háskóla unga fólksins 2023 

 

Image
""