Spenntir nemendur í fjórtan ólíkum hópum byrjuðu þemadaginn klukkan níu í morgun og héldu á vit töfraheima vísindanna.

Í þemanu hvað er að frétta? kynntust nemendur störfum fjölmiðlafólks og fengu að spreyta sig á tækjum og tólum sem fréttamenn nota í sinni vinnu. Þá var farið í heimsókn á RÚV þar sem nemendur fengu innsýn í þau fjölbreyttu störf sem fjölmiðlafólk fæst við þar. 

Nokkrir nemendur leystu tilbúna ráðgátu í Öskju eftir að hafa lært að nota tæknina við að skoða efnagreiningu og hvernig hægt er að nota hin ýmsu tæki og tól til hjálpar ráðgátulausna.

Í Veröld - Húsi Vigdísar var sannkallað tungumálamaraþon og upplifðu nemendur til að mynda galdurinn í samskiptum yfir landamæri, skoðuðu fegurð tungumála og gripu í grunnatriði í frönsku, þýsku, pólsku, latínu, spænsku og japönsku.

Einn hópur heimsótti höfuðstöðvar CCP sem er stærsta tölvuleikjafyrirtæki á Íslandi. Þar fengu þau að kynnast  fyrirtækinu, vinnuaðstöðu og að hitta fólk sem vinnur við tölvuleikjagerð.  

Í þema um mannréttindi spáðu nemendur í mannréttindi barna og ungmenna um víða veröld og fóru í heimsókn á Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar.

Á þemadegi Loftskeytastöðvarinnar hvað er að vera forseti? kynntust nemendur ævi og störfum Vigdísar Finnbogadóttur, fóru í bingó keppni í kringum ratleik og unnu í smiðjum með hin margvíslegu hugðarefni Vigdísar svo sem jafnrétti, menningu, tungumál, velferð barna og náttúruvernd.  

Í þema um kynja- og jafnréttisfræði hittu nemendur baráttufólk og sérfræðinga sem vinnur að jafnréttismálum á ýmsum sviðum.

Sköpun og stafræn tækni var í Mixtúru Stakkahlíð og þar fengu nemendur að spreyta sig á því að hanna, teikna og skera í vínilskera og geislaskera.

Í þema um undraheima Þjóðminjasafnsins var farið í rannsóknarleiðangur um safnið og staldrað við drekamyndir, kynjaskepnur og vætti. Svo var farið í vinnustofu þar sem myndir voru útfærðar með bleki og fjaðurstöfum, penslum og vatnslitum.

Hópurinn í íþróttaþema fór í hjólaferð á Klambratún þar sem hópurinn fékk kennslu í frisbígolfi. 

Ævintýraþyrstir krakkar í útikennslu og ævintýranám þemanu lærðu einfaldar aðferðir við að lifa af úti í náttúrunni í anda Robinsons Crusoe í Öskjuhlíð.  

Hjá Sævari Helga í þema um jörðina, tunglið og sólina fræddust nemendur m.a. um eldgos, handléku steina, skoðuðu sól- og tunglmyrkva, könnuðu flóð og fjöru og af hverju tunglið vex og dvínar.

Áhugasamir nemendur fóru í Landspítalann og fengu þar innsýn í fjölbreytt störf heilbrigðisstarfsfólks og fengu m.a. að spreyta sig í því að sauma og lækna gervisjúklinga.

Sjáið myndir frá deginum og allar myndir teknar þessa daga.

 

 

Image