Háskóli unga fólksins 2017
Háskóli unga fólksins var haldinn 12. - 16. júní 2017. Þetta ár voru það nemendur fæddir 2001-2005 (6.-10. bekk grunnskóla) sem áttu kost á því að sækja skólann heim.
Um 350 nemendur sátu námskeið í þeim fjölmörgu fögum sem boðið var uppá og hver og einn nemandi útbjó sína eigin stundatöflu með fjórum tvegga daga námskeiðum, þemadegi og tveimur örnámskeiðum.
Einnig var boðið upp á grillveislu, útileiki og fleira skemmtilegt.
Í lokin var haldin glæsileg lokahátíð í Háskólabíó þar sem allir fengu afhent viðurkenningarskýrteini fyrir þátttökuna. Þá var fjölskyldum boðið að taka þátt í vísindagleði þar sem hægt var að upplifa vísindin á lifandi og leikandi hátt.
Námskeið
Tveggja daga námskeið
Hvernig eigum við að bregðast við afbrotum? Hvernig vilja Íslendingar dæma í sakamálum? Eru refsingar á Íslandi of vægar?
Afbrotafræðin er ein grein félagsvísinda sem fæst við spurningar af þessu tagi. Fyrir nokkrum árum var gerð stór rannsókn á afstöðu borgaranna á Norðurlöndum til refsinga sem Ísland tók þátt í. Gerður var samanburður á því hvort almenningur og dómarar væru sammála um refsingar í tilteknum afbrotamálum. Stuðst var við símakönnun, póstlistakönnun, rýnihópa og dómarapanel.
Í námskeiðinu verður farið í helstu þætti rannsóknarinnar. Nemendur fá jafnframt tækifæri til að spreyta sig á nokkrum spurninganna og taka afstöðu til refsinga fyrir tiltekin afbrot.
Kennari:
- Helgi Gunnlaugsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.
Örnámskeið
Tónvísindasmiðjurnar eru eintök blanda af vísindum, tónlist og sköpun. Byggt er á smáforritum úr tónverki Bjarkar Guðmundsdóttur, Biophilia.
Þarna sameinast kraftar sjálfrar náttúrunnar, undraveröld tónfræðinnar og sköpunargleði nemenda.
Kennslan fer meðal annars fram með lifandi vísindatilraunum, tóndæmum og spjaldtölvum. Nemendur prófa að skapa sína eigin tónlist og taka virkan þátt í smiðjunum.
Umsjónarmenn:
- Ragna Skinner, tónmenntakennari
- Sævar Helgi Bragason, jarðfræðingur og formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness
Tveggja daga námskeið og örnámskeið
Í fréttum er þetta helst: Fréttamat og fréttaskrif
Á hverjum degi þurfa fréttamenn að velja úr fjölda upplýsinga og ákveða hvað er frétt og hvað ekki. Hvar finna þeir fréttirnar og hvernig vita þeir hvað er frétt og hvað ekki?
Á námskeiðinu verður fjallað um þetta og einnig hvernig á að skrifa fréttir. Nemendur spreyta sig á að skrifa fréttir og fá að prufa tól og tæki sem fréttamenn nota við vinnu sína, myndavélar og hljóðnema.
Kennarar:
- Stefán Drengsson
- Bára Huld Beck
- MA-nemar í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.
Tveggja daga námskeið og örnámskeið
Kynntar verða sýnitilraunir með ljós, þar sem fyrirbærin skautun, alspeglun, víxlun og bognun leika lykilhlutverk við að mynda skrautleg mynstur. Meðal tilraunanna verða: litaheimur límbandsins, mynstur UHU-límsins, mæling á hárþykkt og vatnsbunuljósleiðari. Þátttakendur fá tækifæri til að búa til eigin uppstillingar að sumum tilraununum.
Kennari:
- Ari Ólafsson, dósent við Raunvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði.
Tveggja daga námskeið og örnámskeið
Efnafræði fjallar um byggingu og eiginleika hinna ýmsu efna og hvernig efni hvarfast hvert við annað. Fræðigreinin er mjög stór og fjölbreytt því efni eru allt í kringum okkur. Allur matur, lyf, hreinsiefni, tölvur, sprengjur og jafnvel við sjálf erum gerð úr mismunandi efnum.
Í efnafræðinámskeiði Háskóla unga fólksins gera nemendur nokkrar áhugaverðar tilraunir og leysa skemmtileg verkefni. Unnið verður inni í kennslustofum efnafræðideildar þar sem nemendur fá að kynnast hinu spennandi umhverfi tilraunastofunnar og vinna sjálfir með efni og áhöld efnafræðinnar.
Til skoðunar verða efni sem allir ættu að þekkja úr umhverfinu, svo sem C-vítamín, vatn, edik og kerti. Við munum líka velta fyrir okkur af hverju blóm, grænmeti og ávextir hafa mismunandi liti og gera skemmtilega tilraun með liti.
Forvitnir krakkar verða ekki sviknir af þessu námskeiði.
Kennarar:
- Katrín Lilja Sigurðardóttir, stundakennari í efnafræði við Háskóla Íslands og forsprakki hins landsfræga Sprengjugengis
- Snædís Björgvinsdóttir, stundakennari í efnafræði við Háskóla Íslands.
Örnámskeið
Viltu læra nánar um hegðun eldfjalla og af hverju þau gjósa? Af hverju eru eldfjöll bara sumsstaðar í heiminum? Af hverju eru svona mörg eldfjöll á Íslandi?
Í þessu námskeiði munu nemendur læra um eðli eldfjalla og heðgun þeirra. Nemendur fá innsýn í fjölbreytileika ýmissa eldstöðva og helstu einkenni þeirra. Einnig verður fjallað um helstu verkefni eldfjallfræðinga og hvers vegna það er mikilvægt að rannsaka eldfjöll. Nemendur munu fá að skoða algengar afurðir úr eldgosum líkt og gjósku og hraun.
Kennarar:
- Alma Gytha Huntingdon-Williams
- Ingibjörg Andrea Bergþórsdóttir
- meistaranemar í eldfjallafræði við Háskóla Íslands
Örnámskeið
Langar þig að geta bjargað mannslífi? Bjargráður er félag læknanema um endurlífgun en markmið félagsins er að kenna krökkum og fullorðnum grunnatriðin í endurlífgun. Hvað eigum við að gera ef við komum að manneskju sem liggur á jörðinni? Hvað ef hún svarar ekki ef við köllum á hana? Hvað ef hún andar ekki? Við förum yfir öll þessi atriði og gerum það á skemmtilegan hátt svo engum ætti að leiðast á meðan lært er um þessi mikilvægu atriði sem geta hjálpað ykkur að bjarga mannslífi.
Kennarar:
- Félagar í Bjargráði, félagi læknanema við Háskóla Íslands
Örnámskeið
Hvað segja byggingar, gripir, bein og öskuhaugar okkur um fólkið sem lifði á Íslandi að fornu? Hvað upplýsingar getum við séð um líf einstaklinga út frá beinagrindum? Hvernig getum við aldursgreint minjar?
Í námskeiðinu fá nemendur að spreyta sig í verkefnum og skoða ýmislegt sem tengist fornleifafræðirannsóknum. Nemendur munu fræðast um hvað fornleifafræðingar gera í störfum sínum. Störf fornleifafræðinga eru fjölbreytt og rannsóknaraðferðir eru margar. Nemendur fá að kynnast íslenskri fornleifafræði og þeim rannsóknum sem stundaðar eru hér á landi og hvaða upplýsingar þær rannsóknir gefa okkur um fortíðina. Farið verður m.a. yfir hvernig fornleifar finnast á Íslandi, hvernig fornar mannvistaleifar líta út, hvernig fornleifar eru aldursgreindar og hverskonar upplýsingar fornleifar geta gefið okkur um fortíðina.
Fornleifafræði er spennandi vísindagrein og verður enn meira spennandi eftir námskeiðið.
Kennari:
- Hulda Björk Guðmundsdóttir, framhaldsnemi í fornleifafræði við Háskóla Íslands.
Örnámskeið
Hefur þú gaman af því að vinna við tölvur? Langar þig að skrifa forrit?
Java er oft kennt sem fyrsta forritunarmál nemenda og er mjög notendavænt. Á örnámskeiðinu munum við fara yfir nokkrar af helstu skipunum í Java og nota þær til að búa til lítið forrit. Engin fyrri kunnátta í Java eða forritun er nauðsynleg fyrir námskeiðið.
Kennari:
- Sóley Benediktsdóttir, BS nemi í tölvunarfræði við Háskóla Íslands
Tveggja daga námskeið
Í námskeiðinu verða hugmyndir sem breyttu heiminum skoðaðar til þess að koma auga á hvernig að það sem okkur þykir sjálfsagt í dag var einu sinni aðeins hugmynd á borði eða í huga. Skoðað verður hvernig að hugmyndir um fegurð, samskipti, grín og mat, svo dæmi séu tekin, verða að viðteknum hugmyndum sem þykja sem skrifaðar í stein þó svo að siðir og venjur annarra svæða séu gerólíkar.
Sumt sem þykir skrýtið í dag þótti einu sinni sjálfsagt. Eins og karlar á háum hælum. Sumt þykir sjálfsagt annars staðar á plánetunni sem þykir skrýtið hér, eins og vinir að leiðast út á götu.
Fræði og hugmyndir allar sem við lærum í skólum, lesum í bókum, sjáum í sjónvarpinu eða á Internetinu breyta því hvernig að við högum okkar daglega lífi, hverja við vingumst við og hvernig við tölum við hvort annað.
Námskeiðið byggist á samræðu nemenda um eigin líf, áhuga og dægurmenningu til þess að reyna að skoða hvaðan hugmyndirnar koma!
Kennari:
- Nanna Hlín Halldórsdóttir, doktorsnemi í heimspeki við Háskóla Íslands
Tveggja daga námskeið
Verkfræðileg verkefni leyst.
Heimurinn er fullur af verkfræðilegum verkefnum sem þarf að leysa. En hvað þarf til að leysa þau? Verkfræðingar styðjast við ákveðna hugmyndafræði sem þeir beita við lausn verkefna. Nemendur fá að kynnast hugmyndafræðinni og beita henni til að leysa verkefni.
Kennarar:
- Rúnar Unnþórsson, prófessor
- Guðmundur Valur Oddsson, lektor
- báðir viðIðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands.
Tveggja daga námskeið og örnámskeið
Japanskt mál og menning
Japönsk menning er um margt sérstök og ímynd landsins er jafnt tengd hátækni og hraða nútímasamfélags sem fornri menningu og hefðum.
Á námskeiðinu verður gluggað í sérkenni japanskrar menningar en sérstaklega verða tekin fyrir grunnatriði í japanskri tungu og nemendur læra ýmsar almennar kveðjur og grunnorðaforða. Sjónum verður einnig beint að hinu sérstæða ritmáli japönskunnar, hiragana og katagana, sem eru atkvæðisleturgerðir, og svo kanji, sem byggist á myndtáknum. Nemendum gefst einnig tækifæri til að skrifa nokkur tákn á hefðbundna vísu.
Kennari:
- Yayoi Mizoguchi, stundakennari í japönskum fræðum við Háskóla Íslands
Tveggja daga námskeið
Á námskeiðinu verða kennd grunnatriði í kínverskri tungu. Kenndur verður framburður og kynnt PINYIN-hljóðritunarkerfið, sem er grunnurinn að því að ná tökum á kínverskum framburði. Við æfum nokkra einfalda frasa og lærum að syngja einfalt lag á kínversku. Einnig verður kínverska ritmálið kynnt og nemendur fá að spreyta sig á að skrifa nokkur tákn og læra af hverju það er ekki eins erfitt og ætla mætti að lesa og skrifa þessi framandi myndtákn.
Við fræðumst um landið og staðhætti, menningu og árþúsunda langa sögu, ýmis þjóðarbrot, trúarbrögð og heimspeki. Í stuttu máli lærum við bæði um forna hámenningu og ótrúlega hraða nútímavæðingu þessa framandi menningarheims, en Kína er ekki aðeins fjölmennasta ríki veraldar heldur einnig næststærsta hagkerfi heims og það sem vex hraðast.
Kennarar:
- Magnús Björnsson MA, stundakennari og forstöðumaður Konfúsíusarstofnunarinnar Norðurljósa.
Tveggja daga námskeið og örnámskeið
Hvað þýðir að vera strákastelpa? En stelpustrákur? Er annað meira töff en hitt? Er karlmennska bara fyrir stráka og kvenleiki bara fyrir stelpur? Hvernig birtast staðalímyndir um kynin, fatlað fólk og hinsegin fólk? Af hverju er veruleikinn okkur alltaf sýndur með filter? Er einhver ein ímynd meira ráðandi en aðrar? Megum við vera eins og við viljum óháð kyni, stöðu og uppruna? Hvernig tengist þetta kynhneigð? Og hvað koma fornöfn málinu við?
Markmið kynjafræðikennslunnar í Háskóla unga fólksins er að færa nemendum tæki til þess að greina stöðu kynjanna og setja í samhengi við eigið líf. Fjallað verður um birtingarmyndir misréttis í samfélaginu m.a. út frá auglýsingum, samfélagsmiðlum, völdum og forréttindum, stjórnmálum, fordómum og ofbeldi. Einnig verður fjallað um tækifæri til andófs og breytinga.
Kennari:
- Svandís Anna Sigurðardóttir, kynjafræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands.
Örnámskeið
Er hægt að búa til bolla úr grjóti? Hvað ef maður malar grjótið mjög fínt, blandar við það smá vatni og mótar það svo? Finnst svoleiðis efni kannski í náttúrunni?
Í leirsmiðjunni ætlum við að skoða leir, hvernig hann verður til í náttúrunni og hvernig hægt er að grafa hann úr jörðinni og vinna. Er hægt að finna leir á Íslandi og væri svoleiðis leir kannski á einhvern hátt öðruvísi en útlenskur leir?
Við munum svo að sjálfsögðu leika okkur aðeins með mismunandi gerðir leirs, bæði jarðleir og steinleir, og prófa að móta hann með höndunum. Að lokum ætlum við að útbúa postulín, sem er sérstaklega hart og gott leirefni og búið til með því að blanda hvítum leir við önnur efni.
Kennari:
- Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur og kennari við Vísindasmiðju Háskóla Íslands
Örnámskeið
Kanntu að lesa myndmál? Hver er munurinn á tungumáli og myndmáli? Getur þú yfirfært myndmál í orð?
Á þessu námskeiði veltum við fyrir okkur áhrifum og möguleikum myndmáls sem miðils. Spáum í hlutverk listfræðingsins og kynnumst nokkrum leiðum til þess að túlka myndlist.
Farið verður stuttlega yfir sögu myndmálsins; allt frá hellamálverkum yfir til myndgreiningartækni sem Google notar til þess að koma upplýsingum á framfæri. Mynd segir meira en þúsund orð.
Kennari:
- Viktor Pétur Hannesson, myndlistarmaður og framhaldsnemi í listfræði við Háskóla Íslands
Örnámskeið
Á þessu námskeiði fá þátttakendur tækifæri til þess að skapa, túlka og tjá eigin hugmyndir og annarra, þar sem þátttakendur taka að sér hlutverk, lifa sig inn í aðstæður og taka sjálfstæðar ákvarðanir byggðar á hlutverki sínu. Þátttakendur fara í hlutverkaleik í ímynduðum heimi.
Kennari:
- Ása Helga Proppé Ragnarsdóttir, aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
Tveggja daga námskeið
Lyfjafræðin er fjölbreytt fag innan heilbrigðisvísindanna. Þar fara fram ýmsar rannsóknir, allt frá því hvaða efni hafa lyfjafræðilega virkni gagnvart ákveðnum sjúkdómi, hvernig þau eru sett saman (formúleruð) í endanlegt lyfjaform og síðan hvernig þau reynast sjúklingnum.
Þar sem lyfjafræðin tekur sífelldum breytingum þá verður fjallað um það hvert lyfjafræðin stefnir, frá apóteksframleiðslu yfir í lyfjafyrirtækin. Nemendur munu fá að kynnast ýmsum þáttum lyfjafræðinnar og hvað það þýðir að vera lyfjafræðingur. Nemendur einnig fá að kynnast vinnubrögðum í framleiðslu krema samkvæmt forskrift.
Kennari:
- Berglind Eva Benediktsdóttir, lektor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands
Tveggja daga námskeið
Kennsla og vettvangsferð í einn af leyndardómum Háskóla Íslands.
Hvað eru lög? Hvernig verða lög til? Af hverju förum við eftir lögum?
Til þess að geta svarað þessum spurningum þurfum við að skoða þá sem fara með valdið í landinu, hver gerir hvað og hvernig þessir valdhafar vinna saman. Hverjir dæma eftir lögunum og hvernig komast þeir að niðurstöðu? Eru lögfræðingar oft að elta glæpamenn eins og í Law and Order? Fjallað verður um grundvallaratriði lögfræðilegrar aðferðarfræði og hvernig finna má svör við hinum ýmsu spurningum sem vakna í daglegu lífi.
Nemendur eru hvattir til að taka virkan þátt og reynt verður að flétta spurningar þeirra inn í námskeiðið með því að leysa úr þeim með aðferðum lögfræðinnar.
Kennari:
- Elín Ósk Helgadóttir, lögfræðingur LL.M. og stundakennari við Háskóla Íslands
Örnámskeið
Hvað eru miðaldir? Hvað vitum við um þær og hvaða máli skipta þær fyrir nútímann?
Í námskeiðinu verður fjallað um hugtakið miðaldir, við hvað það á, hvaða heimildir eru til um það tímabil og hver munurinn er á íslenskum miðöldum og erlendum. Í Evrópu má víða sjá glæsilegar byggingar, kastala og kirkjur, sem reistar voru á miðöldum. Listasmíðar Íslendinga á miðöldum eru ekki jafnáberandi heldur samastanda af dýrmætum skinnhandritum sem varðveita merkilegar bókmenntir. Fjallað verður um þessar bókmenntir, ólíkar greinar þeirra, hverjir sömdu þær og af hverju.
Áhrif miðalda og miðaldabókmennta í gegnum aldirnar verða einnig skoðuð, sem og hvernig slíkt efni er notað í samtímanum, t.d. sem efniviður í sjónvarpsþáttum á borð við Vikings og Game of Thrones og kvikmyndunum um ofurhetjuna Þór.
Kennarar:
- Hildur Ýr Ísberg
- Ingibjörg Eyþórsdóttir
- doktorsnemar í Íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands
Örnámskeið
Menning og mannlíf Mið-Austurlanda er í senn margbrotið og heillandi. Í þessu námskeiði kíkjum við á minjar um forn menningarsamfélög, allt frá Súmerum og Egyptum fyrir þúsundum ára, og rennum yfir sögu, trúarbrögð og tungumál landanna, allt til dagsins í dag. Við skoðum sérstaklega íslam, uppruna þess og samfélög múslima.
Nemendur fá auk þessa skyndinámskeið í arabísku og geta spreytt sig á að skrifa nokkur orð með arabískum stöfum.
Kennari:
- Þórir Jónsson Hraundal, aðjúnkt við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands.
Tveggja daga námskeið og örnámskeið
Hvaða áhrif hefur maturinn sem við borðum og næringin sem við fáum úr honum á það hvernig okkur líður? Eykur morgunmatur minni og námsárangur? Er hægt að bæta árangur í íþróttum með hollu mataræði?
Í næringarfræði námskeiðinu „Vellíðan unglinga – áhrif matarins“ eru leystar ýmsar þrautir, verkefni og leikir sem svara þessum spurningum og ótal mörgum öðrum. Skoðað er hvaða næringarefni eru í matnum og hvaða áhrif þau hafa á líkamann okkar, líðan og árangur. Ráðleggingar um mataræði til að stuðla að vellíðan og heilbrigði eru kynntar. Búið ykkur undir líflegan tíma sem reynir á heilastarfsemina, bragðskynið, lyktarskynið og fleira!
Kennarar:
- Birna Þórisdóttir doktorsnemi í næringarfræði og stundakennari við Háskóla Íslands
- Þórhildur Guðjónsdóttir nemi í næringarfræði við Háskóla Íslands.
Örnámskeið
Rússland er langstærsta land í heimi og á sér langa og merkilega sögu. Á námskeiðinu verður sagt frá nokkrum helstu stjórnendum landsins og merkisatburðum í gegnum tíðina. Kynntir verða til sögunnar rithöfundar og tónskáld sem höfðu mikil áhrif um allan heim með verkum sínum, lesin stutt saga og hlustað á tónlist.
Farið verður yfir rússneska stafrófið, sem kallað er kyrillíska, og nemendur æfa sig í að bera fram stafina og skrifa nafnið sitt á rússnesku/kyrillísku.
Þá fá nemendur að spreyta sig á nokkrum einföldum rússneskum kveðjum og ávörpum sem gott er að kunna ef maður hittir rússneskumælandi fólk.
Kennari:
- Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands
Örnámskeið
Fjallað verður um byggingu DNA, breytileika á milli einstaklinga og þróun lífsins. Erfðaupplýsingar má nota á ýmsa vegu, til að greina faðerni, uppruna flensuveirunnar, lífsýni á glæpavettvangi og skyldleika þjóða og ólíkra tegunda.
Við skoðum áhrif sýklalyfja með ræktun baktería á agarskálum með og án sýklalyfja og ræðum þróun flensuveirunnar í því samhengi. Darwin og þróunarkenningin verður kynnt og hvernig hægt er að útskýra allan breytileika lífvera með hugmyndum þróunar.
Að lokum fá nemendur að einangra DNA úr jarðaberjum.
Kennari:
- Katrín Halldórsdóttir, PhD í stofnerfða- og þróunarfræði, Landspítala og Háskóla Íslands.
Örnámskeið
Félagssamskipti geta skipt sköpum úti í náttúrunni og sagt til um hvort dýrin finni sér, t.d. mat, maka, heimili, öryggi eða yfir höfuð lifi af. Leiðir dýra til samskipta eru oft æðifjölbreyttar og vekja gjarnan forvitni okkar mannanna.
Hversvegna eru samskipti svona mikilvæg mörgum spendýrum og það að tilheyra félagskerfi? Hvernig fara dýrin að því að „tala“ saman og tjá sig við hvort annað? Hvernig hafa félagssamskipti haft áhrif á þróun ýmissa spendýra, bæði líkamleg einkenni og atferlisfræðileg?
Í námskeiðinu munum við leita svara við þessum spurningum og mörgum fleiri. Við munum leggja áherslu á að kynnast spendýrum sem félagsverum og þörfum þeirra og aðferðum til samskipta.
Kennari:
- Edda Elísabet Magnúsdóttir, líffræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands
Tveggja daga námskeið
Að vera góður í samskiptum og kunna að vinna í hópi er talið skipta miklu máli fyrir líðan fólks og velgengni í lífinu.
Að læra og kenna samskipti á virkan hátt í gegnum leik er aðferð sem lengi hefur verið notuð í félagsráðgjöf. Hugmynd aðferðarinnar er rakin til John Dewey (1859-1952), en hann sagði að mikilvægt væri að læra á virkan hátt með því að framkvæma. Skoða svo eftirá hvað hafi gengið vel og hvað síður. Á þennan meðvitaða hátt verði lærdómurinn skiljanlegri fyrir þann sem nemur og skili betri árangri.
Í þessu námskeiði verður fjallað um einkenni hópa og góðra samskipta. Kenndar verða æfingar til þess að efla samskipti einstaklinga og hópa. Nemendur fá tækifæri til þess að skoða mismunandi leiðir til samskipta í gengum hópa- og samskipta æfingar.
Kennari:
- Hervör Alma Árnadóttir, lektor við Félagsráðgjafadeild, Háskóla Íslands
Sálfræði hugar og heila: Sjónskynjun og athygli
Tveggja daga námskeið
Á námskeiðinu verður fjallað um ný taugavísindi, með sérstaka áherslu á virkni sjónskynjunarinnar og athyglinnar. Það hefur komið betur og betur í ljós að við sjáum lítið af því sem við veitum ekki athygli. Notuð verða skemmtileg sýnidæmi til þess að varpa ljósi á þetta, meðal annars dæmi sem sýna fram á hversu ótrúlega blind við getum verið á stórar breytingar í sjónsviði, ef athygli okkar er bundin við annað.
Kennari:
- Árni Kristjánsson, prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands
Örnámskeið
Farið verður yfir þætti í skurðlækningum, bæði almennum skurðlækningum en einnig með áherslu á hjarta- og heilaskurðlækningar. Einnig verður farið yfir grunnþætti þess að sauma og hvað skurðlæknar þurfa að huga að dags daglega.
Kennarar:
- Sindri Aron Viktorsson, deildarlæknir við Landspítala Háskólasjúkrahús
- Andri Wilberg Orrason, deildarlæknir við Landspítala Háskólasjúkrahús
- Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir á Landspítala Háskólasjúkrahúsi
Dýralíffræði - Villt íslensk spendýr
Tveggja daga námskeið
Á námskeiðinu munu nemendur fræðast um líffræði íslenskra spendýra bæði á landi og í sjó. Fjölbreytileiki íslenskra landspendýra er ekki gríðarmikill, á því eru góðar skýringar sem fjallað verður um á námskeiðinu.
Aðeins eitt spendýr var hér á undan manninum en það er heimskautarefurinn og verða honum gerð góð skil á námskeiðinu enda stórmerkilegt og einstakt spendýr. Maðurinn hefur verið ábyrgur fyrir innflutningi annarra landspendýra sem nú finnast villt í íslenskri náttúru. Það eru minnkurinn, hagamúsin, húsamúsin, brúnrottan, kanína og hreindýr.
Einnig verður fjallað um hvítabjörninn sem hefur reglulega stigið hér á land við mismikinn fögnuð landsmanna. Þó svo að landspendýralíf sé nokkuð fábrotið er sjávarspendýralífið ákaflega fjölbreytt en hér við land er að finna þónokkrar selategundir og um 12 hvalategundir. Nemendur fá að kynnast undraheimi sjávarspendýranna sem er allfrábrugðinn heimi landspendýranna.
Kennari:
- Edda Elísabet Magnúsdóttir, líffræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands
Tveggja daga námskeið
Steinsteypa er mest nýtta manngerða efni í heiminum í dag og við sjáum hana nánast alls staðar í kringum okkur í daglegu lífi. Á Íslandi er steypa sérstaklega mikilvægt byggingarefni enda eigum við mikið af góðu hráefni í hana.
En úr hverju er steypa og hvað gerist nákvæmlega þegar hún er blönduð? Er hægt að nota hvaða efni sem er í steypuna eða þarf að vanda efnisvalið? Hvað skiptir mestu máli fyrir eiginleika steypunnar? Og er það rétt að Rómverjar hafi notað steypu með eldfjallaösku og hvað eru elstu steinsteypubyggingar í heimi?
Á námskeiðinu munum við leita svara við öllum þessum spurningum og fleiri til. Svo munum við prófa að blanda mismunandi gerðir af steinsteypu, sjá hana harðna við ólíkar aðstæður, prófa að brjóta hana í stórri pressu og steypa svo hluti í mótum, sem hægt verður að taka með heim.
Kennari:
- Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur og kennari við Vísindasmiðju Háskóla Íslands
Stjórnmál í dag: Hnattvæðing, lýðræði, samfélagsmiðlar og Donald Trump
Tveggja daga námskeið
Af hverju fjalla fjölmiðlar svona mikið um stjórnmál? Eru stjórnmálamenn alltaf að rífast? Hvað þýðir eiginlega lýðræði í dag? Vitum við nógu mikið um það sem er að gerast annars staðar í heiminum? Hvers vegna eru svona margir stjórnmálamenn með síður á Facebook, Twitter og öðrum samfélagsmiðlum? Af hverju vann Donald Trump forsetakosningarnar í Bandaríkjunum?
Í námskeiðinu spáum við í tengsl stjórnmála, poppmenningar, valds og frægðar. Fjallað verður um íslensk stjórnmál í dag og stöðu ungs fólks á Íslandi. Athyglinni verður einnig beint að alþjóðastjórnmálum. Hvað segja fjölmiðlar okkur um það sem er að gerast annars staðar í heiminum? Hvað ræður því hvað kemst á skjáinn? Fjölmiðlar spila stórt hlutverk í stjórnmálum í dag og fjallað verður um hvernig stjórnmálamenn nýta sér fjölmiðla til að koma sér og sínum stefnumálum á framfæri. Sumir ganga jafnvel svo langt að fá frægar poppstjörnur til að hjálpa sér að fanga athygli almennings og aðrir reyna að koma sér í sviðsljósið með því að segja eitthvað umdeilt á samfélagsmiðlum. Hvað segir þetta okkur um stjórnmál í dag? Stuðst verður við fjölbreyttar aðferðir í kennslunni, nemendur taka virkan þátt í námskeiðinu og stofna nýja stjórnmálaflokka.
Kennari:
- Jón Gunnar Ólafsson, alþjóðastjórnmálafræðingur, stundakennari við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og doktorsnemi við Goldsmiths, University of London.
Risaárekstrar og leitin að lífi í alheiminum
Tveggja daga námskeið
Hvernig varð alheimurinn til? Hvar finnum við svarthol? Hversu stór er Vetrarbrautin okkar? Hvað eru hulduefni og hulduorka?
Við leitum svara við þessum spurningum og fleirum sem tengjast stjörnunum og alheiminum á námskeiðinu.
Kennari:
- Sævar Helgi Bragason, jarðfræðingur.
Örnámskeið
Langar þig að reikna skemmtileg stærðfræðidæmi? Hefur þú gaman af því að hugsa út fyrir kassann?
Á námskeiðinu verður farið yfir Ólympíska stærðfræði og aðrar stærðfræðiþrautir sem hvetja til rökhugsunar. Ólympískar stærðfræðiþrautir byggjast á ýmsum greinum stærðfræðinnar svo sem flatarmálafræði, hornafræði, talningarfræði og ýmsu öðru skemmtilegu.
Kennari:
- Sóley Benediktsdóttir, BS nemi í tölvunarfræði við Háskóla Íslands
Tveggja daga námskeið og örnámskeið
Rannsóknir sýna að meðalmanneskja, sem lifir í 70 ár eyðir um 27 árum af lífi sínu í frítíma. Sem segir okkur það að við þurfum að nýta þennan tíma vel, bæði á uppbyggilegan hátt og til hafa gaman.
Aldur skiptir ekki máli þegar leikur er annars vegar, það geta allr leikið sér.
Í námskeiðinu verður tekist á við nýjar áskoranir og stígið út fyrir þægindarammann. Farið verður í spennandi leiki og skemmtileg verkefni unnin yfir daginn.
Kennarar:
- Birta Baldursdóttir
- Róshildur Björnsdóttir
- BA í tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands
Tveggja daga námskeið
Tölva vinnur úr upplýsingum með því að breyta alls kyns upplýsingum í tvenndartölur (tvenndartölur eru tölurnar núll og einn). Síðan eru framkvæmdar reikniaðgerðir á þessum upplýsingum til að taka ákvarðanir eða endurraða þessum tölum allt eftir tilgangi verksins.
Þetta námskeið er bóklegt og verklegt. Fyrri daginn er farið yfir grundvallarhugtök og nauðsynleg atriði til að hanna einfaldan samleggjara og seinni daginn hannar hver nemandi sinn samleggjara.
Kennari:
- Þjóðbjörg Eiríksdóttir, BSc. í rafmagnsverkfræði við Háskóla Íslands.
Örnámskeið
Langar þig að vita hvað við getum gert til að hjálpa jörðinni okkar sem er undir miklu álagi vegna hegðunar mannfólksins? Langar þig að vita hvað sjálfbærni, sjálfbærnimarkmið, efnishyggja og umhverfishyggja þýða?
Í námskeiðinu er ætlunin að ræða um jörðina, umhverfismál, gildismat, viðhorf og hegðun ungs fólks varðandi neyslu. Sérstaklega verður fjallað um ferðamáta, fæðuval, endurvinnslu og siðræna neyslu.
Nemendur geta tekið virkan þátt með því að velta upp hvernig bæta má ástand í umhverfismálum, en það skiptir máli fyrir framtíð okkar allra.
Kennarar:
- Lára Jóhannsdóttir, lektor í umhverfis og auðlindafræði við Háskóla Íslands
- Soffía Svanhildar Felixdóttir, meistaranemi í umhverfis og auðlindafræði við Háskóla Íslands.
Örnámskeið
Viltu læra að búa til líflegar vefsíður með myndum og mismunandi útliti sem líta vel út í símum, spjaldtölvum og fartölvum? Viltu læra hvernig vefumhverfi virkar og hvað HTML, CSS og JavaScript merkir og hvernig það er notað í vefsmíði til að segja til um uppsetningu, útlit og virkni? Viltu læra að búa til vefsíður sem spila hljóð og myndbönd?
Á þessu námskeiði þá förum við yfir hvernig við skrifum vefsíður frá grunni og líka hvernig við endurblöndum vefsíður frá öðrum og breytum þeim eins og við viljum. Við notum verkfærið Thimble sem gerir okkur kleift að skrifa vefsíðu beint inn í vafra og sjá samstundis hvernig hún kemur út á vef, gera breytingar og laga og gefa vefsíðuna svo út á vef þegar við erum ánægð.
Enga forkunnáttu þarf og allir búa til vefsíður sem þeir geta sýnt á vefnum og haldið áfram með þegar heim er komið.
Kennari:
- Salvör Gissurardóttir, lektor í upplýsingatækni við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
Tveggja daga námskeið og örnámskeið
Getur rokið okkar loksins gert eitthvað gagn?
Vindorka hefur á síðastliðnum áratugum verið að ryðja sér til rúms og nú rísa vindmyllur um allan heim og seinast hér á Íslandi. Öll þekkjum við af eigin raun hve mikill kraftur vindsins er og því er spennandi að hugsa til þess að hægt sé að nýta hann.
En af hverju snúast vindmyllur þegar vindurinn blæs? Hvernig verður rafmagn til úr náttúruöflum? Hvað eiga vindmyllur skylt við flugvélar?
Í þessu námskeiði skoðum við hvernig rafmagn er búið til úr náttúruöflunum og sérstaklega hvernig vindmyllur beisla vindorkuna. Nemendur fá síðan tækifæri til þess að hanna, útfæra og smíða sína eigin vindmylluspaða og prófa getu þeirra með aflmælingu.
Kennarar:
- Baldur Brynjarsson, stundakennari við Raunvísindadeild Háskóla Íslands
- Aðalheiður Guðjónsdóttir, MS-nemi í Iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands
- Baldur Helgi Þorkelson, BSc-nemi í Umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands.
Tveggja daga námskeið
Hver er erfiðasta spurning í heimi?
Krakkar og unglingar hafa frá upphafi verið duglegustu spyrjendurnir á Vísindavefnum. Nú býðst þeim sem skrá sig í Háskóla unga fólksins að setjast hinum megin við borðið og svara spurningum um allt milli himins og jarðar! Á námskeiðinu fáið þið að vinna saman tvö og tvö í tölvuveri undir leiðsögn kennara.
Öll svör sem þið skrifið verða birt á Vísindavefnum í sérstökum flokki sem heitir Unga fólkið svarar. Í lok námskeiðsins verður farið í skemmtilegan spurningaleik.
Á Vísindavef Háskóla Íslands – visindavefur.hi.is – getur hver sem er fengið svör við næstum því hverju sem er. Þar er núna að finna svör við um 10.000 spurningum, meðal annars þessum hér: Hvernig getur alheimurinn verið endalaus? Er hægt að senda fólk á milli staða með teleport-vél? og Hver er erfiðasta spurningin í heiminum?
Kennarar:
- Jón Gunnar Þorsteinsson, bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins, og fleiri.
Þemadagar
Hvalirnir í Faxaflóa — Hvalafræðsla og hvalaskoðun
Á námskeiðinu fara nemendur í hvalaskoðunarferð út á Faxaflóa þar sem fræðst verður um líf og undur hvalanna við Ísland. Faxaflói er heimkynni nokkurra algengra hvalategunda en á sumrin leggur mikill fjöldi þeirra leið sína inn í Faxaflóa, þá einna helst í ætisleit.
Algengustu hvalategundirnar á þessum slóðum eru hrefnur, hnúfubakar, hnýðingar og hnísur. Á sumrin iðar Faxaflói af lífi og oft er mikið fuglager á fæðuslóðum hvalanna. Nemendur fá einnig tækifæri til að fylgjast með hinum fjölmörgu lundum sem búa, líkt og hvalirnir, í Faxaflóa á sumrin. Um borð fá nemendur tækifæri til að kynnast hvalarannsóknum sem stundaðar eru um borð í hvalaskoðunarbátum.
Dagurinn byrjar á fræðilegum hluta í kennslustofu. Eftir hádegi verður farið í hvalaskoðunarferðina og henni lýkur um klukkan 16 við hvalaskoðunarfyrirtækið Eldingu, Ægisgarði 7, 101 Rvk.
Mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og vera í viðeigandi skóbúnaði.
Kennari:
- Edda Elísabet Magnúsdóttir, doktorsnemi í líffræði við Háskóla Íslands.
Viltu læra með því að búa til hluti með stafrænni tækni, ræða við félaga þína um möguleika á því að nota tæknina og verða færari að nota tölvur til að hanna og skilgreina eigin framtíð? Menntunarhreyfingar eins og FabLab hreyfingin býður upp á tól og aðferðir til að gera það – að kynnast 21.aldar færni og skapa sér aukin tækifæri.
Þessi þemadagur fer fram í Fab Lab Reykjavík. Kynntar verða þær hugmyndir sem “maker”hreyfingin byggir á og spáð í hvaða þýðingu þær geta haft fyrir ykkur til framtíðar. Þið fáið kynningu á aðstöðu og tækjum, eins og vinýlskera, leiserskera og þrívíddarprentara, en getið líka prófað ýmsar aðferðir og unnið verkefni eins og tíminn leyfir.
Hægt verður að vinna með hugmyndir sem útfæra má í vínilskera, kveikjur fyrir leiserskurð og prenta litla hluti eða skannaða í þrívídd.
Þátttakendur mega gjarnan taka með sér gömul föt eða hluti sem þeir geta unnið með á námskeiðinu, s.s. trébretti eða flöskur. Gott er líka að taka með sér litla minnisbók til að taka nótur, ef þið viljið.
Nemendur mæta beint í Fab Lab Reykjavík sem er staðsett við Austurberg 5, 111 Reykjavík. Mæting kl. 9.00.
Kennarar:
- Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, kennari og doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
- Hafliði Ásgeirsson, tæknifræðingur
- Arnar Daði Þórisson, leiðbeinandi
Langar þig að smíða þinn eigin kappakstursbíl? Team Spark er hópur verkfræðinema sem unnið hefur að þróun, hönnun og smíði eins manns kappakstursbíls í vetur. Í sumar fer hópurinn út með rafknúna kappakstursbílinn TS17 (Laka) á keppnir á Ítalíu og í Austurríki.
Í námskeiðinu fá nemendur að kynnast því hvað þarf til þess að heill kappakstursbíll verði að veruleika, hvar á að byrja og að hverju þarf að huga. Nemendur fara sjálfir í gegnum hönnun og smíði á eigin kappakstursbíl og fá að rekast á hin ýmsu vandamál sem möguleiki er að reka sig á í ferli sem þessu. Unnið verður í kennslustofu verkfræðideildar og einnig í verklegu rými deilarinnar. Allir þeir sem hafa áhuga á kappakstursbílum, tækjum eða brennandi áhuga á krefjandi verkefnum ættu ekki að láta þetta framhjá sér fara.
Kennarar:
- Liðsmenn liðsins Team Spark við Háskóla Íslands.
Landnám í Reykjavík
Kennsla í Háskóla unga fólksins
Á þemadeginum verður gengið um miðborgina og staðir skoðaðir þar sem fornleifarannsóknir hafa farið fram. Nemendur fá að kynnast fornleifarannsóknum sem hafa staðið yfir og eru enn yfirstandandi í miðbænum.
Farið verður á Landnámssýninguna sem er staðsett á horni Aðalstrætis og Túngötu. Á sýningunni er fjallað um landnám í Reykjavík, sem er aðal þema dagsins. Á sýningunni fá nemendur m.a. að skoða glæsilegan skála og fjölmarga gripi. Við uppgröft á staðnum komu í ljós mannvistaleifar sem eru frá tímum landnáms Íslands og mögulega enn eldri. Eftir hádegi verður farið á sýninguna Sjónarhóll sem er í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík. Þar fá nemendur m.a. að spreyta sig við skriftir með tilskornum fjöðurstaf og heimalöguðu jurta- og krækiberjableki á sérverkað bókfell (kálfskinn).
Mikilvægt er að nemendur klæði sig eftir veðri og séu í viðeigandi skóbúnaði.
Kennari:
- Hulda Björk Guðmundsdóttir, framhaldsnemi í fornleifafræði við Háskóla Íslands.
Langar þig að kynnast leyndardómum tölvunnar?
Nú þegar heimurinn færist stöðugt hraðar inn í veröld hins stafræna, er forritun sí nauðsynlegra tæki til að fóta sig. Nemendur í tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði Háskóla Íslands ætla að kenna grunnþætti forritunar. Farið verður í einföld atriði Java forritunarmálsins og HTML vefforritunar.
Þá fá nemendur einnig að kynnast hugsanaferli forritara, spreyta sig á gagnvirkum æfingum og feta sín fyrstu spor í töfralandi tölvunnar. Hver veit nema við forritum lítinn leik?
Námskeiðið krefst ekki fyrri reynslu af forritun og því opið öllum þeim sem hafa minnsta áhuga á tölvum. Þemadeginum verður skipt jafnt milli HTML vefforritunar og Java málsins. Hemingur hópsins situr hverja umfjöllun í senn og skipta hóparnir svo um stöð eftir hádegismat.
Kennarar:
- Sóley Benediktsdóttir, BS nemi í tölvunarfræði við Háskóla Íslands
- Stefán Gunnlaugur Jónsson, BS nemi í hugbúnaðarverkfræði við Háskóla Íslands
Fréttavinnsla og heimsókn í Ríkisútvarpið. Nemendur setja sig í spor fréttamanna og prófa sitt eigið fréttanef!
Á Háskólasvæðinu er mikið að gerast og fara nemendur um svæðið sem fréttamenn og þefa uppi áhugaverð umfjöllunarefni sem þeir vinna sjálfir fréttir um. Fréttir nemenda verða birtar á þessum vef.
Einnig fara nemendur í heimsókn í Ríkisútvarpið. Þar gefst tækifæri til að skoða hljóð- og myndver sjónvarpsins ásamt því að skoða aðra króka og kima hússins. Nemendur hitta einnig frétta- og dagskrárgerðarmenn Ríkisútvarpsins og þeim gefst kostur á að spyrja þá spurninga um störf fréttamanna, fréttamat, beinar útsendingar og fleira.
Kennarar:
- Stefán Drengsson
- Bára Huld Beck
- MA-nemar í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands
Finnst þér mannslíkaminn áhugaverður? Langar þig að fræðast um heilbrigði og heilsu og kynnast spennandi viðfangsefnum heilbrigðisstarfsfólks?
Dagurinn hefst á sameiginlegum fyrirlestri þar sem við fáum innsýn í fjölbreytt starf læknisins. Þá tekur við hópavinna þar sem við skoðum ýmsar hliðar heilbrigðisvísinda. Við kynnumst til að mynda sálfræði og vinnum skemmtilegt verkefni í tengslum við hana, við hugum að tönnum og tannheilsu og fáum jafnvel að prófa borinn, og margt fleira spennandi.
Hlökkum til að sjá þig í Læknagarði.
Hvað er satt?
Hvað er sannleikurinn? Er hann yfirhöfuð til? Eða eru til margir “sannleikar”? Það er kannski satt að ég borðaði brauð með osti í gær en hvernig veit ég hvort það sé satt að brauð sé gott og hollt? Hvernig vitum við hvað er satt og hvað ekki á veraldarvefnum?
Ein af aðferðum heimspekinnar er að spyrja spurninga um allt mögulegt til þess að gera sér betur grein fyrir heiminum. Á þessum þemadegi ætlum við að velta fyrir okkur hvernig við vitum hluti, núna þegar upplýsingar flæða allt í kringum okkur! Við byrjum á því að skoða hvernig vísindi byggja upp staðreyndir með skemmtilegum vísindaleikjum.
Seinni hluta dags ætlum við koma auga á hvernig upplýsingar leynast víða í umhverfinu í gegnum óvænta leiki. Þá ætlum við í vettvangsferð þar sem fréttir og fjölmiðlar verða í fyrirúmi og fá svör við því hvernig við getum greint á milli traustverðugarfrétta og t.d. aprílgabbs!
Kennarar:
- Nanna Hlín Halldórsdóttir
- Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson
- doktorsnemar í heimspeki við Háskóla Íslands
Þegar kemur að jarðfræði er Ísland einn allra virkasti staður jarðar. Hér verða eldgos með örfárra ára millibili, jörðin titrar stöðugt undir fótum okkar og jöklar hafa grafið landið sundur og saman á síðustu milljónum ára. Á höfuðborgarsvæðinu er víða hægt að sjá merkilegar jarðfræðiminjar, gervigíga, fornar eldstöðvar, hraun og jökulminjar. Þessi fyrirbæri segja öll sína sögu og það er því upplagt að skoða þau betur til að fá góða innsýn í jarðfræði landsins.
Á þemadegi í jarðvísindum verður farið í dagsferð með rútu um höfuðborgarsvæðið og nágrenni þess og ýmis stórmerkileg og áhugaverð jarðfræðifyribrigði skoðuð. Hefur einhvern tímann gosið í borginni? Hvenær gengu jöklar síðast yfir höfuðborgarsvæðið, og mun það kannski gerast einhvern tímann aftur í framtíðinni? Hvaðan koma hraun, sem við sjáum víða á svæðinu? Nemendur og kennarar munu ræða þessar og margar fleiri spurningar fram og til baka og velta fyrir sér jarðsögu og myndun svæðisins á ferðinni.
Mögulega verður hluta af deginum varið í stutta gönguferð svo gott er að mæta í góðum skóm. Þátttakendur þurfa einnig að mæta í góðum útivistarfötum, tilbúnir fyrir hvernig veður sem er.
Kennarar:
- Snæbjörn Guðmundsson
- Sævar Helgi Bragason
- jarðfræðingar og kennarar við Vísindasmiðju Háskóla Íslands
Njótum lífsins!
Þér býðst að taka þátt í ævintýradegi þar sem allt getur gerst.
Á þessu námskeiði verður blandað saman lífsleikni, leiklist og gleði. Öllu er blandað saman í heitan pott, hrært vel í, suðan látin koma upp og bragðað á!
Þátttakendum verður boðið að vinna með skapandi aðferðum. Þeir kynnast nokkrum leikjum sem tengjast lífsleikni. Að því loknu verður lagt af stað í leiðangur, þátttakendur skapa sína eigin sögu, þar sem leiklist, tjáning, samræða og skapandi vinnubrögð fléttast saman. Seinni hluta dags búa þátttakendur til sitt eigið leikverk, það gera þeir með hlutum, myndum og texta sem þeir safna úr ýmsum áttum. Gleðin tekur síðan völdin þegar þátttakendur sýna verk sín.
Kennarar:
- Ása Helga Proppé Ragnarsdóttir, aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
- Hanna Ólafsdóttir, myndlistakona og lektor í listgreinum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
Kennsla og spennandi vettvangsferðir.
Hvað eiga mannréttindafrömuðirnir Mahatma Gandhi og Nelson Mandela sameiginlegt? Hvað ætli þeir hafi lært þegar þeir voru í háskóla?
Njóta allir sömu réttinda? Við munum skoða söguna og velta fyrir okkur þeim mannréttindum sem við höfum og hvernig við öðluðumst þau. Við munum spyrja okkur þeirra spurninga hvort við eða einhverjir aðrir þurfi frekari réttindi og hvað við getum gert til að afla þeirra. Við vitum að í gamla daga fór fólk í kröfugöngur, skrifaði greinar í blöðin og fleira til þess að ná fram réttindum. Er staðan önnur í dag? Er eitthvað annað sem hægt er að gera? Hvað með herferðir á internetinu? Hvernig má nota internetið til að ná fram réttindum – hvernig er það gert?
Farið verður í vettvangsferð til UM Women þar sem við ætlum að fræðast um það starf sem þar er unnið og hvernig Internetið er notað til þess að koma mikilvægum skilaboðum á framfæri.
Nemendur eru hvattir til að taka virkan þátt og reynt verður að flétta spurningar þeirra inn í efni þemadagsins.
Kennarar:
- Elín Ósk Helgadóttir, lögfræðingur LL.M. og stundakennari við Háskóla Íslands
- Ivana Anna Nikolic, BA nemi í lögfræði við Háskóla Íslands
Spáð verður í mannréttindi fólks um víða veröld og skiptingu auðs og valda. Meðal annars verða nútíma þrælahald og málefni flóttamanna skoðuð.
Grundvallarspurning er: Getum við gert eitthvað? Nemendur setja sig í spor þeirra sem búa við misjafnar aðstæður, skoða persónulegar sögur ungmenna sem hafa ekki sætt sig við stöðu mála og fara í vettvangsferð á Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar í Ráðhúsinu.
Kennari:
- Súsanna Margrét Gestsdóttir, sagnfræðingur og starfsþjálfari kennaranema við menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Landnámsmenn - Víkingar - Miðaldir - Innsýn í líf fólks á miðöldum. Þemadagur.
Hvernig sjá nemendur fyrir sér miðaldir? Hvenær voru miðaldir og hvað einkenndi þær? Hvaðan komu landnámsmennirnir til Íslands? Af hverju komu þeir – tengist það eitthvað miðaldamenningu í öðrum Evrópulöndum?
Í námskeiðinu veltum við vöngum yfir þessum spurningum og öðrum sem munu vakna og eru ofarlega í hugum nemenda sjálfra. Skoðað verður hvað var líkt og hvað ólíkt með Íslandi og Evrópu á miðöldum – og einnig hvort Norðurlönd og syðri hluti Evrópu áttu einhver sameiginleg einkenni.
Helsti arfur Íslendinga frá miðöldum eru handritin sem eru talin til þjóðargersema okkar og eru á heimsminjaskrá UNESCO. En það sem í þeim stendur er ekki síður merkilegt: Þar er að finna kvæði um forn trúarbrögð og sögur sem eru lykill að miðöldum hér á landi. Margar þeirra eru sameiginlegur arfur Norðurlandaþjóðanna. Á síðustu árum hafa verið gerðar kvikmyndir og sjónvarpsþættir sem tengjast víkingatímanum og miðöldum sem byggja að einhverju leyti á þessum sögum. Þar má nefna t.d. kvikmyndir um guðinn Þór og þættina Game of Thrones og Vikings.
Við munum sjá brot úr kvikmyndum og þáttum, fara á Þjóðminjasafnið og skoða gripi, vopn og aðra muni sem hafa fundist í jörð sem segja okkur margt um daglegt líf fólks. Einnig munum við velta fyrir okkur handritamenningu Íslendinga á miðöldum, og þeim sögum og heimildum sem þau varðveita um horfna menningu okkar. Markmiðið er að gefa nemendum innsýn í líf fólks á miðöldum og fræða þá um víkingatímann.
Kennarar:
- Hildur Ýr Ísberg
- Ingibjörg Eyþórsdóttir
- doktorsnemar í Íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands.
Íslensk stjórnmál í dag: Vald, jafnrétti og ungt fólk.
Á þemadeginum skyggnumst við bakvið tjöldin og skoðum hvað gerir pólitík svona spennandi og áhugaverða, fyrir konur, karla og alla aðra. Farið verður í vettvangsferðir í Ráðhús Reykjavíkur og Alþingishúsið þar sem nemendur fá að skoða sig um og ræða við borgarstjórann og alþingismenn.
Við veltum því fyrir okkur hvernig lýðræði virkar, hverjir fara með valdið í landinu og hvort gætt sé að jafnrétti í því. Einnig skoðum við hvaða leiðir ungt fólk hefur til að hafa áhrif á stjórnmál á Íslandi. Ýmsum spurningum verður velt upp um stjórnmál á Íslandi: Af hverju eru færri konur en karlar á þingi? Af hverju eru allir þingmenn hvítir og hvernig hentar þingsalurinn fyrir fólk með hreyfihömlun? Er margt hinsegin fólk á þingi? Hvað gerir mannréttindaráð Reykjavíkurborgar? Ætti ungt fólk að hafa meiri áhrif á íslenska pólitík?
Nemendur og kennarar fara yfir efni sem tengist vettvangsferðunum og flétta saman kynjafræði og stjórnmálafræði með skapandi hætti.
Kennarar:
- Svandís Anna Sigurðardóttir, kynjafræðingur, stundakennari við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og doktorsnemi við Háskóla Íslands
- Jón Gunnar Ólafsson, alþjóðastjórnmálafræðingur, stundakennari við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og doktorsnemi við Goldsmiths, University of London.
Tómstundir – Skiptir einhverju máli hvað við gerum í frítímanum?
Rannsóknir sýna að meðalmanneskja, sem lifir í 70 ár eyðir um 27 árum af lífi sínu í frítíma. Sem segir okkur það að við þurfum að nýta þennan tíma vel, bæði á uppbyggilegan hátt og til hafa gaman.
Aldur skiptir ekki máli þegar leikur er annars vegar, það geta allr leikið sér.
Í námskeiðinu verður tekist á við nýjar áskoranir og stígið út fyrir þægindarammann. Farið verður í spennandi leiki, hópefli og í vettvangsferð í Gufunes. Skemmtileg verkefni verða einnig unnin yfir daginn.
Kennarar:
- Birta Baldursdóttir
- Róshildur Björnsdóttir
- BA í tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands
Vettvangsferð á Sogssvæðið
Farið verður með rútu á Sogssvæðið þar sem Landsvirkjun rekur þrjár vatnsaflsstöðvar. Þar fer námskeiðið í vindmyllusmíði fram og auk þess verður Írafossstöð skoðuð og farið á nýja gagnvirka sýningu um rafmagn í Ljósafosstöð.
Vindorka hefur á síðastliðnum áratugum verið að ryðja sér til rúms og nú rísa vindmyllur um allan heim og seinast hér á Íslandi. Öll þekkjum við af eigin raun hve mikill kraftur vindsins er og því er spennandi að hugsa til þess að hægt sé að nýta hann.
En af hverju snúast vindmyllur þegar vindurinn blæs? Hvernig verður rafmagn til úr náttúruöflunum? Hvað eiga vindmyllur skylt við flugvélar?
Í þessu námskeiði munum við skoða hvernig rafmagn er búið til úr náttúruöflunum og sérstaklega hvernig vindmyllur beisla vindorkuna. Nemendur fá síðan tækifæri til þess að hanna, útfæra og smíða sína eigin vindmylluspaða og prófa getu þeirra með aflmælingu.
Kennarar:
- Baldur Brynjarsson, efnafræðingur og stundakennari við Háskóla Íslands
- Baldur Helgi Þorkelsson, nemi í umhverfis- og byggingaverkfræði við HÍ
- Harpa Ósk Björnsdóttir, nemi í rafmagnsverkfræði við HÍ
- Sólveig Ásta Einarsdóttir, nemi í rafmagnsverkræði við HÍ