Háskóli unga fólksins 2022

Háskóli unga fólksins 2022 var haldinn 13.-16. júní.

Hægt var að velja á milli 16 stundataflna. Hver stundatafla var með 6 námskeið og 1 þema.  

Alls voru sextán nemendahópar með 18 nemendum í.

Nemendur tóku tvö námskeið á dag, hvort um sig 90 mínútur. Fimmtudagurinn 15. júní var þemadagur. Þá voru nemendur í sama faginu allan daginn.

Skólinn stóð frá kl. 9:00 - 12:15 alla dagana.

Námskeið

Námskeið í 90 mín.

Hvað er stríð? Hver eru helstu orsök stríðs og hvernig byggjum við aftur upp samfélag eftir stríð?

Á þessu námskeiði kynnast nemendur helstu kenningum um stríð og hvað veldur ólgu í alþjóðastjórnmálum. Nemendur munu taka þátt í áhugaverðum æfingum til þess að auka skilning þeirra á stríði og uppbyggingu eftir stríð. Kennslan verður þannig blönduð með fyrirlestrum og heilmikilli þátttöku frá nemendum.

Þema í 180 mín.

Í þema fara nemendur með kennara sínum í spennandi vettvangsferð á varnarsvæðið í Keflavík.  Þar fá nemendur að skoða stjórnstöðina og kynnast starfseminni. Farið verður um svæðið, þoturnar skoðaðar og rætt við starfsfólk. Nemendur mæta í kennslustofu í upphafi dags og fara þaðan með kennara í rútu kl. 9:00.  Stefnt er að því að vera komin til baka í Háskóla Íslands kl. 12.15. Það er mjög mikilvægt að vera mætt kl. 8.50 í kennslustofuna þennan dag.  Nemendum er frjálst að taka með sér nesti.

Kennari:

 • Snæfríður Grímsdóttir, verkefnisstjóri hjá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín.

Efnafræði fjallar um byggingu og eiginleika hinna ýmsu efna og hvernig efni hvarfast hvert við annað. Fræðigreinin er mjög stór og fjölbreytt því efni eru allt í kringum okkur. Allur matur, lyf, hreinsiefni, tölvur, sprengjur og jafnvel við sjálf erum gerð úr mismunandi efnum.  

Í efnafræðinámskeiði Háskóla unga fólksins gera nemendur nokkrar áhugaverðar tilraunir og leysa skemmtileg verkefni. 
Til skoðunar verða efni sem allir ættu að þekkja úr umhverfinu, svo sem C-vítamín, vatn, edik og kerti. Notuð verður aðferð sem kallast títrun við að magngreina C-vítamín og vatn verður rafgreint og þannig brotið upp í frumefni sín, þ.e. súrefni og vetni.

Kennari:

 • Katrín Lilja Sigurðardóttir, aðjúnkt við Raunvísindadeild Háskóla Íslands og forsprakki hins landsfræga Sprengjugengis

Námskeið í 90 mín.

Hvernig myndum við okkur skoðanir?

Á námskeiðinu veltum við því fyrir okkur hvernig við myndum okkar skoðanir: hvað og hverjir hafa áhrif á skoðanamyndun okkar? Er mikilvægt að huga að skoðunum sínum? Hver er munurinn á skoðun og staðreynd? Hvernig vitum við hvað er satt?

Þessar spurningar skipta máli í nútímanum, þegar upplýsingar dynja á okkur úr öllum áttum, t.d. auglýsingar og falsfréttir.

En þetta eru líka heimspekilegar spurningar sem varða meira en bara það sem við vitum, eða höldum að við vitum. Skoðanir okkar hafa áhrif á annað fólk og þess vegna snerta þær líf okkar og samskipti við aðra. Siðfræði er sú grein sem fæst við siðferðilega breytni og spyr í hverju hið góða líf felst: hvað eigum við að gera, og hvernig lífi eigum við að lifa? Glíma okkar við hinn siðferðilega veruleika krefst siðferðilegrar dómgreindar, þar sem mikilvægt er að geta fært rök fyrir skoðunum sínum og ákvörðunum.

Í námskeiðinu munum við velta þessum spurningum fyrir okkur og æfa okkur í að rökræða um og beita gagnrýninni hugsun á siðferðið.

Kennari

 • Ellert Björgvin Schram, meistaranemi í heimspeki við Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín. 

Á námskeiðinu læra nemendur um heimsmarkmiðin 17, hvernig þau eru til komin og af hverju þau eru mikilvæg. Lagt verður upp með hópavinnu og leitað verður leiða til að hafa jákvæð áhrif á heiminn okkar og leggja okkar af mörkum gagnvart heimsmarkmiðunum.

Þema í 180 mín.

Farið verður ítarlegra í efnistökin hér að ofan.

Kennari

 • Tinna Rós Steinsdóttir, alþjóðlegur sérfræðingur í þátttöku barna

Námskeið í 90 mín. 

Tölvur eru allt í kring um okkur – ekki aðeins í formi hefðbundinna tölva heldur leynast þær einnig í símunum okkar, sjónvörpum, örbylgjuofnum, bílum og fjölda annarra heimilistækja. Tölvur knýja einnig áfram ýmis ferli og vélar á öllum mögulegum sviðum svo sem í viðskiptalífinu, iðnaði, heilbrigðisþjónustu, ferðaþjónustu og afþreyingu. Forritun felst í því að segja tölvum hvað þær eiga að gera með því að raða saman einföldum skipunum sem saman leysa ákveðið verkefni.

Þetta 90 mínútna námskeið fer yfir grunnatriðin í Python, einföldu en afar öflugu forritunarmáli sem auðvelt er að læra á en er jafnframt notað um allan heim til að leysa mörg flóknustu viðfangsefni vísindanna auk þess að keyra marga vinsælustu vefi heims. Við lærum grunninn sem þarf til að útfæra einföld reiknirit og prófum þau með því að láta forritin okkar teikna á skjáinn og fylgjast með því hvernig úttakið breytist þegar við leikum okkur með gildin og aðgerðirnar í forritunum okkar.

Þema í 180 mín.

Í þema námskeiði köfum við dýpra í gögnin og stýriskipanirnar sem búa að baki hvers forrits og skoðum hvernig einfaldur tölvuleikur virkar.

Kennari

 • Reyn Alpha Magnúsar, BS nemi í tölvunarfræði við Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín. 

Skapandi smiðja þar sem þátttakendur vinna í litlum hópum að því að búa til litla fígúru, tæki eða annað álíka úr einföldum efniviði auk ljósa, mótora eða skynjara sem tengd eru við Microbit tölvur. Tölvurnar eru svo forritaðar til að stýra rafbúnaðinum til að glæða smíðina lífi.

Engin þörf er á forþekkingu á föndri eða forritun en sköpunargleði er kostur.

Notaður verður myndrænn ritill sem auðvelt er að læra á, en reynslumeiri þátttakendur geta einnig notað JavaScript eða Python ef þau kjósa það heldur.

Þema í 180 mín.

Farið verður ítarlegra í efnistökin hér að ofan. Rúmari tímaramminn verður nýttur til að skoða fleiri skynjara til að bæta aukinni gagnvirkni við tæki þátttakenda.

Kennari

 • Martin Swift, eðlisfræðingur, starfsmaður Vísindasmiðjunnar og leiðbeinandi við Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín.

Hvað eiga íslensk orð eins og dóni, rusti, persóna, stíll og rassmalagestur sameiginlegt með íslenska nafninu Magnús og vörumerkinu Volvo? Hvað eiga þessi orð sameiginlegt með námsefni úr Hogwartsskóla: galdraþulum eins og cruciodensaugeoevanescoprotego?

Það sem er sameiginlegt er latína.

Latína var tungumál Rómverja og er merkilegt mál með langa sögu. Það varð heimsmál í fornöld og hélt velli sem heimsmál öldum saman eftir fall Rómaveldis, á sama tíma og rómönsku málin (ítalska, franska, spænska, portúgalska og rúmenska) urðu til úr henni og urðu sjálf heimsmál. Það má segja að latína sé eins konar lykill að evrópskri menningu.

Í Háskóla unga fólksins ætlum við að skoða hvers konar tungumál latína er og hvað í henni er kunnuglegt í nútímanum. Áherslan í þessu námskeiði er á tungumálið og nemendur kynnast því með því að læra að bera fram latínu, læra að kynna sig og tjá sig um ýmsa hluti auk þess að kanna aðeins tengsl málsins við íslensku og önnur mál.

Kennari

 • Hrefna Svavarsdóttir, BA nemi í íslensku við Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín. 

Viltu fá innsýn inn í líf og störf íþróttafræðings og kynnast hvernig hreyfing og svefn geta haft áhrif á heilsuna? Langar þig til að forvitnast um hvernig líkaminn bregst við æfingum og þjálfun?
 
Í íþrótta- og heilsufræðinámskeiðinu munum við fræðast um og framkvæma ýmsar áhugaverðar mælingar og reyna á alla vöðva líkamans. Verið því tilbúin í skemmtilegan og fróðlegan tíma þar sem við munum hreyfa okkur bæði úti og inni og því er mikilvægt að vera í viðeigandi fatnaði. 

Mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og vera í viðeigandi skóbúnaði.

Þema í 180 mín.

Í þema verður farið í vettvangsferð í World Class í Grósku þar sem hópurinn hittir meðal annars þjálfarann Benedikt Karlsson.  Notuð verða bæði inni og útisvæði til að gera áhugaverðar mælingar. Hvernig bregst líkaminn við æfingum og þjálfun? Hefur hreyfing áhrif á svefn og heilsu?  Ef þú hefur áhuga á íþróttaiðkun, góðri heilsu, útiveru, vexti, þroska og lífsstíl er þetta kjörið þema fyrir þig. 

Mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og vera í viðeigandi skóbúnaði.

Kennarar

 • Bergvin Gísli Guðnason, aðjúnkt við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
 • Ana Cristina Geppert, aðjúnkt við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín.

Japanskt mál og menning. 

Japönsk menning er um margt sérstök og ímynd landsins til jafns tengd hátækni og hraða nútíma samfélags sem og forn menningu og hefðum.  

Á námskeiðinu verður aðeins rýnt í sérkenni japanskrar menningar en sérstaklega verða tekin fyrir grunn atriði í japanskri tungu og munu nemendur læra ýmsar almennar kveðjur og grunn orðaforða. 

Sjónum verður einnig beint að hinu sérstæða ritmáli japönskunnar, hiragana og katagana, sem eru atkvæðisleturgerðir, og svo kanji, sem byggist á myndtáknum. Nemendum gefst einnig tækifæri til að skrifa nokkur tákn á hefðbundna vísu.

Kennari

 • Yayoi Mizoguchi, stundakennari í japönskum fræðum og MA nemandi í alþjóðlegu námi í menntunarfræði við Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín. 

Á námskeiðinu verða kennd grunnatriði í mandarín kínversku. Ritmálið verður kynnt og nemendur fá að prófa sig áfram að skrifa nokkur tákn og af hverju það er ekki eins erfitt og ætla mætti að lesa og skrifa þessi framandi myndtákn. Við lærum nokkrar setningar og að telja á kínversku. 

Við köfum líka aðeins inn í kínverska menningarheiminn sem Kína er svo þekkt fyrir - svo sem kínversku stjörnumerkin, kínverska matarmenningu, ferðalög, spreytum okkur á einföldum verkefnum og förum jafnvel saman í leik. 

Þema í 180 mín.

Á námskeiðinu verða kennd grunnatriði í mandarín kínversku. Ritmálið verður kynnt og nemendur fá að prófa sig áfram að skrifa nokkur tákn og af hverju það er ekki eins erfitt og ætla mætti að lesa og skrifa þessi framandi myndtákn. Við lærum nokkrar setningar, að telja og svo lærum við líka að nota app fyrir kínverska orðabók sem auðveldar allt! 

Í þema-námskeiðinu gefst okkur tími til að kafa aðeins dýpra inn í kínverska menningarheiminn sem Kína er svo þekkt fyrir - svo sem kínversku stjörnumerkin, kínverska matarmenningu, ferðalög, spreytum okkur á einföldum verkefnum og förum jafnvel saman í leik. 

Að lokum munum við útbúa plaköt þar sem nemendur fá frjálsar hendur til að festa Kína-þekkingu sína á blað.

Kennari

 • Þorgerður Anna Björnsdóttir, BA í kínverskum fræðum og verkefnisstjóri við Konfúsíusarstofnun Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín. 

Leikjafræði (eða ákvarðanafræði) fjallar um samskipti manna og annarra. Viðfangsefnið er ekki beint leikur heldur að greina hvernig og hvers vegna fólk og fyrirtæki taka ákvarðanir, með hliðsjón af líklegum afleiðingum gjörða þeirra.

Hvert sem viðfangsefnið er eiga líkön leikjafræðinga það sameiginlegt að í þeim er ákveðnu kerfi lýst með því að tiltaka:

 • hverjir taka ákvarðanir
 • hvaða valkosti þeir eiga
 • hvaða hagsmuna þeir eiga að gæta
 • hvaða upplýsingar þeir hafa
 • og hvaða leikreglur eru rammi samskipta þeirra.

Almennt er miðað við að aðilar taki rökréttar ákvarðanir sem miða að því að auka eigin velferð en það er þó ekki algilt. Sum áhugaverðustu líkön leikjafræðinnar gera ráð fyrir að stundum geri fólk mistök eða að það skilji leikinn ekki fullkomlega, það á t.d. við um hegðun neytenda og fyrirtækja. Með leikjafræði má t.d. skýra hvernig verðsamráð milli fyrirtækja geta komið og hvers vegna neytendur taka ákvarðanir sem að öllu jöfnu virðast ekki skynsamlegar.

Í námskeiðinu læra nemendur að greina ýmsa leiki og draga ályktanir um samskipti út frá afleiðingum ákvarðana. Þessum tækjum verður síðan beitt á raunveruleg dæmi varðandi ákvarðanatöku t.d. fyrirtækja og neytenda á markaði. Nemendur fá að sjálfsögðu að spreyta sig á nokkrum leikjum sjálf og ættu að námskeiði loknu að vera töluvert klókari en þeir voru áður.

Þema í 180 mín.

Í þema taka nemendur þátt í spennandi þrautum og tilraunum sem koma á óvart!  Hópurinn hittir annan áhugaverðan nemendahóp í Háskóla unga fólksins og þar verða gerðar spennandi tilraunir og þrautir á báða bóga. Búið ykkur undir skemmtilegan og áhugaverðan dag.

Kennari

 • Ágúst Arnórsson, hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands

Námskeið 90 mín.

Nýsköpun er undirstaða framfara og aukinnar verðmætasköpunar og snýst um aðskapa eða búa til eitthvað nýtt sem og endurbæta það sem þegar er til staðar. Talað er um að eitthvað sé nýsköpun þegar hugmyndinni eða endurbótinni hefur verið hrint í framkvæmd.

Á þessu námskeiði munum við taka hugmyndir okkar á næsta skref og vera þátttakendur í verðmætasköpun. 

Við munum læra skref fyrir skref hvernig við hrindum hugmynd okkar í framkvæmd, hvernig það er gert og hvað þarf að hafa í huga . Við munum þróa hugmyndir okkar, koma þeim á framfæri og gera áætlanir um framtíð hugmyndanna. 

Nýsköpun getur átt sér stað á ýmsum sviðum. Hún er mikilvæg í viðskiptum, öllu vísindastarfi, tækniþróun, stjórnunarstörfum, listum, menningu og svo að segja í öllu okkar umhverfi.

Þema í 180 mín.

Farið verður í spennandi vettvangsferð í Vísindagarða Háskóla Íslands í Grósku. Beggi Ólafs verður með erindið Vertu óstöðvandi og frumkvöðlar í Grósku segja frá því hvernig hugmyndir eru drifnar áfram.  Vísindagarðar er suðupottur nýsköpunar og leiðir framþróun og skapar virðisauka fyrir land og þjóð. Háskóli Íslands stofnaði Vísindagarða árið 2004 og eru þeir í sameiginlegri eigu Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar.

Kennari

 • Fida Abu Libdeh, frumkvöðull og mentor í AWE nýsköpunarhraðli fyrir konur hjá Háskóla Íslands.
  • Fida er einnig forstjóri og annar stofnenda GeoSilica. Hún er með grunnnám úr orku- og umhverfisverkfræði, með starfsheitið tæknifræðingur, auk meistaragráðu í viðskiptafræði, MBA

Námskeið í 90 mín. 

Uppáhalds maturinn minn

Í næringarfræði námskeiðinu „Uppáhalds maturinn minn“ er skoðað hvað stjórnar því hvað við veljum okkur borða og drekka og hvaða áhrif maturinn hefur á líkamann og hvernig okkur líður. Nemendur taka þátt í spennandi þrautum og tilraunum sem koma á óvart!  Búið ykkur undir líflegan tíma sem reynir á bragðskynið, lyktarskynið,heilastarfsemina og fleira!

Þema í 180 mín.

Í þema taka nemendur þátt í spennandi þrautum og tilraunum sem koma á óvart!  Í þema fá nemendur sjálfir að leika "vísindamenn" og leggja tilraunir og þrautir fyrir aðra. Hópurinn hittir annan áhugaverðan nemendahóp í Háskóla unga fólksins og þar verða gerðar spennandi tilraunir og þrautir á báða bóga. Búið ykkur undir það að klæðast í rannsóknarsloppana og setja ykkur í rannsóknar gírinn og upplifa skemmtilegan og áhugaverðan dag.

Kennari

 • Birna Þórisdóttir, doktor í næringarfræði og sérfræðingur hjá Heilbrigðisvísindastofnun Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín.

Réttarvísindi notast við ýmsar raungreinar til að svara lögfræðilegum spurningum. Réttarvísindi eru oftast notuð til að rannsaka glæpi og framkalla sönnunargögn sem hægt er að nota fyrir rétti í sakamálum. Í réttarvísindanámskeiði Háskóla unga fólksins kynnast nemendur mismunandi sviðum réttarvísinda og hvernig þau nýtast í dómsmálum. Áhersla verður lögð á rannsóknir á fingraförum, DNA, efnagreiningar og vettvangsrannsóknir. Nemendur fá einnig að skoða eigin fingraför og prufa að finna fingraför á mismunandi yfirborðum og í lok námskeiðs eiga nemendur að geta nýtt þekkingu sýna til að leysa ráðgátu.

Við biðjum nemendur að taka með einn lítinn hlut úr ruslinu að heiman í poka, við munum svo leita að fingraförum á hlutnum í tímanum. 

Þema í 180 mín.

Leysum ráðgátu!  Hér gefst meiri tími til að fara í vettvangsrannsóknir og setja sig í spor þeirra sem rannsaka glæpi. Finna sönnunargögn, rannsaka fingraför og greina gögn.  Nemendur skoða einnig eigin fingraför og finna fingraför annarra á ólíkum hlutum. Munið að koma með lítinn hlut úr úr ruslinu heima í poka.

Kennari

 • Adam Erik Bauer, réttarefnafræðingur á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín. 

Farið verður yfir þætti í skurðlækningum, bæði almennum skurðlækningum en einnig með áherslu á hjarta- og heilaskurðlækningar. Einnig verður farið yfir grunnþætti þess að sauma og hverju skurðlæknar þurfa að huga að dags daglega.

Athugið að sýnd eru myndbönd af skurðaðgerðum í námskeiðinu og það því ekki fyrir viðkvæma.

Þema í 180 mín.

Farið verður ítarlegra yfir efnistökin hér að ofan.

Kennari

 • Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir á Landspítala Háskólasjúkrahúsi, ásamt deildarlæknum.

Þema í 180 mín.

Viltu læra með því að búa til hluti með stafrænni tækni, ræða við félaga þína um möguleika á því að nota tæknina og verða færari að nota tölvur til að hanna og skilgreina eigin framtíð? Menntunarhreyfingar eins og sköpunarhreyfingin (e. maker movement, Fab Lab) bjóða upp á tækni, forrit og aðferðir til að gera það – til að kynnast 21. aldar færni og skapa sér aukin tækifæri.

Þessi þemadagur fer fram í Mixtúru sköpunar- og upplýsingatækniveri SFS í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í Stakkahlíð. Kynntar verða þær hugmyndir sem sköpunarhreyfingin (e. maker movement) byggir á og spáð í hvaða þýðingu þær geta haft fyrir ykkur til framtíðar. Þið fáið kynningu á aðstöðu og tækjum, eins og vinýlskerum og þrívíddarprenturum, en getið líka prófað ýmsar aðferðir og unnið verkefni eins og tíminn leyfir.

Þið munið vinna með hugmyndir ykkar: teikna og skera í vínilskera eða geislaskera, vinna með rafrásir, hanna eða móta í þrívídd, skanna sköpunarverkin og prenta – það er  að segja, prófa eitthvað af þessu.

Við hvetjum ykkur til að taka með ykkur notaða boli, buxur eða aðrar flíkur sem við gefum nýtt líf, einnig mælum við með að taka með sér litla minnisbók til að taka nótur, ef þið viljið.

Nemendur mæta beint í Mixtúru, sem er í húsnæði Menntavísindasviðs, í stofu K-101, Kletti, Stakkahlíð, 105 Reykjavík (gengið inn frá Stakkahlíð / Austurhlíð, hliðin sem snýr niður að Ísaksskóla).  Mæting er kl. 9.00. Þemadeginum lýkur kl. 12.15 í Stakkahlíð.

Kennarar

 • Alexía Rós Gylfadóttir, verkefnastjóri skapandi tækni í Mixtúru
 • Guðfinna Hákonardóttir, kennari og B.Ed. í grunnskólakennarafræði frá Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín.

Á námskeiðinu verður farið yfir mikilvæg skref sem þarf að hafa í huga þegar kemur að hönnun tölvuleikja. Nemendur fá aðgang að einfaldri útgáfu af tölvuleik sem þeir fá tækifæri til að gera eigin útfærslu á. Lögð er áhersla á tilraunir, skapandi hugsun og að þau sjái hvernig þeirra ákvarðanir geta haft áhrif á upplifun spilara á leiknum þeirra.

Nemendur fá að kynnast því að vinna með sérsmíðaðan hugbúnað til þess að gera uppfærslur á sinni hönnun, s.s. hljóði, hraðabreytingum, litum, ögnum (e. particles) og öðrum minni breytingum.

Leiðbeinendur námskeiðsins munu stuðla að einstaklingsmiðaðri kennslu til að mæta nemendum með ólíka reynslu og þekkingu á viðfangsefninu. Þannig geta allir prófað að dýfa litlu tánni í undraheima forritunar.

Þema í 180 mín.

Á þemadegi verður farið yfir allt grunnnámskeiðið og að því loknu er farið í vettvangsferð í höfuðstöðvar CCP í Grósku. CCP er stærsta tölvuleikjafyrirtæki á Íslandi. Þar fær hópurinn kynningu á fyrirtækinu, vinnuaðstöðu og að hitta fólk sem vinnur við tölvuleikjagerð.

Kennari

 • Henrý Þór Jónsson er starfandi grafík forritari hjá CCP og MS í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands. Í meistaranáminu lagði Henrý Þór áherslu á þróun hugbúnaðar og var lokaverkefnið fullbúinn tölvuleikur í leikjavélinni Unreal.

Aðstoðarkennari

 • Sædís Harpa Stefánsdóttir, listgreinakennari í grunnskóla í Kópavogi. Hún útskrifast í sumar með MT í kennslu list og verkgreina ásamt því að hafa lokið BA í tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands.

Námskeið í 90 mín. 

Skemmtilegt námskeið þar sem þátttakendur læra einfaldar aðferðir við að lifa af úti í náttúrunni í anda Robinsons Crusoe. Það þarf hugvit og áræði til þess að lifa af við erfiðar aðstæður.

Nemendur fá ýmis tækifæri til að kanna náttúruna í gegnum leik og starf. Farið verður í greiningu á lífríki nærumhverfisins, svo sem vatnalífvera, plantna og fugla. Farið verður í leiki sem efla samstöðu hópsins. Í lokin tendra þátttakendur varðeld sem notaður verður til þess að búa til gotterí.

Spennandi og skemmtilegt námskeið fyrir þá sem vilja læra að bjarga sér.

Kennslan fer fram úti og því mjög mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og vera í viðeigandi skóbúnaði.

Þema í 180 mín.

Skemmtilegt þema þar sem þátttakendur læra einfaldar aðferðir við að lifa af úti í náttúrunni í anda Robinsons Crusoe. Það þarf hugvit og áræði til þess að lifa af við erfiðar aðstæður. Í þema verður tíminn notaður úti til að kanna náttúruna í gegnum leik og starf. Nemendur fá að umgangast opinn eld og nýta hann til eldamennsku og farið verður í skemmtilega hópeflisleiki. Í Vatnsmýrinni er mikið lífríki, vatnalífverur, plöntur, gróðurfar og friðland fyrir fugla, farið verður um hana og tekið verður sýni úr vatninu og skoðað í smásjá. Vatnið í Tjörninni er til að mynda að miklu leyti komið úr Vatnsmýrinni. Spennandi og skemmtilegt þema fyrir þá sem áhuga á útiveru, leik og náttúrunni. 

Spennandi og skemmtilegt þema fyrir þá sem vilja læra að bjarga sér.

Kennsla fer fram úti og því mjög mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og vera í viðeigandi skóbúnaði.

Kennarar

 • Hrafnhildur Sigurðardóttir, B.Ed í grunnskólakennarafræði og í viðbótarnámi um útimenntun, ferðalög og útilíf við Háskóla Íslands
 • Ævar Aðalsteinsson, M.Ed í Tómstunda- og félagsmálafræði og verkefnastjóri í útinámi við Háskóla Íslands.

Þema í 180 mín.

Kynntar verða tilraunir með ljós, þar sem fyrirbærin skautun, ljósbrot, alspeglun, víxlun og bognun leika lykilhlutverk við að mynda skrautleg mynstur.  Meðal tilraunanna verða: litaheimur límbandsins, mynstur UHU-límsins, mæling á hárþykkt og vatnsbunuljósleiðari. Þátttakendur fá tækifæri til að búa til eigin uppstillingar að sumum tilraununum.

Dulkóðun. Í dulkóðunar smiðjunni leikum við okkur með alls konar dulmál og dulkóðun.  Við skoðum:

 • hvernig þau virka?
 • hvernig hægt er að senda leynileg skilaboð?
 • hvernig tákna megi texta og tölur?
 • og af hverju þetta skiptir okkur máli?

Nemendur mæta beint í Vísindasmiðjuna í Háskólabíó. Farið inn um inngang frá Hagatorgi.

Kennarar

 • Ari Ólafsson, fyrrum dósent við Raunvísindadeild Háskóla Íslands
 • Nanna Kristjánsdóttir, BS nemi í stærðfræði við Háskóla Íslands
 • Þorsteinn Elí Gíslason, eðlisfræðingur og BS nemi í hugbúnaðarverkfræði við Háskóla Íslands