Háskóli unga fólksins 2024

Háskóli unga fólksins 2024 var haldinn 10.-14. júní.

Nemendur gátu valið á milli 35 námskeiða í 14 ólíkum stundatöflum að þessu sinni. Í þeim voru námskeið af öllum fræðasviðum Háskóla Íslands, í félagsvísindum, hugvísindum, menntavísindum, heilbrigðisvísindum, verkfræði, raun- og náttúruvísindum og þverfræðilegum greinum.

Kennsla fór fram kl. 9:00 - 12:30. Nemendur sóttu tvö námskeið hvern dag að undanskildum miðvikudeginum 12. júní, en þá vörðu þau öllum tímanum í tiltekinni grein í svokölluðu þema sem var mismunandi eftir stundatöflum. Háskóla unga fólksins lauk svo með afmælisveislu og lokahátíð í hádeginu 14. júní.

Námskeið

Námskeið í 90 mín

Hvað eru fjölmiðlar og hvaða máli skipta þeir í samfélaginu? Hvað telst frétt og hvað eru falsfréttir? Hver er munurinn á því að vinna fréttir fyrir dagblöð, netmiðla og sjónvarp? Hvað gera fréttamenn og hvaða hlutverki gegna kvikmyndatökumenn og ljósmyndarar í fréttum? Þú færð svör við þessu og ýmsu fleiru í námskeiðinu en þú munt líka fá að spreyta þig á tækjum og tólum sem fréttamenn nota í sinni vinnu. 

Kennarar

  • Björn Gíslason, kynningar- og vefritstjóri á markaðs- og samskiptasviði Háskóla Íslands
  • Rafn Rafnsson, verkefnisstjóri við deild stafrænnar kennslu og miðlunar við Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín.

Langar þig að læra að tala á leynimáli og fræðast hvernig við getum sent skilaboð á milli manna með ýmsum hætti?

Dulkóðun er hluti af stærðfræði sem er svolítið öðruvísi en sú sem við lærum venjulega. Þetta skoðum við vel í þessari smiðju.  Þá skoðum við einnig nokkur dulmál, sögu þeirra og eiginleika.

Kennari

  • Nanna Kristjánsdóttir, BS nemi í stærðfræði við Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín

Efnafræði fjallar um byggingu og eiginleika hinna ýmsu efna og hvernig efni hvarfast hvert við annað. Fræðigreinin er mjög stór og fjölbreytt því efni eru allt í kringum okkur. Allur matur, lyf, hreinsiefni, tölvur, sprengjur og jafnvel við sjálf erum gerð úr mismunandi efnum.

Í efnafræðinámskeiði Háskóla unga fólksins gera nemendur nokkrar áhugaverðar tilraunir og leysa skemmtileg verkefni.

Til skoðunar verða efni sem allir ættu að þekkja úr umhverfinu, svo sem C-vítamín, vatn, edik og kerti. Notuð verður aðferð sem kallast títrun við að magngreina C-vítamín og vatn verður rafgreint og þannig brotið upp í frumefni sín, þ.e. súrefni og vetni.

Kennarar

  • Katrín Lilja Sigurðardóttir, aðjúnkt við Raunvísindadeild Háskóla Íslands og forsprakki hins landsfræga Sprengjugengis
  • Gunnhildur Diljá Gunnarsdóttir, nemandi í efnafræði við Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín

Í þessari smiðju læra nemendur um geðheilbrigði, grunnstoðir góðrar geðheilsu og merki þess að geðrænn vandi sé til staðar. Kynnt verða bjargráð sem nýtast til að efla eigin geðheilsu og úrræði sem standa til boða við geðrænum vanda. Við leggjum áherslu á að allar tilfinningar eru eðlilegar og því eðlilegt að tala um þær. Þá kennum við leiðir til að nálgast samtal um geðheilsu á heilbrigðan og uppbyggilegan hátt.

Í smiðjunni verður lagt upp úr virkri þátttöku nemenda og opinni umræðu.

Kennarar

  • Stjórnarmeðlimir Hugrúnar geðfræðslufélags, sem eru nemendur í félagsráðgjöf, hjúkrunarfræði, læknisfræði og sálfræði við Háskóla Íslands.

Námskeið í 90 mín

Hvað er gervigreind og hvað er þetta ChatGPT sem er alltaf verið að tala um? Hvernig getum við nýtt okkur gervigreind til að létta okkur lífið og hvað þurfum við að varast? Gervigreind verður sífellt meira áberandi í samfélagsumræðunni enda getur hún gert ótrúlegustu hluti, allt frá því að skilja mannlegt mál yfir í að taka ákvarðanir sem stjórna flóknum ferlum innan fyrirtækja. Á námskeiðinu verður farið yfir það hvernig gervigreindin hefur þróast undanfarin ár og þau stórkostlegu tækifæri sem fylgja þeirri þróun. 
 
En gervigreindin er ekki gallalaus og það er grundvallaratriði að skilja hvaða hættur geta leynst í notkun hennar. Hvers vegna eru til dæmis snjallaðstoðarmenn eins og Siri, Alexa og Embla yfirleitt alltaf konur? Hvers vegna hætti Amazon við að nota gervigreind til þess að fara sjálfvirkt yfir starfsumsóknir hjá sér? Hvers vegna koma ítrekað fram dæmi þar sem gervigreindin sýnir fordóma og útskúfun tiltekinna hópa? Er hægt að koma í veg fyrir það? Hvernig getum við notað gervigreind á þannig hátt að það tryggi jafnrétti og öryggi allra sem að henni koma?
 
Auk þess að fara yfir helstu vefþjónustur er varða gervigreind fá nemendur í hendurnar einfaldan kóða sem opnar dyrnar að nokkrum íslenskum og erlendum gervigreindarlíkönum. Nemendurnir aðlaga kóðann að sínum óskum með hjálp kennara. Engin fyrri reynsla af tækni eða forritun nauðsynleg. Námskeiðið hentar öllum, bæði tæknitröllum og forvitnum nýgræðingum. Öllum gefst tækifæri til þess að kanna undraheima gervigreindar með einstaklingsmiðaðri aðstoð.

Kennari

  • Steinunn Rut Friðriksdóttir, MA í máltækni og doktorsnemi í tölvunarfræði við Háskóla Íslands

Þema í 180 mín

Finnst þér mannslíkaminn áhugaverður? Langar þig að fræðast um heilbrigði og heilsu og kynnast spennandi viðfangsefnum heilbrigðisstarfsfólks?

Þemadagurinn fer fram Landspítala Háskólasjúkrahúsi.  Nemendur fá innsýn í fjölbreytt störf heilbrigðisstarfsfólks og fá tækifæri til þess að skoða hinar ýmsu hliðar heilbrigðisvísinda.

Landspítali Háskólasjúkrahús er leiðandi sjúkrahús á Íslandi og stærsti vinnustaður starfsmanna í heilbrigðiskerfinu.

Athugið að sýnd eru myndbönd af skurðaðgerðum og því ekki fyrir viðkvæma.

Kennarar

  • Starfsfólk á Landspítala Háskólasjúkrahúsi

Námskeið í 90 mín

Í þessu námskeiði kynnumst við heimspeki en heimspekin fæst við heiminn allan og tengsl manneskjunnar við hann.

Hvernig veit ég hvað er satt? Hvernig veit ég hvað er rétt og rangt? Hefur manneskjan einhvern tilgang?

Við lærum að hugsa á heimspekilegan hátt, beitum gagnrýninni hugsun og forvitnumst um lífið sjálft.

Kennari

  • Elsa Björg Magnúsdóttir, BA í heimspeki og viðbótardiplóma í kennslufræði framhaldsskóla frá Háskóla Íslands og MA í heimspeki frá King's College London.

Námskeið í 90 mín

Í þessu námskeiði skoða nemendur myndbönd sem ná yfir 360 gráður og tekin voru upp um borð í noskra skipinu Barbra á rannsókanrleiðangri til Íslands (Húsavík) og Svalbarða. Nemendur fá tækifæri til að prófa sýndarveruleikagleraugu (VR) og upplifa heim hvalanna neðansjávar um leið og þeir læria hvernig vísindafólk sem rannsakar hvali vinnur.

Kennarar

  • Marianne Helene Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Húsavík. 
  • Anna Selbmann, doktorsnemi í líffræði við Háskóla Íslands

Þema í 180 mín

Hvernig afla fréttamenn frétta og hvaða tæki nota þau? Á þessum þemadegi kynnast nemendur störfum fjölmiðlafólks og spreyta sig á tækjum og tólum sem fréttamenn nota í sinni vinnu. Þá verður farið í heimsókn á RÚV þar sem nemendur fá innsýn í þau fjölbreyttu störf sem fjölmiðlafólk fæst við þar.

Kennarar

  • Björn Gíslason, kynningar- og vefritstjóri á markaðs- og samskiptasviði Háskóla Íslands
  • Rafn Rafnsson, verkefnisstjóri við deild stafrænnar kennslu og miðlunar við Háskóla Íslands

Þema í 180 mín

Á þemadegi Loftskeytastöðvarinnar ætlum við annars vegar að kynnast ævi og störfum eins ástsælasta forseta okkar, Vigdísar Finnbogadóttur og fara í bingó keppni í kringum ratleik á sýningunni og hins vegar munum við vinna í smiðju með hin margvíslegu hugðarefni Vigdísar svo sem jafnrétti, menningu, tungumál, velferð barna og náttúruvernd.

Kennarar

  • María Th. Ólafsdóttir, forstöðumaður Loftskeytastöðvarinnar
  • Anna Diljá Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Loftskeytastöðvarinnar

Námskeið í 90 mín

Viltu fá innsýn inn í líf og störf íþróttafræðings og kynnast hvernig hreyfing og svefn geta haft áhrif á heilsuna? Langar þig til að forvitnast um hvernig líkaminn bregst við æfingum og þjálfun?
Í íþrótta- og heilsufræðinámskeiðinu munum við fræðast um og framkvæma ýmsar áhugaverðar mælingar og reyna á alla vöðva líkamans. Verið því tilbúin í skemmtilegan og fróðlegan tíma þar sem við munum hreyfa okkur bæði úti og inni og því er mikilvægt að vera í viðeigandi fatnaði.
 
Mikilvægt er að klæða sig í viðeigandi íþróttafatnað og skóbúnað, fyrir inni og útiveru.

Kennari

  • Sigurður Skúli Benediktsson, aðjúnkt við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Þema í 180 mín

Í þema verður farið í hjólaferð á Klambratún þar sem hópurinn fær kennslu í frisbígolfi. Farið verður yfir það helsta sem þarf til þess að stunda frisbígolf sem íþrótt og afþreyingu. Hvernig kastar maður frisbígolf diskum og hvernig eru leikreglurnar? Ef þú hefur áhuga á íþróttaiðkun, góðri heilsu, útiveru og lífsstíl er þetta kjörið þema fyrir þig.
 
Nauðsynlegt er að mæta með hjól og hjálm. Klæða sig eftir veðri og vera í viðeigandi skóbúnaði.

Kennari

  • Sigurður Skúli Benediktsson, aðjúnkt við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín

Japanskt mál og menning. 

Japönsk menning er um margt sérstök og ímynd landsins til jafns tengd hátækni og hraða nútíma samfélags sem og forn menningu og hefðum.  

Á námskeiðinu verður aðeins rýnt í sérkenni japanskrar menningar en sérstaklega verða tekin fyrir grunn atriði í japanskri tungu og munu nemendur læra ýmsar almennar kveðjur og grunn orðaforða. 

Sjónum verður einnig beint að hinu sérstæða ritmáli japönskunnar, hiragana og katagana, sem eru atkvæðisleturgerðir, og svo kanji, sem byggist á myndtáknum. Nemendum gefst einnig tækifæri til að skrifa nokkur tákn á hefðbundna vísu.

Kennari

Yayoi Mizoguchi, stundakennari í japönskum fræðum og MA nemandi í alþjóðlegu námi í menntunarfræði við Háskóla Íslands

Þema í 180 mín

Á þemadeginum ætlum við að fjalla um Jörðina, tunglið og sólina. Á Jörðinni fræðumst við um eldgos og handleikum steina. Við skoðum sólmyrkva og tunglmyrkva, könnum flóð og fjöru og af hverju tunglið vex og dvínar. Loks skoðum við sólina, hvernig hún varð til og hvernig hún endar ævina. Ef veður leyfir förum við út í sólskoðun.

Kennari

  • Sævar Helgi Bragason, jarðfræðingur, bókahöfundur, dagskrárgerðarmaður og margverðlaunaður vísindamiðlari

Námskeið í 90 mín

Hvaða máli skiptir kyn? 

Af hverju eru karlar með hærri laun en konur og kvárar? Af hverju eru karlar í meirihluta á Alþingi? Og af hverju eru næstum allir hjúkrunarfræðingar konur og flestir forstjórar karlar? Af hverju gerir samfélagið misjafnar kröfur til okkar út frá kyni? Af hverju á sumt fólk svona erfitt með að læra að nota rétt fornöfn? Hvað er átt við þegar talað er um eðli kynjanna? Hvaða máli skiptir kynhneigð fyrir líf okkar í heild? Hvað með cís fólk, kvára og trans fólk? Fáum við skilaboð um hvernig við eigum að haga okkur vera eftir því hvaða kyni við tilheyrum eða erum talin tilheyra?

Námskeiðið fjallar um hvernig kynjafræðin skoðar þessi mál og mörg önnur. Hugmyndir fólks um hvað hæfir konum, körlum og kvárum, og hvað sé kvenlegt og karlmannlegt eru mikilvægir þættir í tilveru okkar og menningu. Í námskeiðinu veltum við fyrir okkur hvaðan hugmyndir okkar um kyn koma, og hvort hægt sé að breyta þeim.

Kennarar

  • Arnar Gíslason (hann), jafnréttisfulltrúi HÍ og doktorsnemi í kynjafræði við Háskóla Íslands
  • Valgerður Pálmadóttir (hún), hugmyndasagnfræðingur og nýdoktor hjá Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands

Þema í 180 mín

Í þema hittum við baráttufólk og sérfræðinga sem eru að vinna í jafnréttismálum á ýmsum sviðum. Þau segja okkur frá sinni vinnu, hvað þeim finnst mikilvægast að breyta í samfélaginu, og hvernig þau fara að því að ná fram breytingum.

Þemadagurinn hefst með undirbúningi, þar sem við búum til spurningar og ræðum hvað við viljum læra af gestunum. Svo vindum við okkur í umræður með okkar góðu gestum, og endum daginn á skemmtilegu verkefni. Ef þú hefur áhuga á jafnrétti og vilt læra að breyta heiminum, þá er þetta þemadagurinn fyrir þig!

Kennarar

  • Arnar Gíslason (hann), jafnréttisfulltrúi HÍ og doktorsnemi í kynjafræði við Háskóla Íslands
  • Valgerður Pálmadóttir (hún), hugmyndasagnfræðingur og nýdoktor hjá Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands

Þema í 180 mín

Á þemadaginn verður sýnikennsla í efnagreiningu og farið yfir hin ýmsu tæki og tól sem hægt er að nota. Ef veður leyfir verður gengið yfir í Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði í stutta heimsókn. Í lok dags nýta nemendur sýna nýju þekkingu til að leysa tilbúna ráðgátu. 

Réttarvísindi notast við ýmsar raungreinar til að svara lögfræðilegum spurningum. Þau eru oftast notuð til að rannsaka glæpi og framkalla sönnunargögn sem hægt er að nota fyrir rétti í sakamálum. Nemendur fá að kynnast mismunandi sviðum réttarvísinda og hvernig þau nýtast í dómsmálum. Áhersla verður lögð á rannsóknir á fingraförum, DNA, efnagreiningar og vettvangsrannsóknir. Nemendur fá einnig að skoða eigin fingraför og prufa að finna fingraför á mismunandi yfirborðum.

Kennari

  • Adam Erik Bauer, réttarefnafræðingur á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín

Lyfjafræðin er fjölbreytt fag innan heilbrigðisvísindanna. Þar fara fram ýmsar rannsóknir, allt frá því hvaða efni hafa lyfjafræðilega virkni gagnvart ákveðnum sjúkdómi, hvernig þau eru sett saman (formúleruð) í endanlegt lyfjaform og síðan hvernig þau reynast sjúklingnum.

Þar sem lyfjafræðin tekur sífelldum breytingum verður fjallað um það hvert lyfjafræðin stefnir, frá apóteksframleiðslu yfir í lyfjafyrirtækin. Nemendur munu fá að kynnast ýmsum þáttum lyfjafræðinnar og hvað það þýðir að vera lyfjafræðingur. Nemendur fá einnig að kynnast vinnubrögðum í framleiðslu á lyfjaformum.

Kennari

  • Bergþóra Sigríður Snorradóttir, sérfræðingur við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín

Kennsla og vettvangsferð í einn af leyndardómum Háskóla Íslands.

Hvað eru lög? Hvernig verða þau til og af hverju förum við eftir þeim? Hvaða hlutverki gegna Alþingi, handhafar framkvæmdarvalds og dómsvalds? Hvað gera lögfræðingar og hvernig lítur starfsumhverfi þeirra út?
Fjallað verður um grunnstoðir lögfræðinnar og hugmyndir okkar um lögin. Við veltum fyrir okkur af hverju við förum eftir lögunum og hvernig lögin snerta okkar daglega líf og athafnir. Við mátum dómaraskikkjur og ræðum raunveruleg álitaefni.

Nemendur eru hvattir til að taka virkan þátt í námskeiðinu og fá að spreyta sig á lögfræðilegum álitaefnum og máta sig í ýmis hlutverk lögfræðinga.

Kennari

  • Ivana Anna Nikolic, lögfræðingur hjá umboðsmanni Alþingis og stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands.

Þema í 180 mín

Spáð verður í mannréttindi barna og ungmenna um víða veröld, meðal annars með tilliti til nútíma þrælahalds, málefna flóttamanna og rétts barna til menntunar og góðs lífs.

Nemendur fá tækifæri til  að setja sig í spor þeirra sem búa við misjafnar aðstæður og skoða persónulegar sögur ungmenna sem hafa ekki sætt sig við stöðu mála. Grundvallarspurningin er: Getum við gert eitthvað?

Námskeiðinu lýkur með heimsókn á Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar.

Kennari

  • Súsanna Margrét Gestsdóttir, lektor við Deild faggreinakennslu Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín

Í þessu námskeiði skoðum við orð sem mynda setningar sem verða svo að bókum. Hvað þýða orðin okkar? Þýða þau alltaf það sama?

Í námskeiðinu rífum við í sundur texta og byggjum þá aftur upp frá grunni (klippa og líma). Við förum líka í alls kyns leiki og leikum okkur með tungumálið okkar.

Kennarar

  • Rakel Anna Boulter, BA í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands
  • Margrét Björk Daðadóttir, BA í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín

Öll rafmagnstæki, eins og t.d. spjaldtölvur, útvörp, sjónvörp og GSM-símar, byggjast á rafmagnsrásum. Í þessu námskeiði kynnast nemendur grundvallaratriðum í rafmagnsrásum og framkvæma verklegar æfingar þar sem m.a. samband straums og spennu er skoðað fyrir ýmsar rafmagnsrásir.

Kennarar

  • Jón Atli Benediktsson, rafmagns- og tölvuverkfræðingur og rektor Háskóla Íslands
  • Benedikt Atli Jónsson, doktorsnemi við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands.

Námskeið í 90 mín

Réttarvísindi notast við ýmsar raungreinar til að svara lögfræðilegum spurningum. Réttarvísindi eru oftast notuð til að rannsaka glæpi og framkalla sönnunargögn sem hægt er að nota fyrir rétti í sakamálum. Í réttarvísindanámskeiði Háskóla unga fólksins kynnast nemendur mismunandi sviðum réttarvísinda og hvernig þau nýtast í dómsmálum. Áhersla verður lögð á rannsóknir á fingraförum, DNA, efnagreiningar og vettvangsrannsóknir. Nemendur fá að skoða eigin fingraför og prufa að finna fingraför á mismunandi yfirborðum. Þar sem unnið er með fingrafaraduft er ekki mælt með að mæta í ljósum fötum.

Við biðjum nemendur að taka með einn lítinn hlut úr ruslinu að heiman í poka, við munum svo leita að fingraförum á hlutnum í tímanum. Glerílát, málmar og flöt yfirborð virka best.

Kennari

  • Adam Erik Bauer, réttarefnafræðingur á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín

Hefur þú áhuga á hreyfingu og líkamanum? Í námskeiðinu færðu innsýn í hvernig líkaminn virkar í tengslum við stoðkerfi og hreyfingu. Námskeiðið gefur innsýn inn í heim sjúkraþjálfunar og gefur þátttakendum tækifæri á að prófa alls kyns tæki og tól tengt starfi sjúkraþjálfara. Mikið verður lagt upp úr verklegri kennslu og hreyfingu og er mælt með því að klæða sig í viðeigandi fatnað og skóbúnað.

Kennari

  • Sóley Ásta Lóudóttir, meistaranemi í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín

Farið verður yfir þætti í skurðlækningum, bæði almennum skurðlækningum en einnig með áherslu á hjarta- og heilaskurðlækningar. Einnig verður farið yfir grunnþætti þess að sauma og hverju skurðlæknar þurfa að huga að dags daglega.

Athugið að sýnd eru myndbönd af skurðaðgerðum í námskeiðinu og það því ekki fyrir viðkvæma.

Kennari

  • Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir á Landspítala Háskólasjúkrahúsi, ásamt deildarlæknum.

Þema í 180 mín

Viltu læra að nota stafræna tækni til að búa til eitthvað nytsamlegt?

Í þessari smiðju munið þið vinna með hugmyndir ykkar: teikna og skera í vínilskera og geislaskera.

Kynntar verða þær hugmyndir sem sköpunarhreyfingin (e. Maker Movement) byggir á og spáð í hvaða þýðingu þær geta haft fyrir ykkur til framtíðar. Þið fáið kynningu á aðstöðu í sköpunar- og tæknismiðjum, og vinnið verkefni eins og tíminn leyfir.

Við hvetjum ykkur til að taka með ykkur notaða boli, taupoka, buxur eða aðrar flíkur sem við gefum nýtt líf, ef þið viljið. Það þarf að vera hitaþolið.

Smiðjan fer fram í Mixtúru sköpunar- og upplýsingatækniveri SFS í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í Stakkahlíð (gengið inn frá Stakkahlíð / Austurhlíð, hliðin sem snýr niður að Ísaksskóla). Mixtúra er í stofu K-101, Kletti. 

Kennari

  • Guðrún Gyða Franklín, verkefnisstjóri hjá NýMennt Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín

Hvað eru stjörnuhröp? Hafa loftsteinar fallið á Jörðina og ef svo, gæti það gerst aftur? Í námskeiðinu förum við fyrst í ferðalag um stjörnuhiminninn og síðan út í sólkerfið okkar. Við stoppum á skrítnum stöðum, veltum fyrir okkur hvort einhvers staðar gæti leynst líf fyrir utan Jörðina.

Kennari

  • Sævar Helgi Bragason, jarðfræðingur, bókahöfundur, dagskrárgerðarmaður og margverðlaunaður vísindamiðlari

Námskeið í 90 mín

Skemmtilegt námskeið þar sem þátttakendur læra einfaldar aðferðir við að lifa af úti í náttúrunni í anda Robinsons Crusoe. Það þarf hugvit og áræði til þess að lifa af við erfiðar aðstæður.

Nemendur fá ýmis tækifæri til að kanna náttúruna í gegnum leik og starf. Farið verður í greiningu á lífríki nærumhverfisins, svo sem vatnalífvera, plantna og fugla. Farið verður í leiki sem efla samstöðu hópsins. Í lokin tendra þátttakendur varðeld sem notaður verður til þess að búa til gotterí.

Spennandi og skemmtilegt námskeið fyrir þá sem vilja læra að bjarga sér.

Kennslan fer fram úti og því mjög mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og vera í viðeigandi skóbúnaði.

Kennarar

  • Ingveldur Ævarsdóttir, M.Ed í grunskólakennarafræði og í viðbótarnámi um útimenntun, ferðalög og útilíf við Háskóla Íslands
  • Ævar Aðalsteinsson, M.Ed í Tómstunda- og félagsmálafræði og verkefnastjóri í útinámi við Háskóla Íslands

Þema í 180 mín

Ferðalag á framandi tungumálum: Tungumáladagur í Veröld - Húsi Vigdísar.

Nemendur fá að upplifa töfrana í samskiptum yfir og milli landamæra. Komdu og skoðaðu fegurð tungumála og lærðu grunnatriði í frönsku, þýsku, pólsku, latínu, spænsku og japönsku í spennandi tungumálamaraþoni.

Kennarar

  • Sérfræðingar Mála- og menningardeildar Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín

Í tölvutækni og forritun munum við fara yfir helstu hugtök í forritunarmálum (if-, while- og forlykkjur o.fl.) og við munum beita þessari þekkingu á og æfa okkur með forritunarmálinu Scratch.

Scratch er skemmtilegt, fræðandi og sjónrænt forritunarmál og er tilvalið fyrir einstaklinga sem vilja byrja og skilja betur forritun.

Ada, Hagsmunafélag kvenna í upplýsingatækni við Háskóla Íslands, kemur að námskeiðinu.

Kennarar

  • Guðrún Ísabella Kjartansdóttir, BS nemi í tölvunarfræði við Háskóla Íslands
  • Nanna Kristjánsdóttir, BS nemi í stærðfræði við Háskóla Íslands

Þema í 180 mín

Á þessum þemadegi munum við fara í vettvangsferð í Grósku hugmyndahús og suðupott nýsköpunar á Íslandi. 

Í Grósku munum við fara í vettvangsferð í höfuðstöðvar CCP sem er stærsta tölvuleikjafyrirtæki á Íslandi.  Í CCP fáum við að kynnast  fyrirtækinu, vinnuaðstöðu og að hitta fólk sem vinnur við tölvuleikjagerð.

Þá skoðum við einnig aðstöðu og helstu byggingar Tölvunarfræðideildar Háskóla Íslands í Tæknigarði og Grósku.

Kennarar

  • Guðrún Ísabella Kjartansdóttir, BS nemi í tölvunarfræði við Háskóla Íslands
  • Nanna Kristjánsdóttir, BS nemi í stærðfræði við Háskóla Íslands

Þema í 180 mín

Undarheimar Þjóðminjasafnsins. Dagdraumar, drekar og pár á pappír.

Myndefni sem finnst á Þjóðminjasafninu verður innblástur fyrir myndsköpun.

Rannsóknarleiðangur um safnið, skissuteikningar. Staldrað verður við drekamyndir, kynjaskepnur og vætti.

Svo verður farið í vinnustofu þar sem myndirnar eru útfærðar. Notast verður við gæða pappír, blek og fjaðurstafi, pensla og vatnsliti.

Kennari

  • Anna Leif Auðar Elídóttir, safnkennari Þjóðminjasafns Íslands

Þema í 180 mín

Skemmtilegt þema þar sem þátttakendur læra einfaldar aðferðir við að lifa af úti í náttúrunni í anda Robinsons Crusoe. Það þarf hugvit og áræði til þess að lifa af við erfiðar aðstæður. Í þema verður tíminn notaður úti til að kanna náttúruna í gegnum leik og starf. Nemendur fá að umgangast opinn eld og nýta hann m.a. til eldamennsku. Einnig förum við í þrautir og byggjum skýli eða skjól úr náttúrulegum efnum.

Spennandi og skemmtilegt þema fyrir þá sem vilja læra að bjarga sér.

Kennsla fer fram úti og því mjög mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og vera í viðeigandi skóbúnaði.

Kennarar

  • Ingveldur Ævarsdóttir, M.Ed í grunskólakennarafræði og í viðbótarnámi um útimenntun, ferðalög og útilíf við Háskóla Íslands
  • Ævar Aðalsteinsson, M.Ed í tómstunda- og félagsmálafræði og verkefnastjóri í útinámi við Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín

Hvað eru skrímsli? Hvernig þekkjum við þau? Eru til íslensk skrímsli? Hvernig birtast skrímsli í bíómyndum og tölvuleikjum?

Í þessu námskeiði munum við skoða skrímsli út frá ýmsum sjónarhornum. Við munum velta fyrir okkur hvað það er sem einkennir skrímsli, ræða um helstu ógnvalda og furðuverur úr íslenskum þjóðsögum og velta því fyrir okkur hvernig ný skrímsli verða til t.d. í kvikmyndum og tölvuleikjum.

Þá munu nemendur einnig útbúa sitt eigið skrímsli. Nemendur hafa val um hvernig þau framkvæma verkefnið, taka upp stutta kvikmynd, skrifa sögu eða teiknimyndasögu, búa til plaggat, skúlptúr eða setja hugmyndir niður á blað og kynna.

Kennari

  • Dagrún Ósk Jónsdóttir, doktorspróf í Þjóðfræði frá Háskóla Íslands

Námskeið í 90 mín

Hvernig tengjast orðin Nike, panikk og Arion grískri goðafræði? Hvað hafa fyrirtækin Bónus, Volvo og Nova með latínu að gera? Hvaðan koma íslensku orðin úlfaldi, dóni, appelsína og stígvél? Tengist morgunsár meiðslum og hungursneyð brauðsneiðum? Fyrir hvað stendur G-ið í G-mjólk og af hverju tölum við um að einhver sé moldríkur eða að drumur sé í dós?

Með því að velta fyrir okkur orðunum sem við notum, og fletta kannski í orðabókum, koma í ljós áhugaverð svör við ýmsum spurningum sem þessum.

Í Háskóla unga fólksins ætlum við að skoða ýmsar birtingarmyndir tungumálsins og kanna uppruna orða sem við notum oft en þekkjum líklega ekki söguna á bak við. Við skoðum arfleið fornu tungumálanna latínu og grísku, því að jafnvel þótt tungurnar séu útdauðar og enginn tali þær lengur gætir áhrifa þeirra víða, meira að segja í íslensku.

Auk þess ætlum við að velta fyrir okkur almennum spurningum um tungumálið á borð við eftirfarandi: Hvernig verða ný orð til? Hver má búa til ný orð? Hvað er íslenska gömul og hvernig hljómaði sú íslenska sem Snorri Sturluson talaði? Gætum við spjallað við Egil Skallagrímsson ef við hittum hann úti á götu?

Kennari

  • Hrefna Svavarsdóttir, BA í íslensku frá Háskóla Íslands og framhaldsnemi í málvísindum.