„Vil leggja mitt af mörkum fyrir ungu kynslóðirnar,“ segir starfsmaður Háskóla unga fólksins sem einnig var nemandi við skólann þegar hann var yngri.

Stefán Kári Ottósson hefur verið starfsmaður Háskóla unga fólksins síðustu ár. Hann þekkir skólann ekki bara vel sem starfsmaður heldur var hann einnig nemandi við skólann fyrir áratug þegar hann var sjálfur strákur.

Við rétt náðum að stoppa hann af til að ná stuttu spjalli í miðju fjörinu í síðustu viku.

„Ég sótti Háskóla unga fólksins í þrú ár samfleytt á árunum 2012-2014 og fannst það alveg þvílíkt skemmtilegt. Ég var svo áhugasamur að ég fór á flest þau námskeið sem boðið var uppá. Þessi mikla fjölbreytni í námskeiðum fannst mér standa upp úr og skólinn hafði mikil og góð áhrif á mig,“ segir Stefán Kári.

Aðspurður segist hann hafa farið með nokkrum vinum sínum þarna um árið en að aðsóknin hafi verið svo mikil að þeir hafi oft ekki náð að skrá sig í sömu áfanga. „Eftir á að hyggja var það bara hið allra besta mál því í skólanum kynntist ég nokkrum nýjum vinum líka sem eru góðir vinir mínir enn í dag,“ segir Stefán Kári.

Hann segist taka sér árlega viku pásu frá öðrum störfum til þess að starfa við Háskóla unga fólksins. „Það geri ég ekki af fjárhagslegum ástæðum, ég fékk bara þetta frábæra tækifæri og þá finnst mér rökrétt að leggja mitt af mörkum fyrir nýju kynslóðirnar. Mér finnst eiginlega bara ennþá skemmtilegra og meira gefandi að vera starfsmaður og langskemmtilegast finnst mér að fara í pógó með krökkunum í frímínútum,“ segir hann.   

„Ég fór á allskonar námskeið sem nemandi sjálfur hér um árið og sum þeirra eru kennd enn í dag, önnur eru orðin úrelt og ný námskeið komin í staðinn. Til dæmis eru núna námskeið í gervigreind og sýndarveruleika sem var auðvitað ekki þegar ég var gutti. Ég lærði allskonar nytsamlegt fyrir framtíðina en fyrst og fremst var þetta bara virkilega skemmtilegt. Ég fór meðal annars í hvalaskoðun, niður í kjallarann í Þjóðminjasafninu, fornleifafræði, japönsk fræði, stjörnufræði og alls konar fleira. Sem 13 ára pjakkur er náttúrulega ómetanlegt að mæta í námskeið í geislafræði um morguninn, fara í skotbolta í frímínútum og svo beint í blaða- og fréttamennsku námskeið,“ segir Stefán Kári.  

Í dag hefur Stefán Kári lokið tveimur árum í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og stundar nú leikaranám við Listaháskóla Íslands þar sem hann er búinn með tvö ár af þremur. „Ég stefni svo á að klára viðskiptafræðina eftir leikaranámið og er með allskonar skemmtilegar hugmyndir hvað varðar framtíðina,“ segir Stefán Kári áður en hann þýtur af stað til að sinna nemendum í Háskóla unga fólksins og er það augsýnilegt að krakkarnir kunna vel að meta þennan mæta starfsmann.